Fara í efni
Pistlar

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir, sagnfræðingur og staðarhaldari í Sigurhæðum, flutti eftirfarandi hugvekju við hátíðarmessu í Akureyrarkirkju í gær, 17. nóvember, tilefni af 150 ára afmæli Lofsöngsins. Matthías Jochumsson, höfundur sálmsins, lést á þessum degi - 18. nóvember - árið 1920._ _ _

Húsið Silfurhæðir eða húsið í brekkunni ofar Torfunefsbryggju sem Akureyringar gáfu sjálfir heitið Sigurhæðir var reist úr norsku fersku timbri sumarið 1903 fyrir Guðrúnu Runólfsdóttur fædda 1851 húsmóður, textílkonu og kvenréttindakonu og Matthías Jochumsson fæddan 1835 skáld, prest, menningarfrömuð og samfélags umbótasinna. Þau flytja inn í húsið 23. september 1903 og eiga hér um tuttugu góð ár - Sigurhæðir er þeirra listamannshreiður og menningarheimili.

Guðrún kom af myndarlegu heimili foreldra sinna í Saurbæ á Kjalarnesi þar sem mamma hennar var ljósmóðir og pabbinn staðarhaldari. Hún er sextán árum yngri en Matthías þegar þau kynnast í aðdraganda örlagaársins 1874, einmitt á Kjalarnesinu, þar sem Matthías er þá prestur, en giftast ekki fyrr en 1875. Þá hefur Guðrún alið dótturina Mattheu Guðrúnu - fyrsta barn þeirra af ellefu. Matthías er settur í leyfi frá preststörfum sökum þessarar tímaskekkju í getnaði, en beðinn um það nánast í sama andartaki að semja hátíðarsálm í tilefni þess að á árinu 1874 er Danakonungur að koma í fyrsta sinn í nýlenduna sína norður við Íshaf og það með stjórnarskrá og í tilefni af 1000 ára landnámshátíð.

Sigurhæðir, og turn Akureyrarkirkju - Matthíasarkirkju - fjarska. Mynd: Kristín Þóra Kjartansdóttir

Sálmurinn Lofsöngur verður til á Bretlandi í þremur erindum, fyrsta erindið, það sem yfirleitt er sungið, skrifar Matthías í Edinborg hjá Sveinbirni Sveinbjörnssyni tónskáldi, sem samdi svo lagið. Seinni tvö erindin semur Matthías svo í London hjá vinafjölskyldu á Englastræti þá í hálfgerðu hugarvíli yfir óskilgetna stúlkubarninu sínu uppi á Kjalarnesi. Og yfir framtíð sinni í heild. Hann er ekki á góðum stað í lífinu, veit ekki hvort hann á að giftast í þriðja sinn því tvær fyrri konur höfðu dáið eftir fárra missera hjónaband, hann er fullur trúarefa, ósáttari við kirkjuna - og er að vinna í því að kaupa stærsta dagblað landsins, Þjóðólf, sem hann svo gerir, með bresku fjármagni. Hátíðarsálmurinn sem löngu síðar eða árið 1983 varð með lögum þjóðsöngur Íslendinga er því saminn upp úr þessari miklu lífskrísu Matthíasar og þeirri stund í lífi þeirra beggja þegar leiðir þeirra liggja saman, Guðrúnar og Matthíasar. En Matthías nær í Bretlandi og misserin á eftir með góðra vina hjálp og ekki sist fyrir tilstilli uppáhalds systur sinnar Ástríðar Jochumsdóttur að snúa við blaðinu og lendir heima aftur nýr maður. - Og það er þessi viðsnúningur sem er svo mikilvægur.

Menningarheimilið Sigurhæðir

En hverfum aftur til Sigurhæða þar sem Guðrún og Matthías búa seinustu 20 ár ævinnar.

Þar sem komið er inn í Sigurhæðir heitir Verandinn og það rými myndar brú á milli heimsins úti og veraldarinnar inni og eins á milli tímana tveggja.

Hér er bjart. Sólargeislar breyta ferningum í tígla. Grunnlitirnir þrír - rauður, gulur, blár - ásamt þeim græna, prýða glerið og gefa tóninn fyrir þann fjölbreytileika í listum og lífsins lystisemdum sem bíða manns í Sigurhæðum - og nálægð manns við náttúruna og öfl hennar. Sjónarhornum er hliðrað.

