Fara í efni
Pistlar

Svínsleg jól

Lostakjökur læðist fram á varirnar þegar lýsið seytlar út um munnvikin og rennur niður hökuna. Tungubroddurinn titrar áfergjulega og reykt fleskið leysist upp í munnvatninu sem spýtist kröftuglega upp í góminn. Ljósrauðar tægjurnar þokast niður meltingarveginn þar sem ofreyndir magavöðvar taka að hlykkjast og skakast. Sölt tár streyma úr augunum og sameinast lýsinu og lækurinn rennur í einum farvegi niður um hálsmálið. Nasavængirnir þenjast út og gleypa í sig svínslega angan og unaðshrollur fer um líkamann. Aaa, aðfangadagskvöld, uppspretta lífsins lystisemda. Stuna. Slef.

„Góði besti, geturðu ekki þurrkað þér um munninn?“ hváði konan og tróð akfeitum svínakjötsbita upp í gímaldið með berum höndum.

„Þér ferst að tala,“ sagði ég og sleikti út um, með lýsisbrák upp á olnboga.

„Meira svín!“ æpti dóttirin kámug upp fyrir haus.

Flugbeittur hnífurinn fann leið gegnum dillandi fituna og þykk sneið valt frá hryggnum. Konan rýtti með girndarglampa í pírðum augunum þegar risavaxin sneiðin lenti í höndum dótturinnar og hvarf upp í vaxandi ginið sem hófst og hneig og skilaði kjötinu niður í maga en fitunni á diskinn. Hraðar en auga á festi læsti konan klónum um hvítt, hlaupkennt fitubeltið og slafraði því í sig.

„Pabbi svín!“ hrein sú stutta og saup á kolsýrðu vatni með sykri, koffíni, bragðefnum, rotvarnarefnum, ýruefnum, leysiefnum, uppnefnum og litarefnum.

„Ég er ekkert svín,“ tuldraði ég móðgaður og bjóst til að hasta á dóttur mína þegar móðir hennar rak upp gól og spurði hvort ég ætlaði að láta barnið svelta. Þá rann upp fyrir mér að stelpuanginn var bara að biðja um meiri mat og varð ég fúslega við þeirri bón.

Litli stubburinn var auðvitað ekki enn kominn á kaf í svínaríið og borðaði prúður sinn barnamat sem oftar en ekki samanstóð af hakkaðri lifur eða stöppuðum fiski og kartöflum. Maukaður banani var líka kjörinn í eftirrétt. Það þurfti ekki að standa í neinu stappi með að fá hann til að borða, sá ætti nú aldeilis eftir að láta til sín taka á jólunum í fyllingu tímans.

Þannig gekk borðhaldið fyrir sig á aðfangadagskvöld og ekki voru aðfarirnar fágaðri næstu tvö kvöld. Þess á milli var troðið í sig konfekti, ís, smákökum, laufabrauði og farið í tertuveislur til ættingjanna. Ómælt magn af gosdrykkjum og kaffi innbyrt og ósjaldan setið á klósettinu með magann lafandi milli læranna og allt fast. Offylli, óhóf, æ og ó.

Loks dálítil stund milli stríða. Fiskbúðingur með bökuðum baunum eða soðning. Vatn. Gallabuxurnar teknar fram að nýju. Of þröngar. Og von bráðar fer allt í sama horfið með áframhaldandi svínakjötsneyslu og gosdrykkjaþambi, konfekti og kökum. Grömmin sem kveðja um helgina snúa við sem kíló í kringum áramótin. Og þá aftur soðning og fögur fyrirheit.

Öðruvísi mér áður brá, ég segi ekki annað. Allt fram undir þrítugt þurfti maður ekki að hafa áhyggjur af þyngdaraukningu í kjölfar jólahaldsins og gat notið hvers bita. En síðan fór líkaminn að hægja á brennslunni, eigandi hans að hreyfa sig minna og afleiðingarnar urðu alveg skelfilegar, forkastanlegar, geigvænlegar og komu gjörsamlega aftan að manni. Reyndar framan á líka.

Já, hann fékk bók og hún fékk nál og tvinna, ef marka má það sem segir í jólalaginu. Ætli kröfurnar séu ekki dálítið meiri í dag. Bókin stendur þó alltaf fyrir sínu og er hentug gjöf fyrir unga sem aldna, konur sem karla. Auðvelt er að skipta á bókum, ef titillinn leggst ekki vel í mann. Því miður er varla nógu rómantískt að gefa eiginkonunni bók í jólagjöf, annars væri mikill vandi leystur. Það veldur eiginmönnunum alltaf jafn miklu hugarangri að leita að gjöf handa konunni.

