Fara í efni
Umræðan

Gætum að sögulegum minjum Akureyrar

Akureyringar hafa til þessa borið gæfu til að haga þróun byggðarinnar þannig að sögu bæjarins má enn að nokkru leyti lesa úr hverfum og byggingum hans. Misgamlir bæjarhlutar hafa hver sín einkenni og vitna um tíðarandann hverju sinni. Húsin segja frá aðstæðum og hag bæjarbúa og glöggt auga getur greint hvernig gömul hús hafa tekið breytingum og verið endurbætt með mildi og varúð þannig að jafnvel þau elstu gegna enn mikilvægu hlutverki þótt orðin séu allt að tveggja alda gömul.

Byggðin er því áhugaverðari sem hún hefur frá meiru að segja. Sögulegt samhengi umhverfisins er gæði sem ekki verða metin til fjár og þau gæði tilheyra samfélaginu í heild sinni.

Bæjaryfirvöld hafa hingað til lagt áherslu á varðveislu eldri bæjarhluta.

Í gildandi aðalskipulagi er lögð áhersla á að varðveita sérkenni bæjarins og að megindrættir bæjarmyndarinnar séu styrktir í samræmi við byggingarlistastefnu sveitarfélagsins. Einnig er lögð áhersla á að bæjarmyndin hafi mótast af mannvirkjum frá ýmsum tímum og mikilvægt sé að tengslum við fortíðina og upprunann sé haldið með varðveislu þess sem hefur byggingarlistar, sögulegt og menningarlegt gildi.

Bæjarstjórn hefur jafnframt sett sér stefnu í byggingarlist sem er í góðum samhljómi við skipulagsstefnuna. Þar segir m.a. að mikil verðmæti felist í byggingunum í bænum. Þessi verðmæti eru bæði fjárhagsleg og menningarsöguleg. Sagan og þróun samfélagsins er lesin úr byggingunum, samhengi tímans er áþreifanlegt í bæjarmyndinni þar sem mætast hús fyrri tíma og líf og starf nútímans.

Í gildandi deiliskipulagi fyrir Spítalaveg og Tónatröð er gert ráð fyrir að nýbyggingar falli sem best að núverandi byggð og að hlutföll, stærðir og útlit nýrra bygginga skuli taka mið af þeim byggingum sem fyrir eru og myndi samfellu við núverandi byggð.

Íbúar bæjarins hafa ekki látið sitt eftir liggja í verndun gamallar byggðar, bæði einstakir húseigendur og aðrir bæjarbúar sem láta sér annt um yfirbragð og þróun bæjarins. Samkvæmt lögum er mótun hins manngerða umhverfis byggð á samráði við almenning þar sem hagsmunir heildarinnar eiga ávallt að vera hafðir að leiðarljósi.

En nú eru blikur á lofti.

Bæjarstjórn Akureyrar, sem gegnir meðal annars því lögbundna hlutverki að annast skipulagmál bæjarins og á að gera það með hag almennings í fyrirrúmi, hefur falið öðrum aðila, byggingarfyrirtæki, að sjá um endurskoðun á deiliskipulagi við Spítalaveg og Tónatröð og stefnt er að því að fyrirtækið reisi þau hús sem skipulagið gerir ráð fyrir og selji þau síðan. Eins og nærri má geta eru áform fyrirtækisins hagnaðardrifin og við þessar aðstæður er horft fram hjá sögulegu samhengi byggðarinnar og önnur sjónarmið höfð að leiðarljósi.

Í húfi eru menningarsögulegar minjar

Byggðin í Eyrarlandsbrekkunni við Spítalaveg varð til á fyrstu árum 20. aldar þegar gríðarlega miklar breytingar urðu á íslensku samfélagi. Ísland var að rétta úr kútnum og framfarir urðu mjög miklar bæði á andlegum og efnislegum sviðum. Um aldamótin 1900 bjó þorri landsmanna enn í torfhúsum sem voru flest án upphitunar. Húsakynni voru óheilnæm, berklaveiki var útbreidd og hreinlæti var víða ábótavant.

