Fara í efni
Umræðan

Fimm frábær og gleðileg jól

Tuð. Það nennir enginn að hlusta á síendurtekið tuð. Það er afar skiljanlegt. Og deilur pólitíkusa og annarra kjörinna fulltrúa fyrir opnum tjöldum fá meir og meir á sig þennan stimpil – tuð. Tuðið tekur á sig ýmsar myndir, aðsendar greinar eins og þessa, misgáfulegar bókanir í fundargerðum eða háfleygar yfirlýsingar á samfélagsmiðlum um eigið ágæti á kostnað andstæðingsins. En þetta form er víst óhjákvæmileg afurð þess stjórnarfyrirkomulags sem við höfum valið okkur, lýðræðið. Winston Churchill sagði einu sinni eitthvað á þá leið að lýðræðið væri versta aðferðin til að stjórna, fyrir utan allar hinar aðferðirnar sem reyndar hafa verið. Og það er kannski punkturinn með þessum skrifum, þ.e. á meðan við kjósum lýðræðið þá verður ekki frá tuðinu alfarið komist.

En allt er nú gott í hófi og jólahátíðin bara alveg handan við hornið. Af þeim sökum legg ég ekki meira á ykkur, í bili a.m.k. Þess í stað eru hér fimm atriði sem eru frábærlega gerð og starfsmenn og stjórnendur hjá Akureyrarbæ sem og bæjarbúar allir eiga hrós skilið fyrir.

  • 1. Snjómokstur á göngu- og hjólastígum.

Á árinu hefur það verið til algerrar fyrirmyndar hvernig bærinn hefur staðið að því að hreinsa göngu- og hjólastíga. Þeir sem kjósa annað slagið að skilja bílinn eftir heima þegar farið er í vinnu eða út í búð, eiga einfaldlega ekki bíl eða stunda útivist í bæjarlandinu eru farnir að geta stólað á það að komast ferða sinna án vandræða þegar mjöllinni kyngir niður. Vel gert!

  • 2. Öllum 12 mánaða gömlum börnum tryggt leikskólapláss á innritunartímabili ársins.

Með útsjónarsemi og hugmyndaauðgi var hægt að veita öllum 12 mánaða gömlum börnum leikskólapláss í haust. Gengið var hratt og vel til verka í vor til að leysa flókna stöðu sem var í uppsiglingu varðandi húsnæði og mönnun fyrir þessi litlu kríli. Vel gert!

  • 3. Lýðheilsukortið.

Á tímum þar sem samvera fjölskyldna verður alltaf meiri og meiri áskorun, og afþreying verður sífellt dýrari og dýrari er lýðheilsukortið frábært framtak á vegum bæjarins til þess að stuðla að heilsu bæjarbúa, bæði andlegri og líkamlegri. Eitt kort fyrir alla fjölskylduna á skíði, skauta og sund. Vel gert!

  • 4. Aðstaða til íþróttaiðkunar.

Þrátt fyrir umræðuna undanfarin ár, ekki síst í aðdraganda síðustu bæjarstjórnarkosninga, er aðstaða til íþróttaiðkunar hér í bænum með miklum ágætum. Höfum í huga að hér búa rétt rúmlega 20.000 manns, eða aðeins fleiri en í Grafarvogi. Samt tekst okkur að reka fjöldamörg íþróttahús fyrir hinar ýmsu greinar, skíðasvæði, knattspyrnuhús, skautahöll, akstursíþróttasvæði, aðstöðu fyrir hestamenn. Þetta er alls ekki tæmandi talning. Vel gert!

  • 5. Samningur við Samtökin 78 um hinseginfræðslu.

Á tímum þar sem alvarlegt bakslag virðist hlaupið í réttindabaráttu hinsegin fólks steig forystufólk bæjarins fram fyrir skjöldu og undirritaði samning við Samtökin 78 um hinseginfræðslu inn í grunnskóla bæjarins. Hér er á ferðinni gríðarlega mikilvægt mál, því baráttan við fordóma byrjar á fræðslu. Vel gert!

Með þessum örfáu orðum sendi ég vinum mínum í bæjarpólítíkinni, sem og bæjarbúum öllum, óskir um gleði og frið yfir hátíðirnar og farsældar á komandi ári.

Sindri Kristjánsson er varabæjarfulltrúi

Umhverfisslys í Kjarnaskógi

Elín Kjartansdóttir skrifar
02. september 2024 | kl. 14:30

Gulir og glaðir að störfum

Bragi V. Bergmann skrifar
02. september 2024 | kl. 14:25

Telja Brussel vera langt í burtu

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
01. september 2024 | kl. 06:00

Íbúðabyggð við bílastæði?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
30. ágúst 2024 | kl. 08:30

Tala eingöngu um vextina

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
29. ágúst 2024 | kl. 19:00

Grunnskólarnir okkar allra

Sindri Kristjánsson skrifar
29. ágúst 2024 | kl. 06:00