Fara í efni
Umræðan

Grimmd mannsins

Mikið er malað um kattamálið svokallaða á Akureyri - og víðar.

Ég hef aldrei átt hund eða kött, en veit fyrir víst að báðar tegundir eru fagrar. En báðar eru grimmar á sinn hátt. Þó ekkert í líkingu við grimmd mannsins.

Fyrir það fyrsta: ekki virðist vera hægt að rökræða tilfinningar. Hvað þá nörl*

Fyrstu mistök sem dýraeigendur gera er að taka hund eða kött sem barnið sitt. Hundar og kettir eru ekki börn. Fólk sem fær sér gæludýr veit að þau deyja fyrr eða síðar. Deyja sem sagt fyrr en aðrir. Fyrr en börnin. Söm er sorgin. Fólkið á samt að vita betur. Og það veit betur. Þeir sem vita það ekki eru nörl.*

Á dögunum tók ég viðtal við tvo bæjarfulltrúa á Akureyri: Gunnar Gíslason og Hildu Jönu Gísladóttur (ekkert tengd). Og vandi minn er þessi: ég er sammála báðum. Það má sennilega hnikra eitthvað til þar sem þessi reglugerð á ekki að koma til framkvæmda fyrr en 2025. Við höfum þó nokkur ár. Mér fannst Hilda Jana hafa sitthvað til síns máls þegar hún talaði um að hægja á málinu, jafnvel sjá til. En.

Kröfuhörðustu gagnrýnendur tala um að verið sé að breyta eðli katta með þessari reglugerð. Það er ekki satt. Hver flutti hunda og ketti úr sveitinni, þar sem þeir höfðu verið í árhundruð, inn í borgir og bæi, fyrir svona 50-100 árum? Var spurt um eðli katta og hunda þá? Nei, þeir voru beygðir að þörfum og tilfinningum manna. Hvað hefur gerst síðan þá? Ekkert! Síðast þegar ég vissi kunnu kettir ekki að lesa. Ekki einu sinni reglugerðir. Enda eru þeir aldrei spurðir álits. Maðurinn veður áfram í blindni, og sérgæska hans skal ráða för. Aldrei er kötturinn, sem saknar sveitarinnar, spurður álits.

Ef kattaeigendur yfir línuna bæru ábyrgð á sínum dýrum (t.d. utandyra) þá væri staðan betri. En það virðist vera til of mikils ætlast.

Nú um stundir er vinsælt á vefnum að skammast út í þetta mál, ekki síst hjá fólki eins og vini mínum sr. Svavari Alfreð, Gísla Marteini sem ég þekki ekki hætishót, né heldur Loga Bergmann, sem hefur gert Akureyri kauptilboð. Ég vona að hann kaupi Eyrina. Sleppum brekkunni í þeim kaupum. Verið velkomnir allir vinir Akureyrar, og verði ykkur að góðu að vinna skítverkin sem kattaeigendur á Akureyri vilja ekki sinna.

Kisur eru fallegar. Þær eru kúrur. En þær eru eigingjarnar og veiðieðlið venst ekki af þeim þótt þær eigi góða eigendur. Sama hver kaupir.

Ég fer ekki af þeirri skoðun að maðurinn ræður för í þessu dýraríki svokölluðu. Maðurinn tekur dýrin með sér. Spyrjið bara Nóa!

Það sem ég get ekki sætt mig við er að nútímamaðurinn skuli segja: ég á kött og hann má allt, líka vaða yfir þig (nágrannann), og eigandanum er shit-sama.

Og ég er ekki byrjaður á einum anga dýraríkisins sem er daglegt brauð í garðinum mínum á brekkunni: fuglum.

Ef ég er eini vinur fugla á Akureyri og nágrenni þá er gott að vita það. Ég lifi við það.

Ef kattaeigendur geta ekki haldið aftur af þessum elskulegu gæludýrum sínum á mesta annatíma annarra dýra þá á að senda þau í sveitina. Ábyrgðin er alltaf þeirra. Og í GUÐSBÆNUM ekki koma ábyrgðinni yfir á aðra. Grimmd mannsins felst í því að laga dýrategund að sér. Maðurinn er ekki að hugsa um dýrið heldur sjálfan sig. Svo koma reglur. Þá verður allt gaggalagú.

* Nörl er nýyrði og tal kattavina sem hlusta ekki á rök sama hvað.

Helgi Jónsson er rithöfundur og annt um fugla, ekki síður en önnur dýr.

Ljósmynd: Sigurður Ægisson.

Lærðu að nota nalaxone nefúða, það getur bjargað lífi

Ingibjörg Halldórsdóttir skrifar
07. júní 2024 | kl. 11:15

Þingmenn opnið augun ­og finnið kjarkinn

Jón Hjaltason skrifar
05. júní 2024 | kl. 15:10

Hvað er að frétta í lífi án frétta?

Skúli Bragi Geirdal skrifar
05. júní 2024 | kl. 12:00

Gaza - Almenningur og stjórnvöld á Íslandi verða að ná samstöðu

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
04. júní 2024 | kl. 16:40

Bílastæðagjöld á Akur­eyri og á Egils­stöðum

Ingibjörg Isaksen skrifar
30. maí 2024 | kl. 16:16

Ég kýs Katrínu

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
30. maí 2024 | kl. 06:00