Allt var þetta að breytast til batnaðar undir lok 19. aldar og í upphafi þeirra 20. Í Innbænum eru margvíslegar minjar um þessa þróun, en einna merkilegastar eru minjaperlur um lækningasögu og sjúkrahússögu landsins. Fyrsti íslenski læknirinn á Akureyri, Eggert Johnsen lét árið 1835 reisa húsið Aðalstærði 14- Gamla spítala sem þaðan í frá var aðsetur lækna staðarins og var breytt í fyrsta sjúkrahús bæjarins árið 1874.

Árið 1896 kom Guðmundur Hannesson til starfa sem héraðslæknir á Akureyri og hóf hann strax undirbúning að byggingu nýs spítala á svokölluðum Undirvelli í Eyrarlandsbrekkunni, við Spítalaveg 11 Guðmundur teiknaði sjálfur nýja spítalann og teikning Guðmundar hefur varðveist. Spítalinn var gríðarlegt framfaraskref í heilbrigðismálum á Akureyri. Vatnsleiðslur voru í húsinu og vatnssalerni. Gluggar voru tvöfaldir og mjög stórir svo húsið var bjart.

Guðmundur var mjög framfarasinnaður og áttaði sig vel á samhengi heilsufars og híbýlahátta. Hann hrinti af stað viðamikilli rannsókn á því hvernig bæta mætti byggingarhætti þjóðarinnar og gerði sjálfur fjölda uppdrátta að íbúðarhúsum fyrir íslenska bændur. Athyglisvert er að hann var þeirrar skoðunar að á hverjum bæ ætti að vera eitt herbergi sem hentaði vel sem sóttkví til að torvelda útbreiðslu smitsjúkdóma.

Sjálfur byggði Guðmundur sér fallegt timburhús árið 1899 við Spítalaveg 9, rétt neðan við spítalann og skar sjálfur skreytingar á húsgöflunum.

Sóttvarnarlög voru sett árið 1903 og Guðmundur Hannesson teiknaði sóttvarnarhús á Akureyri vestan spítalans sem tekið var í notkun árið 1906. Húsið var i byrjun notað sem sóttkví fyrir sjómenn en síðar til að hefta útbreiðslu berkla. Það er við Tónatröð 8 og gengur undir nafninu Sóttvarnarhúsið.

Árið 1920 var byggt hús við norðurhlið spítalans. Á fjórða áratugnum voru uppi hugmyndir um að byggja nýjan spítala sunnan hins gamla og árið 1940 var tekið í notkun hús sem átti að vera fyrsti áfangi hins nýja spítala. Það hús stendur enn og er númer 11 við Spítalaveg en ber einnig nafnið Stekkur. Sama ár var reist sérstakt hús fyrir geðveikradeild spítalans við hlið Sóttvarnarhússins. Það stendur ennþá og er númer 6 við Tónatröðog hefur verið kallað Litli -Kleppur.

Árið 1953 tók Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri til starfa (nú Sak) og þar með var spítalinn við Spítalaveg aflagður. Spítalahúsið var þá rifið og viðir þess endurnýttir í skíðahótelið í Hlíðarfjalli en viðbyggingin frá 1920 var gerð að íbúðahúsi sem enn stendur við Spítalaveg 13.

Varðveislugildi byggðarinnar

Menningarsögulegt gildi byggðarinnar er mikið. Byggðin í Eyrarlandsbrekkunni við Spítalaveg og Tónatröð tilheyrir elsta hluta byggðar á Brekkunni og er þar með eitt af elstu hverfum bæjarins. Elstu húsin eru byggð á árunum 1899 - 1908. Fimm húsanna eru hluti af þróunarsögu spítala á Akureyri. Mörg húsanna hafa því bæði gildi sem hluti af heild en jafnframt sjálfstætt menningarsögulegt gildi. Flest gömlu húsanna eru að formi til upprunaleg. Lítið er um yngri viðbyggingar og breytingar sem hafa verið gerðar á útliti þeirra í gegnum tíðina eru hófstilltar og rýra ekki varðveislugildi þeirra. Byggingarlistarlegt gildi svæðisins ber hæst í Spítalavegi 9 en húsið er byggt í svokölluðum sveitserstíl og er fyrsta húsið á Akureyri sem reis í þeim byggingarstíl. Timburhúsaröðin efst við Spítalaveg hefur einnig umtalsvert gildi vegna byggingarlistar.

