Fara í efni
Pistlar

Umhverfi og sjálfbærni: Segjum sögur

Ég man enn augnablikið sem ég áttaði mig á hversu víðtæk neikvæð áhrif mannkynið var að hafa á Jörðina. Árið var 1997 og ég sat á bókasafni í Fletcher skólanum við Tuftsháskóla í Bandaríkjunum. Ég var nýbyrjuð í meistaranámi í alþjóðasamskiptum. Planið var að sérhæfa mig í fréttamennsku og stjórnmálum Miðausturlanda. Af einhverri forvitni skráði ég mig samt í námskeið um alþjóðleg umhverfismál og varð heltekin af því sem ég lærði þar. Ég beinlínis beið eftir því að komast á bókasafnið og lesa greinar í þykku möppunni sem hafði að geyma lesefni námskeiðsins. Ég drakk í mig þessa nýju þekkingu með blöndu af brennandi áhuga og vaxandi óhug. Staðreyndirnar stöfluðust upp og þær litu ekki vel út.

Ég hafði haft áhuga á umhverfismálum fyrir þennan tíma. Ég man að fyrsta greinin sem ég skrifaði í háskólanámi í hagnýtri fjölmiðlun árið 1995 fjallaði um endurvinnslu á Íslandi (sem var vægast sagt mjög fábrotin á þessum tíma) og þegar ég var blaðamaður á gamla Degi, árin fyrir mastersnámið, var ég um tíma með sérstakan dálk sem hét „Jörðin okkar“. Þar skrifaði ég m.a. fyrsta pistillinn minn um loftslagsbreytingar eftir að lesa grein í Newsweek sem fjallaði um þær breytingar á loftslagi sem voru framundan. Það var samt ekki fyrr en á bókasafninu í Boston sem ég fór að sjá stóru myndina og átta mig á hversu víðtækur og alvarlegur vandinn var. Ég man ég hugsaði: „Hvar endar þetta eiginlega?“

Námskeiðið varð vendipunktur fyrir mig. Ég breytti um stefnu og sérhæfði mig í umhverfismálum og úrlausn deilumála með sérstakri áherslu á auðlindir og stjórnun náttúruauðlinda. Ég var bjartsýn og vongóð um að með aukinni fræðslu og þekkingu væri hægt að snúa þessari þróun við og ég vildi leggja mitt af mörkum í því verkefni.

Síðan eru liðin 25 ár. Ég hef unnið beint og óbeint að umhverfismálum stærstan hluta þess tíma sem háskólakennari, fræðikona, innan stjórnsýslunnar og sem ráðgjafi. Bjartsýnin sem ég fann fyrir í upphafi hefur vikið fyrir vonbrigðum yfir því hversu lítið hefur breyst til batnaðar. Þvert á móti þá siglum við sífellt nær þeirri brún sem gæti leitt til hruns vistkerfa. Þá er ég ekki bara að vísa í loftslagsbreytingar, sem hafa mest vægi í hinni opinberu umræðu, heldur ekki síður hversu mikið við höfum þrengt að náttúrunni og lífríki. Líffræðileg fjölbreytni er undirstaða lífs á jörðinni og lífshættir okkar eru að grafa undan þessum stoðum.

Ég hef mikið velt því fyrir mér undanfarið hvað hægt sé að gera til að dýpka tilfinningu okkar fyrir því hvernig við erum að fara með plánetuna og ná fram nógu afgerandi viðhorfsbreytingum í samfélaginu til að það leiði til raunverulegra breytinga. Í því samhengi dugar ekkert minna en djúpstæð umbreyting, bæði á heimsvísu og heima fyrir. Þetta á við um hagkerfið, neysluhyggjuna, viðhorf okkar til náttúrunnar og hvernig við sjáum rétt okkar til að nýta auðlindir hennar.

Ég er orðin þreytt á að þylja upp staðreyndir. Segja frá tölum og línuritum. Þekkingin ein og sér virðist ekki duga til. Við þurfum að kafa dýpra. Ná að snerta hjörtu. Segja sögur. Gera umhverfismálin persónuleg. Ná að kveikja á löngun sem flestra til að lifa í meiri samhljómi við náttúruna. Hægja á okkur og leggja áherslu á önnur verðmæti en hin efnislegu gæði en sífellt meiri neyslu. Kannski, ef nógu margir komast á þann stað, skapar það jarðveg fyrir kerfisbreytingar á stærri skala?

Auður H. Ingólfsdóttir er alþjóðastjórnmálafræðingur og eigandi Transformia, sjálfsefling og samfélagsábyrgð

Ylfingur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
14. október 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Aðalstræti 13

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
13. október 2024 | kl. 20:00

Ellefu bækur í jólagjöf

Jóhann Árelíuz skrifar
13. október 2024 | kl. 06:00

Hryllilega skemmtileg hryllingsbúð

Rakel Hinriksdóttir skrifar
12. október 2024 | kl. 18:00

Kjaftagleiðir Akureyringar

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
12. október 2024 | kl. 06:00

Eltu drauminn þinn – því draumar geta ræst

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
11. október 2024 | kl. 06:00