Hin gáttin

Hvers vegna þreytist ég ekki á því að benda á að árið 1995 opnuðu Nýsjálendingar aðra gátt inní landið sitt og bera það saman við þá uppbyggingu sem við eigum að standa að á Akureyrarflugvelli og Akureyri? Jú, Qeenstown er umlukin fjöllum líkt og Akureyri og gerir því aðflugið sambærilegt.
Flugvöllurinn í Queenstown á Nýja-Sjálandi.
En þetta þarf nefnilega að vera pólitísk ákvörðun og landsbyggðarstefna en ég fullyrði að þetta er ein hagkvæmasta efnahagsaðgerð sem hægt er að fara í á Íslandi í dag. Allt tal um að Ísland sé uppselt og að við getum ekki tekið við fleiri ferðamönnum á ekki við hér á Norðausturlandi. Hér er töluvert rými til að bæta í allt árið og hagsmunaaðilar annarsstaðar á landinu eiga ekki að geta komið í veg fyrir að hér byggist upp alvöru alþjóðaflugvöllur og þar með önnur alvöru gátt inn í landið.
Uppbyggingin
Queenstown í Nýja-Sjálandi umbreyttist úr litlum fjalla- og skíðabæ eins og Akureyri er yfir í alþjóðlega ferðamannamiðstöð eftir að reglulegt millilandaflug hófst árið 1995. Ferðaþjónustan óx hratt og gerði svæðið að einum þekktasta „all-season“ áfangastað Nýja-Sjálands. Íbúafjöldinn á svæðinu hefur meira en þrefaldast frá 1996 til 2023 einfaldlega með því að ákveða að opna aðra gátt inní landið og vinna stöðugt að bættu aðflugi og uppbyggingu flugvallarins.
Þróunin
Uppbygging ferðamannastaðarins hófst árið 1995 þegar fyrsta reglubundna alþjóðlega flugleiðin (Sydney – Queenstown) var opnuð. Þetta gjörbreytti aðgengi að svæðinu og setti af stað mikla uppbyggingu í gistingu og afþreyingu. Mikil áhersla var á vetraríþróttir og skíðasvæði voru þróuð áfram, þannig varð Queenstown „vetrarhöfuðborg“ Nýja-Sjálands. Á árunum 1995 til 2000 fjölgaði svo flugleiðunum, aðallega frá Ástralíu.
Akureyrarflugvöllur. Mynd: Hörður Geirsson
Á árunum 2000 til 2010 var áfangastaðurinn þróaður yfir allt árið, ekki lengur bara vetrartengt aðdráttarafl. Áhersla var á uppbyggingu hótela, veitingastaða og ævintýra afþreyingar. Á árunum 2010 til 2019 fjölgaði gestum verulega sem fóru um flugvöllinn ár hvert og var komið í 2,3 milljónir farþega 2019. Stórir alþjóðlegir fjárfestar komu inn í hótelgeirann, Queenstown flugvöllur var stækkaður og ferðaþjónusta varð langstærsti atvinnuvegur svæðisins.
2020–2021 COVID-19 leiddi til algörs hruns í komu ferðamanna líkt og annarsstaðar í heiminum. Fjöldi íbúa á svæðinu jókst þó áfram.
Undanfarin ár eða 2022 til 2025 hefur orðið mjög hröð endurreisn ferðaþjónustu eftir covid og hefur gestafjöldi nálgast aftur fyrra hámark eða yfir 2,5 milljónir ferðamanna sem fara um flugvöllinn á ári.
Íbúaþróun (Queenstown - Lakes District):
- 1996 ~15.000 íbúar
- 2006 ~22.000 íbúar
- 2013 ~29.000 íbúar
- 2018 ~39.000 íbúar
- 2023 ~52.000 íbúar
Akureyri hefur alla burði til að þróast næstu 30 árin líkt og Qeenstown gerði í það að verða 50 þúsund manna borg með daglegu millilandaflugi og stóraukinni ferðaþjónustu og afþreyingu allt árið. Við þurfum einfaldlega að ákveða að það sé það sem við viljum gera til að auka atvinnutækifæri og hagsæld í okkar landshluta en tækifærið er svo sannarlega til staðar.
Þórhallur Jónsson er varabæjarfulltrúi á Akureyri


Stöndum með Háskólanum á Akureyri

Sterkt skólasamfélag á Akureyri, sameiginleg ábyrgð og framtíðarsýn

Reynslunni ríkari eftir fjárhagsleg áföll síðustu ára

Börnin í Móahverfi sem munu þurfa skutl um allan bæ
