Fara í efni
Umræðan

Fyrsta skóflustunga að 160 barna leikskóla

Heimir Örn Árnason, formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrar, var ekkert að vesenast með stunguspaða. Myndir: Rakel Hinriksdóttir

Heimir Örn Árnason, formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrar, tók í dag fyrstu skóflustunguna að nýjum leikskóla sem rísa mun við Naustagötu í Hagahverfi á Akureyri. Leikskólinn hefur hlotið heitið Hagasteinn.

  • Byggingin verður í heild ríflega 1.800 fermetrar.
  • Gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði skipt upp í tvo áfanga. Fyrri áfanginn með fimm deildum á að verða tilbúinn í ágúst 2026.
  • Fullbúinn verður skólinn með átta leikskóladeildum fyrir nemendur á aldrinum eins til sex ára með allt að 47 stöðugildum en fjöldi starfsfólks er áætlaður 52-57.

 

Heimir búinn að taka fyrstu skóflustunguna fyrir leikskólanum Hagasteini. Á mynd ásamt Kristínu Jóhannsdóttur, sviðstjóra fræðslu- og lýðheilsusviðs (t.v.) og Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra (t.h), en hún sagði nokkur orð við tilefnið og lýsti ánægju yfir áfanganum. Mynd: RH

„Leitað er eftir góðri lausn á húsnæðismálum leikskólans með það í huga að nýting á lóðinni verði sem best út frá því starfi sem á sér stað í leikskólanum,“ segir í tilkynningu frá Akureyrarbæ. „Markmið bæjarins er einnig að útlit húss og lóðar taki mið af því umhverfi sem byggingin er í og þjóni starfsemi leikskóla sem best. Leikskólinn verði aðlaðandi bæði að utan og innan og aðkoma að honum verði auðveld. Á lóðinni er nokkur trjágróður sem lögð er sérstök áhersla á að nýta sem best fyrir leikskólalóðina. Lóðin er einnig í góðum tengslum við fallega náttúru og útivistarsvæði með trjárækt.“

Þar segir einnig að áhersla verði lögð á hollustu og hreyfingu leikskólabarna í Hagasteini, umhverfismennt, flokkun og útivist. „Þannig verður öryggi og heilnæmi í hávegum haft. Skólinn mun starfa samkvæmt lögum og reglugerðum um leikskóla, aðalnámskrá leikskóla, menntastefnu Akureyrarbæjar og Réttindaskóla UNICEF.“

Áætlað er að skólastjóri Hagasteins verði ráðinn á vorönn 2026 og komi í beinu framhaldi að frekari mótun á áherslum skólans. 

 

Starfsfólk Umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar var ánægt með áfangann. F.v. Ævar Guðmundsson og Sigurður Gunnarsson, verkefnastjórar nýframkvæmda og Guðríður Friðriksdóttir, sviðsstjóri. Með þeim á myndinni er Böðvar Kristjánsson verkefnastjóri Húsheildar Hyrnu. Mynd: RH

Að klára verkefnin – hvað er í gangi á Ásnum ?

Jón Stefán Jónsson skrifar
07. júlí 2025 | kl. 08:50

Ef við getum ekki lækkað fasteignaskatt, þá eigum við að hagræða

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
03. júlí 2025 | kl. 14:00

Verulegt rými til framfara

Árni Guðmundsson skrifar
02. júlí 2025 | kl. 11:00

Látið hjarta Akureyrar í friði

Guðjón Heiðar Pálsson skrifar
01. júlí 2025 | kl. 06:00

Fiskeldi og samfélagsábyrgð

Eyjólfur Ármannsson skrifar
30. júní 2025 | kl. 09:45

Hver borgar brúsann?

Ingibjörg Isaksen skrifar
28. júní 2025 | kl. 12:00