Fara í efni
Umræðan

Ákall til Akureyringa! Áfram, Þór/KA!

Stelpunum okkar í Þór/KA hefur ekki gengið sem skyldi að safna sigrum og stigum í Bestu deildinni í fótbolta. Nú ríður á að við stöndum saman og hjálpum stelpunum að komast á sigurbrautina. Ég vil gera mitt og biðla til ykkar, ágætu lesendur, að vera með í því og standa með stelpunum.

Þó það sé á köflum erfitt vil ég reyna að einbeita mér að jákvæðu hliðunum, horfa fram á við og leggja áherslu á björtu hliðarnar. Í liðinu eru frábærar fótboltakonur, ungar og eldri, efnilegar og frábærar, reyndar og óreyndar. Við höfum sýnt þessi gæði, en getum það miklu oftar og af meiri krafti. Mér finnst við vera að bæta okkur á ýmsum sviðum og það mun á endanum skila sér. Eitt er ég alveg viss um á þessari grýttu leið sem við höfum verið. Það er að við gefumst aldrei upp. Aldrei!

Gríðarlega mikilvægur lokasprettur

Fram undan er gríðarlega mikilvægur lokasprettur í Bestu deildinni. Liðið á eftir að spila fimm leiki í deildinni, þar af þrjá heimaleiki. Næsti leikur er þriðjudaginn 23. ágúst kl. 18, gegn Þrótti.

Þór/KA hefur notið öflugs stuðnings í gegnum tíðina, en mæting á völlinn hefur því miður dalað nokkuð undanfarin ár. Þeirri þróun langar mig til að snúa við með ykkar hjálp.

En af hverju ættum við að mæta á völlinn og hvetja stelpurnar okkar áfram? Af því að þær eru einmitt það, stelpurnar okkar. Ég á við og leyfi mér að fullyrða að uppeldisstefnan hjá Þór/KA og yngri flokka starfið hjá Þór og KA hefur skilað mörgum frábærum leikmönnum, jafnt inn í okkar lið, önnur lið á Íslandi og í atvinnumennsku hjá liðum erlendis. Í leikmannahópnum hjá Þór/KA er einn erlendur leikmaður, ein sem er að láni að sunnan, ein sem kom frá Grindavík og ein sem er uppalin hjá Völsungi á Húsavík, en allar hinar eru úr Akureyrarfélögunum. Ég fullyrði að þó leitað væri í öllum liðum, kvenna og karla, í öllum deildum á Íslandi að fá félög tefla fram álíka hópi heimaræktaðra leikmanna og Þór/KA. Auk þess erum við einnig með eitt af yngstu liðum landsins og mikinn efnivið í yngri flokkum.

Það kostar vissulega fórnir að gefa ungum heimastelpum tækifæri inni á vellinum, tækifæri til að gera mistök og læra og þroskast af þeim, en ég vil sjálfur miklu frekar starfa með þannig liði en að setja saman leikmannahóp þar sem heimastelpur sem fá tækifæri eru kannski teljandi á fingrum annarrar handar. Það þarf engan sérfræðing til að sjá hvernig þetta er hjá mörgum liðum sem við eigum í baráttu við – og bara mörgum liðum í öllum deildum íslensku knattspyrnunnar.

Ég er stoltur af samsetningu leikmannahópsins okkar þó þetta sé ekki mitt verk eða mínar ákvarðanir. Ég starfa stoltur fyrir og með slíkum leikmannahópi, með slíku félagi.

Verkefni sem krefst þolinmæði og stuðnings

Á undanförnum árum hafa orðið margar breytingar á leikmannahópnum á hverju ári, hvort tveggja þegar erlendir leikmenn sem höfðu verið hér í nokkur ár ákváðu að leita annað og okkar eigin stelpur leituðu á önnur mið, hér á landi og erlendis. Það segir sig sjálft að það tekur á þegar um það bil hálft byrjunarliðið hverfur á braut á hverju ári nokkur ár í röð. Það er erfitt verkefni fyrir stjórn og þjálfara að viðhalda álíka sterku liði þegar þróunin er þannig, en það er jafnframt spennandi og ögrandi verkefni fyrir okkur öll. Þannig verkefni krefst þolinmæði. Þolinmæði gagnvart því að við fáum að gera mistök og læra af þeim.

Þessi þolinmæði þarf að skila sér til okkar sem stuðningsfólks. Hún þarf að skila sér í því að við höldum áfram að mæta á völlinn og styðja okkar lið, stelpurnar okkar, þegar á móti blæs. Þetta er ekki skammtímaverkefni. Við þurfum bæði þolinmæði, framsýni, þrautseigju og baráttuanda til að gefast ekki upp þegar hindranirnar virðast óyfirstíganlegar. Við verðum að standa saman og sjá til þess að Þór/KA verði áfram í deild þeirra bestu og innan fárra ára aftur í allra fremstu röð – þar sem við viljum vera. Þetta er verkefni, en ekki vandamál.

Frítt á þrjá síðustu heimaleikina

Mig langar til að fá ykkur í lið með mér til að vinna að þessu verkefni, mæta á völlinn og styðja stelpurnar okkar eins og við höfum gert í gegnum tíðina og eins og þær eiga skilið. Ég höfða til knattspyrnuáhugafólks í báðum félögunum og bæjarbúa allra sem vilja að Þór/KA sé ávallt í fremstu röð. Ég höfða til stuðningsmannasveita, trommara og ykkar allra sem styðjið Þór og KA – mætið á heimaleikina hjá Þór/KA og hjálpið okkur að klára verkefnið sem fram undan er.

Fram undan eru þrír heimaleikir – 23. ágúst, 14. september og 25. september – þar sem öllu máli skiptir að liðið okkar safni stigum. Auðvitað einnig mikilvægt að sem flest af okkar fólki mæti á útileikina – sem eru 18. september og 1. október.

Nú ríður á að Akureyringar sameinist, mæti á völlinn og styðji liðið okkar af þeim krafti sem við höfum sýnt í gegnum árin að býr í stuðningsfólki okkar. Við höfum áður fyllt stúkuna oftar en einu sinni, oftar en tvisvar þegar vel hefur gengið, en nú er kominn tími til að fylla hana og sýna hvað í okkur býr þegar á móti blæs – utan sem innan vallar.

Það gleður mig að geta upplýst hér og annars staðar að með styrk frá stuðningsmanni félagsins hefur stjórnin ákveðið að frítt verði fyrir okkur öll á síðustu þrjá heimaleikina.

Áfram, stelpur! Áfram, Þór/KA! Áfram þið, ágæta stuðningsfólk!

Haraldur Ingólfsson er liðsstjóri hjá Þór/KA og áhugamaður um knattspyrnu kvenna.

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15