Það er víst blessað smádótið, glingrið, prjálið, lepparnir, dulurnar og arfinn sem heilla konurnar mest. Ekki má lengur gefa þeim góðan pott, straujárn, skrúbb eða uppþvottagrind, eitthvað sem kemur þeim að notum. Nei, demantar, silfur og glóandi gull, silkiblússur og silfurrefskápur skulu það vera. Kröfurnar eru svo yfirgengilegar að maður er farinn að efast um…

 

Sigurlaug Svanbjörnsdóttir lagði dagblaðið Dag frá sér án þess að lesa pistilinn alveg til enda og leit á Harald eiginmann sinn sem var að bisa við að plokka bragðlaust og aflóga nikótíntyggjó úr tönnunum til þess eins að troða nýju upp í sig. Það var hann sem hafði skrifað þennan mjög svo jólalega pistil undir dulnefninu Geirmundur grami í hið ástsæla málgagn framsækinna Norðlendinga.

„Smekklegt,“ dæsti hún og hristi höfuðið.

Halli leit upp. „Hvað þá?“

„Nú, þessar viðbjóðslegu lýsingar þínar á borðhaldi fjölskyldunnar. Þú útmálar mig eins og rýtandi gyltu frammi fyrir alþjóð.“

Hann glotti. „Ég? Eins og ég hef margoft sagt þá er Geirmundur ekki ég heldur hliðarsjálf og konan í pistlunum er ekki þú. Þetta eru bara almennar háðsádeilur, lesendum til skemmtunar. Margir sjá sjálfa sig eða kunningja í spéspegli.“

„Já, já, ég veit allt um það, elskan. Þú ert bara búinn að vera svo lengi með þessa pistla að margir vita hver Geirmundur er og tengja þetta beint við heimilislífið hjá okkur. Þú þarft líka kannski að fara að skipta um gír þar sem þú ert komin í uppeldis- og kennslufræðina og stefnir á að verða virðulegur framhaldsskólakennari.“

Halli skellti upp úr þegar hann sá að Silla brosti. „Eins og þú, elskan. Já, það er stefnan. Kennari og rithöfundur. Og eiginmaður Sillu Svan, kennara og skálds. Kennarahjónin, hvern hefði grunað? Ég sé í anda einhvern blaðamann spyrja Söndru eða Andra síðar meir: Uuuu, var mikið lesið á þínu heimili?“

Þau hlógu bæði og ærðust gjörsamlega þegar Silla hló á innsoginu gegnum nefið með tilheyrandi óhljóðum.

„Var einhver að tala um rýtandi gyltu?“

Ágætu lesendur. Það er óþarfi að efast um geðheilsu mína á aðventunni. Hún er sjaldan upp á marga fiska hvort eð er. Þessi skrif hér eru hins vegar kafli úr ófullgerðri skáldsögu sem kallast Þröskuldur – Þrítugur 3/3 og er væntanlegt lokabindi í akureyrskum þríleik. Hinar bækurnar eru fáanlegar í Pennanum og hjá höfundi og heita þær Þrítugur 1/3 og Þremillinn – Þrítugur 2/3. Grunnurinn að þessum skáldsögum er sóttur ríflega þrjátíu ár aftur í tímann og sögutíminn er að mestu leyti þrjátíu ár, í kringum 1977-2007. Að hluta til er skáldsagan byggð upp í kringum pistla sem höfundur skrifaði í dagblaðið Dag um og fyrir 1990.

Birting þessa brots er framlag mitt til að krydda tilveruna fyrir jólin. Spurning hvort andi jólanna hafi nokkuð breyst á þrjátíu árum. Ég óska mönnum og músum, svínum og hrossum og jafnvel hundum og köttum fengsællar aðventu og kræsilegra jóla.

Höfundur er íslenskukennari og rithöfundur.

Ýviður á Íslandi

Sigurður Arnarson skrifar
17. júlí 2024 | kl. 15:00

Milliliðir maka krókinn

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
16. júlí 2024 | kl. 09:30

Dauðinn bak við stýrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. júlí 2024 | kl. 11:30

Blautir draumar

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
14. júlí 2024 | kl. 12:30

Ruslakallinn er með vasadiskó!

Orri Páll Ormarsson skrifar
12. júlí 2024 | kl. 10:10

Sögur úr Kjarna

Sigurður Arnarson skrifar
10. júlí 2024 | kl. 09:00