Fara í efni
Umræðan

Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson

Hinn 16. nóvember – er afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar sem kalla má fyrsta nútímaskáld Íslendinga, skáldið sem fann fegurð íslenskrar náttúru og sameinaði íslenska ljóðhefð og erlend kveðskaparáhrif – og hann einn hefur verið kallaður „listaskáldið góða“.

Miklar andstæður voru í lífi Jónasar Hallgrímssonar, föðurlausa drengsins norðan úr Öxnadal sem lifði meginhluta fullorðinsára sinna með erlendri þjóð, lífsnautnamanninn og hinn einmana ferðalang, gamansama æringjann og þunglynda manninn, trúmanninn og náttúrufræðinginn.

Staðalmyndir af Jónasi Hallgrímssyni

Í vitund þjóðarinnar hafa einkum verið dregnar upp af honum fjórar myndir. Segja má að allt séu þetta staðalmyndir, og þótt þær séu ólíkar, renna þær stoðum undir þá skoðun, að maðurinn Jónas Hallgrímsson hafi horfið í skugga staðalmyndanna. Fyrirferðarmest er helgimyndin, mynd af „listaskáldinu góða“, „óskabarni Íslands“, mynd af stjórnmálamanni sem barðist fyrir endurreisn Alþingis á Þingvöllum, endurreisn íslenskrar tungu og farsæld þjóðarinnar undir kjörorðunum „nytsemi, fegurð, sannleikur og skynsemi“. Í öðru lagi er myndin af náttúrufræðingnum sem ferðaðist um landið með „hundi og hesti“ við erfiðar aðstæður og mætti víða litlum skilningi við rannsóknir á gæðum landsins, sem áttu að verða undirstaða að aukinni hagsæld þjóðarinnar. Í þriðja lagi er mynd af „drykkfelldum útigangsmanni á biluðum skóm á flórhellunum í Kaupinhafn“, eins og Halldór Laxness kemst að orði í Alþýðubókinni. Sú mynd er að sönnu byggð á sögnum samtíðarmanna Jónasar, en er engu að síður villandi – þótt hún yrði lífseig með þjóðinni. Í fjórða lagi er mynd af föðurlausum dreng sem átti engan að nema elskuríka móður, sem harmaði snöggan dauða manns síns, og systur sem drengurinn dáði alla ævi.

Föðurlausi drengurinn

Vorið 1828, þegar Jónas var tvítugur að aldri og enn við nám í Bessastaðaskóla, orti hann kvæðið „Ad amicûm“ þar sem segir:

Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman,
föður sviptur
er mér fremst unni;
þannig liðu
langir dagar
meini blandnir
á marga lund.

Enginn atburður hafði meiri áhrif á Jónas en dauði föður hans – og söknuðurinn fylgdi honum alla ævi eins og víða kemur fram í kvæðum hans. Í „Saknaðarljóðum“, sem birtust í Fjölni 1837, þegar Jónas var á þrítugasta aldursári, segir til að mynda:

Þá var eg ungur
er unnir luku
föðuraugum
fyrir mér saman.
Man eg þó missi
minn í heimi
fyrstan og sárstan
er mér faðir hvarf.

...

Man eg og minnar
móður tár
er hún aldrei sá
aftur heim snúa
leiðtoga ljúfan,
ljós á jörðu
sitt og sinna
- það var sorgin þyngst.

Á þennan látlausa hátt segist Jónas muna fyrsta og sárasta missi sinn í heimi „er mér faðir hvarf“ – og hann minnist tára móður sinnar „er hún aldrei sá aftur heim snúa leiðtoga ljúfan, ljós á jörðu sitt og sinna - það var sorgin þyngst“.

Undir lok ævinnar líkir Jónas sér við lítinn fugl í kvæðinu „Grátittlingur“. Kvæðið er trúarlegt og heimspekilegt kvæði, byggt á minningum frá æskuárunum, ort 1843, tveimur árum áður en hann dó. Í upphafi lýsir hann sælu bernskunnar:

Ungur var eg, og ungir,
austan um land á hausti
laufvindar blésu ljúfir,
lék eg mér þá að stráum.
En svo kom áfallið – hretið:
En hretið kom að hvetja
harða menn í bylsennu,
þá sat eg ennþá inni
alldapur á kvenpalli.

En drengurinn er mjög dapur og hefur áhyggjur af hinu eina sem hann á, trippinu henni Toppu og hrútnum, og hann fer út í veturinn að bjarga þeim:

Þetta var allt, sem átti
ungur drengur, og lengi
kvöldið þetta hið kalda
kveið eg þau bæði deyðu.

Drengurinn kveið því að þetta eina, sem hann átti, dæi, en óttinn við dauðann, dauðageigurinn, fylgdi Jónasi frá því hann missti föður sinn átta ára að aldri. Og hann fer út í veturinn að leita að trippinu og hrútnum, en fann lítinn grátittling í snjónum:

Eg fann á millum fanna
í felling á blásvelli
lófalága við þúfu
lítinn grátittling sýta.

Og drengurinn leggst á kalt svellið, leggur lítinn munn á þunnan væng fuglsins – og losar vænginn sem fyrsta frostnóttin hafði fest:

Kalinn drengur í kælu
á kalt svell, og ljúft fellur,
lagðist niður og lagði
lítinn munn á væng þunnan.

Kvæðinu lýkur með ályktun skáldsins vegna frelsis þess er fuglinn hlaut:

Lítill fugl skaust úr lautu,
lofaði guð mér ofar,
sjálfur sat eg í lautu
sárglaður og með tárum.

Felldur em eg við foldu
frosinn og má ei losast,
andi guðs á mig andi,
ugglaust mun eg þá huggast.

Þarna má finna eitt af einstökum nýyrðum Jónasar: „sárglaður“. En skáldið er – eins og fuglinn – felldur við foldu. Ef andi guðs andar á hann, eins og andi drengsins andaði á fuglinn, ugglaust mun eg þá huggast.

Lítill vafi leikur á, að í kvæðinu er Jónas að lýsa tilfinningum sínum og sorg og hann vonast til þess að andi guðs andi á hann og hann muni þá huggast.

  • Séra Helgi Sigurðsson teiknaði myndina af Jónasi Hallgrímssyni á dánarbeði hans 27. maí 1845.

Tryggvi Gíslason var skólameistari Menntaskólans á Akureyri frá 1972 til 2003.

Réttindi neytenda á tímum Covid

Brynhildur Pétursdóttir skrifar
13. nóvember 2020 | kl. 13:00

Jón Sveinsson - Nonni

Haraldur Þór Egilsson skrifar
17. nóvember 2020 | kl. 10:30

Matthías Jochumsson

Tryggvi Gíslason skrifar
18. nóvember 2020 | kl. 17:09

Íslenska, nútími og lestur

Sverrir Páll skrifar
19. nóvember 2020 | kl. 10:10

Bílastæðaklukkur í miðbæ Akureyrar

Anna Kolbrún Árnadóttir skrifar
20. nóvember 2020 | kl. 10:00

Norðanbækur fyrir jólin

Sverrir Páll skrifar
21. nóvember 2020 | kl. 10:00