Enn af umhverfismálum í Eyjafirði

Í júlí í sumar skrifaði ég lítinn pistil um umhverfismálin í Eyjafirði, hugleiðing um stöðu mála. Hann er hér.
Hörgársveit veitti starfsleyfi til efnistöku úr Hörgá í vor sem leið. Í framhaldi af því horfðu margir skelfingaraugum á þegar farvegur Hörgár var tættur upp og ekið á brott í vor sem leið.
Frétt á ruv.is greinir frá þessu: Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ógilti í gær þrjár ákvarðanir sveitarstjórnar í Hörgársveit og eina ákvörðun Fiskistofu um leyfi til efnistöku í Hörgá í Eyjafirði. Náttúruverndarsamtökin Náttúrugrið kærðu í vor leyfin en þau sneru að umfangsmikilli efnistöku úr farvegi árinnar.
Fréttin á RÚV: Úrskurðarnefnd fellir úr gildi leyfi fyrir efnistöku í Hörgá
Í þessum litla pistli mínum frá í júlí gerði ég efnistöku að umræðuefni. Afturköllun starfsleyfis í Hörgá sýnir að þessar áhyggjur mínar voru réttmætar og þessi mál eru í algjörum ólestri. Það er áhyggjuefni þegar sveitarstjórnir veita leyfi til stórkostlegrar efnistöku á ýmsum stöðum og hafa síðan ekkert eftirlit eða skoðanir á því og eftir standa alvarleg umhverfisspjöll til langrar framtíðar. Það á ekki að vera á valdsviði sveitastjórna að veita slík hryðjuverkaleyfi án strangs eftirlits. Ég ætla mér ekki að fara nákvæmlega yfir það sem mér finnst ekki í lagi á svæðinu hvað þetta varðar en ekki verður hjá því komist að nefna sveitarstjórn Hörgársveitar sérstaklega. Allir sem eitthvað fylgjast með þessum málum vita að efnistökumál í því ágæta sveitarfélagi eru mikið áhyggjuefni og þarf þá bara að nefna Moldhaugnahálsinn og Hörgá til að varpa ljósi á það sem við er átt. Báðar þessar framkvæmdir setja ljótan blett á umhverfismálin í Eyjafirði.
Það skortir sannarlega á að sveitarfélögin í firðinum móti sér sameiginlega stefnu þar sem náttúran er látin njóta vafans sem ætti jafnframt að hindra að einstaka sveitarstjórni komi málum á þann stað nú blasir við í Hörgársveit. Að börn framtíðarninnar eigi að sitja uppi með svona ákvarðanir er ekki réttlætanlegt.
Ég ætla því að endurtaka það sem ég hef áður sagt. Sveitarfélög í Eyjafirði verða að móta sér sameiginlega stefnu í þessum málum til að koma í veg fyrir stórslys í framtíðinni. Það verður að skerpa á þessari samvinnu til að einstök sveitarfélög láti undan kröfum um tekjur þar sem landið er selt burt og gróðamenn fái veiðileyfi á landið.
Við getum ekki haldið svona áfram.
Jón Ingi Cæsarsson er fv. formaður umhverfisnefndar Akureyrar


Við þurfum raunverulegt nýtt upphaf

Fátæktin og leiguhúsnæði

Án öflugs atvinnulífs megum við okkur lítils

Hvað þarf Sjálfstæðisflokkurinn?