Umhverfisgildi svæðisins er fólgin í staðsetningu byggðarinnar í Eyrarlandsbrekkunni sem tengist elsta bæjarhluta Akureyrar með Spítalavegi. Byggðin situr fallega í brekkunni og stakstæð húsin raða sér við Spítalaveg og að hluta til við Tónatröð. Víðsýni er til og frá sem eykur gæði byggðarinnar og byggingarnar eru áberandi í bæjarmyndinni og sjást víða að. Það kallar á vönduð vinnubrögð við þróun og uppbyggingu svæðisins til framtíðar.

Byggðin í Eyrarlandsbrekkunni hefur mikið varðveislugildi en óhjákvæmilegt er að hún þróist og breytist í tímans rás. En breytingarnar þurfa að lúta þeirri grundvallarforsendu að virða og styrkja söguleg og fagurfræðileg einkenni byggðarinnar líkt og stefnan er sett fram í gildandi Aðalskipulagi. Í umræðu um verndun byggingararfs hefur hugtakið samþætt verndun áunnið sér sess. Með því er átt við að verndun og uppbygging haldist í hendur. Breytingum skal hagað þannig að þær styrki þá þætti í byggðinni sem varðveislugildi hennar felst í og grundvallaratriði er að huga að mælikvörðum þannig að eldri og yngri byggð geti tónað saman án þessa að raska heildaryfirbragði byggðarinnar.

Áform, sem nú eru í undirbúningi, um byggingu fjögurra stórra fjölbýlishúsa vestan Tónatraðar er í engu samræmi við núverandi byggð og spilla henni vegna stærðar, formsköpunnar/útlits og efnisvals. Ásýnd allrar byggðarinnar í Eyrarlandsbrekkunni mun gjörbreytast og hluti af sögulegri vídd tapast. Skipulagsáform byggingarfyrirtækisins kalla á að Sóttvarnarhúsið frá 1906 sem er friðað samkvæmt lögum um menningarminjar, og Litli - Kleppur verði fjarlægð til að koma fyrir stórum fjölbýlishúsum.

Ef skipulagshugmynd byggingaverktakans nær fram að ganga þá verður því fórnað sem síst skyldi, þ.e.a.s. sögulegt samhengi byggðarinnar verður skert – sýnilegum minjum um þá framvindu sem skóp Spítalaveg og byggðina við hann verður fækkað. Spítalavegur án minjanna um spítalasöguna verður alls ekki eins áhugaverður fyrir vikið.

Áskorun um betri aðferð í samræmi við hag almenning

Við skorum á bæjaryfirvöld að hverfa frá fyrrnefndum áformum um að láta byggingarverktaka eftir að breyta deiliskipulaginu. Í staðinn mætti efna til samkeppni eða útboðs á vegum Akureyrarbæjar um hugmyndir að skipulagi þar sem í verkefnislýsingu væri lögð mikil áhersla á að ný hús eigi að falla að heildaryfirbragði byggðarinnar en jafnframt að auka nýtingu svæðisins frá því sem nú er gert ráð fyrir í deiliskipulagi í samræmi við óskir bæjarstjórnar um þéttingu byggðar.

Hanna Rósa Sveinsdóttir er sagnfræðingur, Hjörleifur Stefánsson er arkitekt.
Höfundar unnu húsakönnun fyrir svæðið árið 2009 og hafa lengi unnið að byggingarsögulegum rannsóknum.

Tvær gamlar myndir af Spítalabrekkunni.

Yfirlitsmynd af svæðinu sem greinarhöfundar segja sýna vel tengingu Spítalavegar og byggðarinnar við hann, og elsta bæjarhlutans.

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15