Guðrún Runólfsdóttir um miðjan níunda áratug 19. aldar að því talið er.

Fyrst þegar Guðrún og Matthías bjuggu hér voru hænurnar settar inn í rými undir verandann á veturna. Á sumrin áttu þær sér sinn stað í miðjum kartöflugarðinum í brekkunni upp af húsinu, við hlið safnhaugsins þar. Kýrnar voru í fjósi uppvið Grófarhöfða. Það er enn búskapur í bænum.

Fjórar leiðir láu að húsinu þá; stígur suðureftir hlíðinni, slóði úr því sem varð Eyrarlandsvegur, stigi úr aðalgötunni Hafnarstræti og svo akvegur úr norðri, þar sem seinna komu kirkjutröppurnar að Matthíasarkirkju sem við erum nú í. Guðrún lætur gróðusetja tré í þrjá stalla í brekkuna fyrir neðan húsið.

Kontórinn er herbergi húsbóndans sem var. Þess aðila á heimilinu og í samfélaginu sem er í lykilstöðu, hefur vald, rödd og áhrif. Herbergið var upphaflega innréttað fyrir Matthías, en hann vann sjaldan þar inni og fann sig betur í félagsskap kvenna og barna í borðstofunni eða í meiri birtu á verandanum. Drengur sem þarf ellefu ára að hverfa úr hlýjum móðurfaðmi kann að meta að þar er á margan hátt svo miklu hlýrra. Húsmóðirin Guðrún Runólfsdóttir er líka miðja hans og akkeri á lífsins öldusjó.

Áhrifavaldur og ábyrgðarstöður

Öll sín fullorðinsár er Matthías talsmaður fyrir þau sem eru minni máttar, útskúfuð og utanveltu - þau sem á einhvern hátt tilheyra ekki alveg eða hafa ekki rödd í samfélaginu. Hann gerir sér grein fyrir þeirri forréttindastöðu sem hann er sjálfkrafa í sem karlmaður, prestur og húsbóndi. Hann er öflugur, natinn og kærleiksríkur psíkólóg, sálusorgari, vinur, faðir, samborgari - finnur rödd sinni farveg sem greinarhöfundur og ritstjóri, í ljóðum, samveru, ræðum, sálmum, þýðingum, samtölum, leikritum. Leikverkið Útilegumennirnir - síðar Skugga-Sveinn - gefur þennan grunntón, en það samdi hann ungur. Hann er okkar fyrsta alvöru leikritaskáld og telst ásamt fleirum upphafsmaður leikhúss á Íslandi. Matthías er eitt okkar stærsta sálmaskáld. Allt milli himins og jarðar, bæði smátt og stórt, kemur Matthíasi við. Við erum smáblóm í stórri veröld, tímarnir raða sér meðal okkar. Margt sem hvarflar að, er langt á undan sinni samtíð.

Í kringum 1900 eru konur rétt smám saman að fá eigin rödd í samfélaginu. Jafnframt eru fátækt og vosbúð enn mjög útbreidd hérlendis. Íslendingar eru á útjaðri Danaveldis og sem þjóð enn utan garðs í verðandi alþjóðasamfélagi. Matthías var leiðandi í hópi þeirra sem vildi lyfta anda fólks á hærra plan, auka víðsýni og frjálsræði í hugsun, tilveru og trú - gera Íslendinga að þjóð meðal þjóða og að menningarsamfélagi. Og til þess að byggja upp menninguna þarf listamenn. Dreng úr Hlíðarendakoti var kippt með til Reykjavíkur og verður svo Þorsteinn Erlingsson skáld. Það þarf að fara betur með listafólkið, við látum þau deyja úr hor, segir Matthías þegar Sigurður Guðmundsson málari, Siggi sjení, deyr líka árið 1874, úr vosbúð og fátækt eins og Jónas Hallgrímsson og Bólu-Hjálmar. Matthías er þýðari eins og hann segir sjálfur. Hann er fyrstur til að þýða leikrit Shakespeare á íslensku og þýðir heilmargt annað. Þýðingar úr einni tungu á aðra byggja brýr milli ólíkra. Þær gera íslenskuna öflugri og að viðurkenndu máli fólks sem á sér tungu og rödd og ræður sjálft eigin högum. Þau sem eiga bæði tungu og rödd geta haft áhrif. Það þarf að kunna ensku almennilega og það þarf að þekkja og kunna íslenskuna líka mjög vel.

