Fara í efni
Umræðan

Annað ákall til Akureyringa! Áfram Þór/KA!

Hér er ég mættur aftur með ákall til Akureyringa og annars stuðningsfólks Þórs/KA. Vil bara minna á að það er frítt á þá tvo heimaleiki sem við eigum eftir og hvet okkur öll til að mæta á völlinn og láta vel í okkur heyra, berja trommur, öskra liðið áfram og taka þátt í að berjast fyrir fleiri stigum í pokann. Minni á breyttan leikdag gegn ÍBV, fáum þær norður miðvikudaginn 14. september.

Í lok greinarinnar ætla ég svo að kynna fyrir ykkur kjörið tækifæri til að styrkja Þór/KA og fá skattaafslátt.

Stuðningur úr stúkunni

Miðvikudaginn 14. september er komið að næstsíðasta heimaleiknum hjá Þór/KA á þessu tímabili, enn einum gríðarlega mikilvægum leik þar sem stelpurnar þurfa á stuðningi að halda til að næla sér í fleiri stig í botnbaráttunni. Frítt verður á þennan leik, eins og síðasta heimaleik, í boði stuðningsmanns félagsins.

Fjöldi fólks svaraði ákallinu síðast og mætti á leikinn gegn Þrótti. Með mikilli baráttu og samheldni innan liðsins og hjá okkur öllum með öflugum stuðningi úr stúkunni tókst okkur að sigra og koma þremur mikilvægum stigum í pokann. En við megum ekki halla okkur aftur í hægindastólunum og slaka á heldur verðum við áfram að gefa allt okkar í verkefnið, innan sem utan vallar, standa saman eins og sú öfluga úlfahjörð sem við erum.

Leikurinn gegn ÍBV er ekki á hentugum tíma fyrir þau sem eru í hefðbundnum störfum, en hann hefst kl. 16:45 á miðvikudaginn. Það er alveg sama, betra að mæta seint en ekki. Enn betra ef við getum bara tekið okkur frí frá vinnu í 1-2 tíma til að styðja stelpurnar okkar.

Hvetjið dætur ykkar til að mæta á völlinn

Mér verður tíðrætt um liðið mitt sem stelpurnar okkar. Á því er önnur hlið því stelpurnar okkar eru fyrirmyndir fyrir allar litlu stelpurnar sem eru að æfa fótbolta eða langar til að byrja að æfa. Allar stelpurnar – og strákana – sem langar til að leggja mikið á sig, verða góð í fótbolta og ná langt.

„Litlu“ stelpurnar okkar stækka og sameinast sjálfar sem leikmenn Þórs/KA eftir að hafa verið í öðru hvoru félaginu upp í 4. flokk, koma saman í öflugum 3. flokki þar sem við höfum teflt fram þremur liðum í sumar, þar af tveimur í keppni A-liða. Eitt þessara þriggja liða tryggði sér bikarmeistaratitil um helgina með sigri á Breiðabliki/Augnabliki. B-liðið okkar er á leið í undanúrslit Íslandsmóts B-liða núna í vikunni. Bæði A-liðin eru í harðri toppbaráttu í lokalotu Íslandsmótsins, hvort í sínum riðli, A og B. Stelpurnar sem núna eru fulltrúar okkar í 3. flokki voru fyrir nokkrum árum litlu stelpurnar í Þór og KA sem mættu á leiki til að horfa á fyrirmyndirnar, jafnvel að leiða þær inn á völlinn fyrir leik og/eða vera boltasækjar.

Það sem ég er að reyna að segja með þessu að það skiptir máli fyrir árangur í nútíð og framtíð að Þór/KA standi saman eins og öflug fjölskylda, takist í sameiningu á við verkefnin í blíðu og stríðu. Það er auðvelt að styðja liðið sitt þegar vel gengur, en það er ekki síður mikilvægt þegar á móti blæs.

Ég held að við getum öll verið sammála um mikilvægi þess að við leyfum þessum ungu stelpum að mæta á völlinn, hvetjum þær til að mæta á völlinn, sitja í stúkunni, fá trommur og hvetja liðið okkar áfram. Nokkrar í Þór/KA-liðinu starfa sem þjálfarar hjá Þór eða KA og eru þannig fyrirmyndir sinna eigin leikmanna, bæði í þjálfuninni og þegar þær spila fyrir meistaraflokkinn hjá Þór/KA. Einn þjálfara 3. flokks er Ágústa Kristinsdóttir, fyrrum leikmaður Þórs/KA.

Þetta er því einfalt. Leyfið dætrum ykkar að mæta á leiki – hvetjið dætur ykkar til að fara á leiki og fylgjast með fyrirmyndunum spila fótbolta. Viðhöldum þessum tengslum á milli ungra iðkenda og leikmanna í meistaraflokki. Það er mikilvægt og vænlegt til árangurs til lengri og skemmri tíma. Og ef dætur okkar vilja fara á leiki og skemmta sér við að horfa á stelpurnar okkar þá ætti ekki að vera flókið fyrir fjölskyldur þeirra að slást í för með þeim, mæta á völlinn og hvetja liðið.

En mig langar líka að nefna aðra hlið á því að styðja Þór/KA.

