Fara í efni
Umræðan

Hópur af alkóhólistum að ræða um unglingadrykkju

Þótt við ölumst upp í umhverfi með bílum, þýðir það ekki að við kunnum að keyra þá. Hvað myndi gerast ef við myndum senda börn út í umferðina án þess að kenna þeim umferðarreglurnar?

Stafrænn veruleiki skipar sífellt stærri sess og við verðum óróleg um leið og við missum nettenginguna. Símar eru allsstaðar í daglegu lífi og við höldum þeim nær en okkar eigin börnum. Eins og hópur af alkóhólistum ræðum við síðan um það hvernig við getum dregið úr unglingadrykkju.

Samkvæmt rannsókn Fjölmiðlanefndar og Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands eiga 95% barna í 4.-7. bekk og 98% unglinga í 8.-10. bekk á Íslandi eigin farsíma. Við gáfum þeim tækin, leyfðum þeim að sækja öpp sem þau höfðu ekki aldur til að nota og höfðum síðan ekki tíma til að hafa eftirlit með þeim. Síðan furðum við okkur á þeim afleiðingum sem þetta hefur alltsaman haft og hver beri ábyrgð á því.

Þótt börnin okkar séu ótrúlega klár að nýta sér nútíma tækni og alla þá stórkostlegu möguleika sem hún hefur fært okkur. Þá skortir þeim oft þroska og reynslu til þess að takast á við þau viðfangsefni sem síminn tengir þau við. Það er okkar að kenna börnunum netumferðarreglurnar því þannig valdeflum við þau sem notendur og tryggjum öryggi þeirra í stafrænum heimi sem er sannarlega ekki hættulaus.

10 atriði sem er mikilvægt að hafa í huga varðandi símasáttmála í grunnskólum

  1. Notkun er ekki sama og fræðsla. Að nota tæki til þess að leysa verkefni er ekki nóg eitt og sér, það þarf að kenna þeim örugga og skilvirka notkun þeirra. Þættir eins og t.d. miðlalæsi, stafrænt fótspor, samskipti á netinu, netöryggi, gagnrýnin hugsun og heimildaleit eru dæmi um mikilvæga þætti sem þarf að hafa með í símafræðslu.
  2. Nota má önnur tæki en síma í kennslu eins og t.d. spjaldtölvur í eigu skólans.
  3. Símar í einkaeigu bæta við utanaðkomandi áreiti eins og t.d. símtölum, skilaboðum og tilkynningum. Það er hægt að hringja í símann í afgreiðslu skólans í neyðartilfellum.
  4. Í símum margra nemenda er að finna öpp sem börn hafa hvorki aldur né þroska til að nota. Þrátt fyrir að flestir samfélagsmiðlar séu með 13 ára aldurstakmarki eru 60% barna á aldrinum 9-12 ára á Íslandi eru með aðgang á Snapchat og TikTok.
  5. Skólinn á að vera öruggur staður þar sem nemendur eiga ekki að hafa áhyggjur af því að myndir og myndbönd séu tekin af þeim á skólalóðinni og deilt áfram án samþykkis.
  6. Gæta þarf að stafrænu fótspori nemenda sem verða að geta stundað sitt nám án þess að viðkvæmum persónuupplýsingum sé safnað gegnum öpp og forrit í skólastarfi.
  7. Meðan að síminn er aðgengilegur er freistingin mikil. Gefum börnum og ungmennum frið til þess að stunda sitt nám og þroskast félagslega í samskiptum í frímínútum. Það er nægur tími samt eftir af deginum. Við förum í skólann til að læra, á klósettið til að gera þarfir okkar og leggjumst í rúmið til að sofa. Þurfum við símann til þess að trufla okkur á þessum stundum?
  8. Við leitum í símann þegar að okkur leiðist og okkur dettur ekkert annað í hug til að gera. Aðstoðum þau við að finna leiðir til þess að nýta tímann frekar en eyða honum. Þekkja börnin þín leiki eins og hlaupa í skarðið, eina krónu og yfir? Fara þau í símann bara af því allir eru í símanum og því þau þekkja ekkert annað en að geta alltaf leitað í þá. Geta börn í dag sett upp dagskrá fyrir heilan dag án skjátækja og nettengingar?
  9. Höfum börnin með í að setja reglurnar. Fræðsla er mikilvægur þáttur samhliða símasáttmála. Börn sem hafa fengið fræðslu koma mér sífellt á óvart í því hversu góðan ramma þau eru tilbúin að setja um sína eigin notkun. Þau minna okkur líka á mikilvægi þess að ramminn gildi líka um þá sem eldri eru því það erum við sem erum fyrirmyndirnar þeirra.
  10. Ómögulegt er að hafa yfirsýn yfir efni í símum í einkaeigu. Þannig geta þau flett upp og sýnt öðrum á skólalóðinni efni eins og t.d. klám, skaðlegar áskoranir, hatursfullt efni, líkamsmeiðingar og slagsmál. Börn og unglingar eru áhrifagjarnari en fullorðnir og átta sig síður á afleiðingum gjörða sinna.

Sjá einnig: Börn eigi skilið frí frá áreiti síma í skólum

Skúli Bragi Geirdal er verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15