Fara í efni
Umræðan

Bryggjan

Saga úr Innbænum - IV

Það var mikið ævintýri fyrir okkur krakkana að standa á Höepfnersbryggjunni á kvöldin með veiðistangir og moka upp þorski. Ég segi moka upp, því á vorkvöldum þegar loðnan gekk inn fjörðinn fylgdi þorskurinn eftir feitur og fallegur og við lönduðum heilu kippunum. Umræðuefnið var líflegt þegar við stóðum þarna fram á nótt við veiðar. Menn ræddu besta spóninn, Toby eða Sonnettu, já eða síli. Sumir höfðu áhyggjur af hvernig ætti að bregðast við ef mávur beit á agnið sem stundum kom fyrir. Ég fullyrði að þeir eru stærri en þið bjuggust við ef þið sæuð þá í návígi eins og við óhjákvæmilega gerðum stundum. Það gat líka komið fyrir að einhver okkar færi í sjóinn þegar atgangurinn var mikill en sem betur fer varð aldrei alvarlegt slys.

Þegar mæður okkur þreyttust á að fá heim fleiri fiska en fjölskyldan gat torgað kvöld eftir kvöld, reyndum við að selja aflann og gengum í hús. Það gekk reyndar misvel ef teygðist úr vertíðinni.

Þegar ég man fyrst eftir mér var gömul trébryggja sunnan við hafnarminnið eða dokkina eins og við kölluðum litlu höfnina. Bryggjan var að hluta gerð úr tréskipi sem endaði sem stefni syðst. Þar á endanum var góður veiðistaður og fékkst stundum silungur. Þá lá trékantur frá bryggjunni í vestur í átt að Bryggjuhúsinu sem er rauða húsið austan við Túlníusarhúsið og svo hélt fjaran áfram í sveig inn eftir, alveg að suðaustur horninu á velgirtum garði Thorarinsen fjölskyldunnar. Þetta var fyrir daga Drottningarbrautarinnar. Á bakkanum ofan við fjöruna stóðu nokkrar trillur sem kallarnir dunduðu við og ég man lyktina af tjöru og olíu og heyri enn þægilega óþægilega skraphljóðið þegar þeir skófu hrúðurkarla og gamla olíumálningu af kjölum og byrðingum bátanna. Innar á bakkanum stóðu svo bílar Guðmundar frá Steðja og venjulega lá karlinn undir þeim með olíukönnuna eða skiptilykilinn.

Þarna í fjörunni var gaman að leika sér á sumrin og margir áttu einhvers konar bát eða kajak og oft voru búnir til flekar. Á veturna var farið í jakahlaup eða á skauta.

En aftur niður að bryggju. Á uppfyllingunni stóðu kofar Jóhanns Franklíns frænda míns bakarameistara, Gúa og fleiri þar sem þeir geymdu veiðarfæri sín. Þarna var gaman að vera. Kofunum var raðað þétt saman en þó myndaðist bil á milli þeirra, rétt svona mátuleg til að við krakkarnir gátum troðið okkur á milli. Þannig myndaðist völundarhús sem var alveg kjörið fyrir feluleik. Þegar karlarnir voru farnir heim fórum við strákarnir upp á þök kofanna og hoppuðum á milli þeirra í spennandi en dálítið áhættusömum eltingaleik. Gott ef stelpurnar voru ekki stundum með. Kofarnir sem stóðu austast voru lengra frá og aðeins þeir huguðustu náðu þangað. Einhverjir duttu niður á milli í hita leiksins en ekki man ég eftir stórslysum né beinbrotum.

Svo var sjálf dokkin, þar sem bátarnir voru. Þá voru þetta verulega vandaðir trébátar af ýmsum stærðum og gerðum og þeir vögguðu tignarlega þarna á legunum. Þarna var Gunni Sót á kafi í loðnu og ekki alltaf bláedrú og venjulega var Jói Sigtryggs ekki langt undan á skekktunni sinni á leið út eða inn úr veiðitúr. Það var mikið kappsmál að fá að komast með í bátsferðir og stundum tókst það. Eystri armurinn af bryggjunni sem var umhverfis dokkina var úr stálskipi sem sökkt hafði verið þarna og smíðað bryggjugólf ofan á. Skipsskrokkurinn hallaði nokkuð og það var spennandi að skríða inn um göt sem voru á hliðunum og inn á upphaflega skipsdekkið. Þarna var frekar þröngt og ekki fyrir þá að komast nema sem voru nettir og innan við fermingu. Stundum gat það komið fyrir að flæddi að og erfitt varð að komast út aftur án þess að blotna.

Ofan við dokkina var Tunnuverksmiðjan sem var alveg sérstakur ævintýraheimur á bak við rykuga gluggana. Þar máttum við alls ekki koma inn fyrir dyr en gerðum það nú samt af og til. Karlarnir sem í minningunni voru allir stórir og í bláum vinnusamfestingum, voru okkur góðir, hjálpuðu okkur að smíða sverð úr tunnustöfum og skyldi úr tunnulokum. Stærstur og sterkastur var Ragnar sem raðaði tunnunum í að manni fannst óendalega háa stafla. Þær rúlluðu til hans á löngum brautum sem sveigðust í gegnum verksmiðjuna. Ég man eftir Ágústi pabba Ása ljósmyndara sem var svo kvikur og hress og blístraði listavel eins og fugl. Þetta var fyrsta verksmiðjan sem ég leit augum og þetta virkaði allt svo framandi og stórt og flókið. Það var talsverður hávaði frá vélunum en gott að komast í hlýjuna og best fannst mér lyktin af viðnum og saginu sem var út um allt. Sagið sóttu síðan Ingólfur Magnússon og fleiri og fluttu í pokum upp í gil og settu undir hestana sína.

Þessi höfn á gömlu Akureyrinni undan Búðarlæknum, sem áður var mikilvægt athafnasvæði dönsku kaupmannanna er nú að mestu horfin en var í millitíðinni mikilvæg úgerðarstöð gömlu loðnuveiðimannanna með skipstjóradrauma sína og stórkostlegt leiksvæði okkar krakkanna í Innbænum.

Ólafur Þór Ævarsson er Akureyringur, fæddur og uppalinn í Innbænum. Hann er geðlæknir og starfar einnig að forvörnum og fræðslu hjá Streituskólanum.

Göngugatan – af hverju er þetta svona erfitt?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
30. maí 2023 | kl. 20:00

Leitin að fullkomnun

Skúli Bragi Geirdal skrifar
30. maí 2023 | kl. 14:00

Ungir iðkendur íþróttafélaga mæta afgangi hjá bæjarstjórn Akureyrar

Guðmundur Oddsson skrifar
28. maí 2023 | kl. 08:00

Erindi í messu á degi eldri borgara

Jóhannes Geir Sigurgeirsson skrifar
21. maí 2023 | kl. 06:00

Essin stóru í uppstigningardagsviku

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
19. maí 2023 | kl. 16:00

Meira um brjóst og rassa

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
19. maí 2023 | kl. 14:14