Fara í efni
Pistlar

Stórgóð sparnaðarleið

Æi, Bjarni Ben, það er svo leiðinlegt hvernig þú lætur. Þú veist vel að við erum báðir komnir á þann aldur að við viljum fara að slaka á og njóta lífsins, hafa bara svolítið gaman af því.

Ég nýt lífsins best þegar ég leyfi mér þann munað að ferðast bæði innanlands og erlendis, gista á hótelum. Mér finnst líka virkilega gaman að skoða landið mitt sem býður upp á ótrúlega mikla náttúrufegurð. Einnig hef ég mjög gaman af því að fara út að borða og gera vel við mig í mat og drykk og jafnvel kíkja í leikhús eða á tónleika.

En vandamálið er bara að þú ert alltaf að skattleggja allt og leggja fleiri álögur á okkur sem erum bara almennir þjóðfélagsþegnar og höfum kannski ekki mikið á milli handanna.

Fyrir um tveimur árum, mitt í miðri Covid bylgjunni, dreifðir þú til okkar peningum svo að við gætum ferðast og haldið þar með ferða- og veitingaþjónustunni gangandi. En núna er öldin önnur því það virðist vera mun meiri áhugi á að fá efnameiri útlendinga til landsins því þeir skila svo miklu í ríkiskassann. Staðan er orðin þannig hjá okkur almúganum að við getum ekki lengur leyft okkur þann munað að gista á hótelum hér á landi því það er alltof dýrt.

Nú, maður getur svo sem sleppt því að leggjast í einhver ferðalög og notið lífsins bara innanbæjar því að í all flestum bæjarfélögum eru frábærir matsölustaðir, tónleikastaðir og svo sem ekkert mál að fá sér einn öllara eða tvo. En svo kemur alltaf þetta en. Þessi lífsins gæði eru bara orðin svo dýr því þú setur svo háa skatta á allt sem er skemmtilegt. Hvernig á maður að geta leyft sér einhvern munað í þessu landi?

Það eru til fleiri leiðir eins og að leggja meiri skatt á hátekjufólkið. Nú, svo má líka tengja komandi launahækkanir við áfengisskattinn þannig að launin myndu hækka um rúmlega 7%.

Ég viðurkenni það að ég elska að vera lúxsuspési og gera vel við mig. Einnig viðurkenni ég það að ég drekk eina vodkaflöksku á viku. Núna kostar vodkaflaskan um 10.000 kall í ríkinu og það er ansi mikið finnst mér því að kókið sem ég blanda vodkann minn í kostar líka sitt.

En nú fann ég sparnaðarleið sem ætti að geta nýst fleirum. Ég er hættur að fara út að borða á Íslandi og kaupa mér drykki á barnum. Að sjálfsögðu mun ég ekki leyfa mér það að gista á hótelum hér á landi né fara á tónleika, mun samt kannski horfa á Heima með Helga. Það er einfaldlega miklu skynsamlegra að finna sér flug til útlanda á svona fimm til sexþúsund kall, fljúga út og fá sér pizzu og rauðvín í útlandinu. Fljúga svo beint heim aftur fyrir svipað verð og kaupa sér tvær vodkaflöskur í fríhöfninni á svona 2000 kall stykkið. Þannig að ef ég geri þetta um það bil tvisvar í mánuði þá ætti þetta að kosta mig svona um 40.000 þúsund og þá er ég að tala um að fara út að borða tvisvar með rauðvíni og öli og kaupa tvær eins líters vodaflöskur. Þetta er sama verð og ef ég færi í ríkið einu sinni í viku til að kaupa vodkann minn.

Ég veit að ég er ekkert sérlega sleipur í stærðfræði en ég held að þetta sé skynsamlegri kostur.

Ólafur Torfason er Akureyringur

Hús dagsins: Grundarkirkja

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
28. maí 2023 | kl. 19:00

Skógar og ásýnd lands

Sigurður Arnarson skrifar
27. maí 2023 | kl. 16:00

Ýviður Taxus baccata, L.

Sigurður Arnarson skrifar
24. maí 2023 | kl. 19:00

Vélmennin

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. maí 2023 | kl. 15:00

Hús dagsins: Hafnarstræti 86; Verslunin Eyjafjörður

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. maí 2023 | kl. 10:00

Útlönd

Sigurður Ingólfsson skrifar
15. maí 2023 | kl. 06:00