Matthías Jochumsson

Hagleikslíf

Guðrún Runólfsdóttir og þá sérílagi Matthías Jochumsson eru mest áberandi þegar Sigurhæðir eru nefndar. Án frægðar Matthíasar hefði staðurinn jú heldur ekki varðveist sem menningarstaður. En ekki heldur án Guðrúnar, ef betur er að gáð, sem og afkomendanna og allra þeirra sem varðveita og hlúa að menningararfi.

Í húsi er samfélag fólks sem tengist á óramarga vegu öðrum manneskjum og öðrum stöðum. Þótt margt hafi snúist um Matthías, þá hefði hann sjálfur síður haft smekk fyrir því að láta stað snúast um sig. Hver um sig er hluti af stærra samhengi ólíkra tíma. Þetta endurspeglast líka í Lofsöngnum.

Ólíkt er leitt saman í heild og mörg önnur en þau sjálf leidd fram í sviðsljósið. Þau öll láta til sín taka og ljós sitt skína.

Borðstofan var aðalrými Sigurhæða í tíð Guðrúnar og Matthíasar. Fjölskyldan bjó í húsinu árin 1903-1925, þó ekki alveg öll allan tímann: gömlu hjónin, Þóra gamla Jochumsdóttir, Matthea Guðrún og Þóra Matthíasdætur ásamt samtals fimm börnum þeirra, fósturdóttirin Helga Eggertsdóttir, svo aðstoðarkonur og vinnukonur og skólafólk. Lífið er margslungið, stundum jafnvel snúið, en það er skírt.

Á Sigurhæðaárunum hefur Matthías látið af prestsstörfum en þeirra gamli prestsbústaður var jú í Aðalstræti rétt hjá þar sem gamla Akureyrarkirkja stóð. Guðrún gerir í Sigurhæðum meira úr þeim heimilisiðnaði og listsköpun sem hún hafði sinnt af ástríðu og elju og nauðsyn - textílnum.

Hér gerir öll fjölskyldan sér saman sitt listamannalíf, sinnir náðargáfunum og hagleiknum. Lifa á því sem þau skapa sameiginlega í stofunni, eru bæði góðborgarar og listafólk. Þau gera verk og vörur sem þau fá greitt fyrir og geta þannig bæði framfleytt sér nokkuð vel og sent börnin í nám, sum í listnám. Líka stelpurnar.

Matthías situr við skrifpúltið og hreinlega framleiðir texta, við fætur hans er Gunna litla barnabarnið með dúkkuhúsið sitt. Hann semur erfiljóð, sjálfsævisögu, blaðagreinar, hátíðarræður, kvæði, bréf, minningarljóð. Hann fær greitt fyrir sumt af þessu og fær líka skáldalaun frá Alþingi frá árinu 1891 til dauðadags. Hann fær fyrstur starfslaun listamanna sem rithöfundur, skáldastyrkinn, ásamt Torfhildi Hólm skáldi. Matthías er líka á smá eftirlaunum presta og er í gegnum tíðina duglegur að fá fjárstyrki frá einkaaðilum, líka Danakonungi, sem styrkir Herdísi til tónlistarnáms.

Konurnar í Sigurhæðum kemba, spinna, vefa, prjóna, sauma í vél, sauma út, gera við. Textíllinn er svo seldur í verslun niðri í Hafnarstræti, fyrst hjá Laxdal - þar sem Bautinn er nú - og svo í verslun Þóru Matthíasdóttur - nær þar sem pylsuvagninn er í Hafnarstræti. Heimilisiðnaðurinn er kominn á annað stig og orðinn að smáframleiðslu. Þær þéna oft meira en Matthías.

Þau eru þannig algerir snillingar í að gera sér mat úr þeirri stöðu að ganga hér á mörkum tveggja heima og tíma. Tilveran snýst um náttúru manns og að vinna með það sem manni er gefið.

