Fara í efni
Umræðan

Ákall til bæjarstjórnar Akureyrarbæjar

Bæta þarf þjónustu við fólk með heilabilun og aðstandendur þeirra á Akureyri.

Sólblómið er félagsskapur aðstandenda einstaklinga á Akureyri sem eru með heilabilun. Hópurinn hefur undanfarið rætt um að auka þurfi stuðning og þjónustu fyrir bæði einstaklinga sem eru með heilabilun á svæðinu sem og aðstandendur þeirra. Mikilvægt er að fólk sem greinist með heilabilun geti byrjað þjónustu í almennum úrræðum út í samfélaginu og á seinni stigum þegar sjúkdómurinn er lengra genginn og viðkomandi þarf að sækja um dvöl á hjúkrunarheimili, færist þjónustan þangað.

Auka þarf aðstoð við fjölskyldur sem eru að stíga fyrstu skrefin þegar einstaklingur innan hennar greinist með heilabilun. Umsóknarferli í þeim tilgangi að fá þjónustu og stuðning heim eru oft flókin og nauðsynlegt er að hægt sé að leita eftir og fá ráðgjöf frá fagfólki sem hefur þekkingu og reynslu á þessu sviði bæði fyrir einstaklinga með heilabilun og aðstandendur þeirra.

Fulltrúar í Sólblóminu hafa í gegnum hópavinnu dregið saman eftirfarandi atriði sem mest eru talin aðkallandi að ýta úr vör:

  1. Leggja áherslu á þjónustu/stuðning heim með það að markmiði að einstaklingur með heilabilun geti dvalið heima með maka og fjölskyldu sem lengst. Fjölga þarf fagfólki sem þekkir inn á hvernig skal annast einstaklinga með heilabilun og styðja við fjölskyldur þeirra.
  2. Auka liðveislu heim. Mikilvægt er að aðstandendur geti sinnt sjálfum sér, m.a. praktískum athöfnum í daglegu lífi og áhugamálum en séu ekki fastir í hlutverki umönnunaraðila. Sumir einstaklingar með heilabilun þurfa innlit á hverjum degi en fá kannski bara þjónustu þrjá daga í viku.
  3. Setja á laggirnar þjónustumiðstöð, svipað úrræði og Seiglan í Reykjavík sem er þjónustumiðstöð fyrir einstaklinga með heilabilun og aðstandendur þeirra. Að slíkt úrræði sé staðsett út í samfélaginu (utan stofnana) þar sem fram færi þjálfun og hópastarf og inn kæmu fagmenntaðir verktakar með ráðgjöf og stuðning af ýmsum toga (dæmi: heilabilunarráðgjöf, félagsráðgjöf, iðjuþjálfun, listmeðferð, sálfræðimeðferð, fjölskyldumeðferð, næringarráðgjöf, aðstoð við starfsþjálfun og umsóknarferli varðandi ýmsa þjónustu).
  4. Auka dagþjálfunarrými strax. Eins og staðan er í dag þá er allt að átta mánaða bið í dagþjálfunina sem er staðsett í Hlíð.
  5. Koma á aukinni samvinnu milli stofnana og allra þjónustuaðila sem koma að málefnum einstaklinga með heilabilun (Akureyrarbær / velferðarþjónustan, HSN, Heilsuvernd, Alzheimersamtökin, Heimahjúkrun, Heimaþjónusta). Horft til framtíðar: Alþjóðlega heilbrigðismálastofnunin (World Health Organization (WHO) hefur sérstaklega lagt áherslu á alvarleika þess að í dag er stærsta heilbrigðisvandamál heims – heilabilunarsjúkdómar. Í því samhengi vill hópurinn sérstaklega vekja athygli á því hvað öldrunarlæknar eru í lítilli prósentustöðu á Akureyri. Þetta þarf að skoða. Það bitnar á þjónustu við einstaklinga með heilabilun og fjölskyldum þeirra. Fulltrúar í Sólblóminu hafa nú þegar hvatt Akureyrarbæ og bæjarstjórn til meiri samvinnu við Alzheimer-samtökin og aðrar stofnanir í framtíðinni í þeim tilgangi að tryggja einstaklingum með heilabilun og fjölskyldum þeirra öflugt öryggisnet, velferð og þjónustu, sem þeir geta treyst þegar á reynir. Hópurinn bindur vonir við að við bæjarstjórn bregðist við því ákalli.

Fyrir hönd fulltrúa í Sólblóminu – aðstandenda fólks með heilabilun á Akureyri.

Olga Ásrún Stefánsdóttir er iðjuþjálfi og fjölskyldufræðingur. Hún er aðjúnkt við iðjuþjálfunarfræðideild Háskólans á Akureyri og starfar einnig sem ráðgjafi hjá Lausninni - Fjölskyldu og áfallamiðstöð á Akureyri.

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15

Ómenning í fjallinu

Adolf Ingi Erlingsson skrifar
12. apríl 2024 | kl. 11:25

Elínborg – meðmæli með biskupsefni

Björg Ágústsdóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 09:15

Í þágu ME-sjúklinga

Freyja Magnúsdóttir og Pétur Þór Jónasson skrifa
10. apríl 2024 | kl. 05:00

Umhyggja, kærleikur og mennska

Elínborg Sturludóttir skrifar
08. apríl 2024 | kl. 16:03