Styrkur sem veitir skattaafslátt

Það er alls ekki ókeypis að reka Þór/KA frekar en önnur íþróttafélög og/eða -lið, eins og ég hef margoft bent á í ræðu og riti. Það er því ekki aðeins mikilvægt að við stöndum saman og styðjum stelpurnar okkar með því að mæta á völlinn heldur þarf félagið og fólkið sem sér um að halda því gangandi á því að halda að bæjarbúar og annað stuðningsfólk sýni okkur velvilja og skilning þegar kemur að rekstri félagsins.

Einstaklingar og fyrirtæki geta lagt sitt lóð á vogarskálarnar með margvíslegum hætti, en mig langar að benda á eina mjög einfalda leið. Það er styrkur til félagsins sem hefur í för með sér lækkun á tekjuskattsstofni þannig að þú færð til baka sem nemur skattaprósentunni af styrknum sem þú reiðir fram.

Á vef ríkisskattstjóra – skatturinn.is – má finna upplýsingar um skattafrádrátt vegna gjafa/framlaga til almannaheillafélaga. Ríkisskattstjóri birtir þar lista yfir viðurkennda móttakendur, en almannaheillafélög (þar á meðal íþróttafélög) þurfa sjálf að sækja um að vera á þessum lista og endurnýja þá umsókn árlega. Þór/KA kvennabolti er á þessum lista. Framlag til félagsins getur því veitt einstaklingum skattaafslátt.

Þetta gengur þannig fyrir sig: Ég ákveð að styrkja Þór/KA og kem þeim skilaboðum til stjórnar félagsins með tölvupósti í thorka@thorka.is og þaðan fara upplýsingarnar áfram til framkvæmdastjóra og bókara. Mikilvægt er að láta vita um þessi áform til að tryggja að upplýsingar um styrki berist til skattsins þegar upp er staðið. Áhugasöm mega einnig hafa samband við mig í haralduringolfsson@gmail.com eða síma 824 2778 og ég kem upplýsingum áfram.

Þegar ég styrki Þór/KA get ég valið um að millfæra beint inn á reikning félagsins – 0565-26-3289, kt. 690317-1090 – eða fá reikning í heimabanka. Ég gæti líka ákveðið að setja fasta (sjálfvirka) millifærslu í gegnum heimabankann mánaðarlega allt árið, fengið reikning/kvittun fyrir því í lok árs og þyrfti svo ekki að gera meira. Félagið skilar upplýsingum um slíka styrki til skattsins og frádrátturinn er áritaður fyrir fram á framtalið þitt, í reit 155 í kafla 2.6. á tekjusíðu framtals.

Hér er einfalt dæmi – og höldum því einföldu með því að miða við lægsta skattþrepið, 31,45%. Ef þú styrkir um 350.000 krónur á ári og lækkar tekjuskattstofninn þar með um sömu upphæð færðu til baka sem nemur skattinum af þeirri upphæð, eða 110.075 krónur. Það að styrkja Þór/KA um 350.000 krónur kostar þig þannig þegar upp er staðið 239.925 krónur. Útkoman getur svo verið mismunandi eftir styrkupphæð og tekjum.

Lágmarksupphæð til að nýta slíkan frádrátt er 10.000 krónur, en að hámarki getur einstaklingur fengið lækkun á tekjuskattsstofni upp á 350.000 krónur, og hjón upp á 700.000 krónur. Þú getur þannig lagt þitt af mörkum til félagsins, til dæmis með einni greiðslu síðla árs eða með því að greiða fasta upphæð mánaðarlega, og færð sem nemur reiknuðum skatti af styrkupphæðinni til baka.

Auðvitað liggja slíkir peningar ekki á lausu hjá venjulegu fólki. Nóg annað við þá að gera. En ég get ákveðið styrkupphæðina sjálfur.

Ef ég vil og get farið þessa leið þá er þetta lágmarksfyrirhöfn, en getur ef fleiri fara sömu leið orðið gríðarlega mikilvægt fyrir rekstur félagsins. Hugleiðið þetta. Einfalt, auðvelt og upphæðin sem félagið fær inn í reksturinn er hærri en raunverulegur kostnaður þinn við að styrkja félagið þegar upp er staðið.

Ofanritað á við um einstaklinga, en rekstraraðilar geta einnig styrkt félagið og nýtt sér skattafrádrátt, sem getur numið 1,5% af rekstrartekjum á því ári sem gjöf er afhent eða framlag er veitt.

Nánar má lesa um þessa leið á vef skattsins – sjá hér.

Áfram, stelpur! Áfram, Þór/KA! Áfram þið, ágæta stuðningsfólk!

Haraldur Ingólfsson er liðsstjóri hjá Þór/KA og áhugamaður um knattspyrnu kvenna.

Fyrsti þjónustusamningur Akureyrarbæjar við Grófina geðrækt!

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir skrifar
22. nóvember 2023 | kl. 15:45

Sammála en þó á móti

Jón Hjaltason skrifar
20. nóvember 2023 | kl. 17:40

Áhugaverð hugmynd að nýtingu Tjaldsvæðisreitsins

Benedikt Sigurðarson skrifar
18. nóvember 2023 | kl. 15:00

Vakning um ofbeldi gagnvart verslunarfólki

Eiður Stefánsson skrifar
17. nóvember 2023 | kl. 12:35

Erfið staða bænda nú er okkur sem samfélagi að kenna

Hólmgeir Karlsson skrifar
15. nóvember 2023 | kl. 10:00

Sex gjaldfrjálsir klukkutímar og tekjutenging

Hulda Elma Eysteinsdóttir skrifar
10. nóvember 2023 | kl. 17:25