Mér þykir góðleikurinn svo góður

Í bréfi til vina sinna Jarðþrúðar og Hannesar skrifar Matthías þessa kjarngóðu setningu sem eru skilaboð til okkar á 21. öldinni. Matthías segir:

„Mér þykir góðleikurinn svo góður, að öll snilli sortnar í mínum augum ef hún er köld og kærleikslaus.“

Til er falleg og mikilvæg lýsing Huldu dóttur skólameistarhjónanna í Menntaskólanum af persónuleika Matthíasar. Hulda skrifar: „Hann var þrátt fyrir ýmiss konar mótlæti algerlega laus við beiskju og gremju út í tilveruna eða einstaklinga. Það var frekar, að merkja hefði mátt á honum hryggð eða dapurleika, þegar eitthvað slíkt barst í tal.“

Við erum með enn aðra góða lýsingu á því hvernig Guðrún er sálusorgari Matthíasar, hlutverk prestsfrúa og eiginkvenna lengivel. Matthías kemur úr vitjun norður úr dal þar sem hann hafði verið yfir dánarsæng heimilisföðursins. Faðirinn hafði dáið úr hungri eftir að hafa gefið börnum sínum allan matinn. Móðirin er greinilega ekki lengur til staðar heldur. Ísinn lokar á matarkistuna á miðunum og ekkert til að borða. Matthías kemur miður sín heim í hús þeirra í Aðalstrætinu, prestsbústaðinn. Heimilisfólkið sér að ferðin hefur fengið mjög á hann. Guðrún hitar kaffi, fer með Matthías inn á skrifstofu og þau eru þar dágóða stund. Þá kemur Matthías fram og líður greinilega mun betur. Hann semur þá á smástundu innan um saumavélaglamur og barnaleik Níðkvæði um Ísland eða Volaða land. Guðrún hjálpar honum í viðsnúningnum, að beina upplifunum og tilfinningum í listaverk, sem þó er síðan birt í óþökk Matthíasar og þó enn meira Guðrúnar og sérstaklega Akureyringar eru lengi að fyrirgefa.

Eitt stærsta verkefni okkar í lífinu er að móta persónuleika okkar - skapgerðarlistin sjálf. Við getum fundið fyrir reiði en þurfum ekki að vera reið, getum fundið fyrir biturð en getum valið að vera ekki bitur.

Þetta þurfum við líka að gera á samfélagslegum vettvangi; þegar við finnum til ótta við þróun einhverra mála í samfélaginu, þá þurfum við að skoða hvernig hægt er að hafa áhrif til breytinga, til þess að við gerum hlutina saman. Þannig þurfum við að láta okkur málin varða á uppbyggilega hátt - snilli okkar til að takast á við aðstæður og leysa mál þarf að vera kærleiksrík.

Tímar mikilla breytinga og umróts eins og við lifum núna, með hreyfingu fólks á milli heimsálfa og menningasvæða eins og gerist annað slagið í mannkynssögunni getur svo auðveldlega vakið upp ótta - allt í einu er komið fullt af einhverju öðru fólki hingað, samfélagsform tuttugustu aldar það eins og við þekktum þetta er að leysast upp og það getur skapað mikið óöryggi; bara til dæmis það að ekki eru lengur bara tvö kyn heldur mörg, íslenska er ekki lengur aðal mál vaxandi hóps á Íslandi - allt þetta reynir mjög á okkur sem samfélag og stundum persónulega - þessar hræringar kalla á umburðarlyndi, ná viðsnúningnum og láta góðleikann ráða í skapgerð okkar og gefa tóninn í því sem við gerum.

Kristín Þóra Kjartansdóttir er sagnfræðingur og staðarhaldari í Sigurhæðum

Sperðlar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. desember 2024 | kl. 11:30

Hér og nú – Frá augnabliki til augnabliks

Haukur Pálmason skrifar
09. desember 2024 | kl. 06:00

Íþróttasíða Halls Símonarsonar

Jóhann Árelíuz skrifar
08. desember 2024 | kl. 13:00

Hvar er hinn sanni jólaandi?

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
06. desember 2024 | kl. 06:00

Grenivík

Jón Óðinn Waage skrifar
04. desember 2024 | kl. 13:00

Jólatré við JMJ og Joe's

Sigurður Arnarson skrifar
04. desember 2024 | kl. 10:30