Fara í efni
Pistlar

Hvernig komumst við inn í kleinuhringinn?

Kleinuhringjahagfræði er uppáhaldshagfræðin mín og eitt það heitasta í sjálfbærnifræðunum um þessar mundir. Hún var einmitt umræðuefni á nýliðinni janúarráðstefnu Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð, þar sem Kate Raworth, guðmóðir kleinuhringjahagfræðinnar, flutti inngangserindi.

Í kjölfar fyrirlesturs Kate fór ég að velta fyrir mér hvernig væri hægt að koma þessari hugmyndafræði í framkvæmd á tilteknum stöðum. Hvernig komum við borgum og bæjum inn í kleinuhringinn? Gæti eitthvað sveitarfélag hérlendis, eins og t.d. Akureyri, tekið af skarið og notað kleinuhringjahagfræði sem hugmyndafræðilegan ramma fyrir uppbyggingu samfélagsins?

Nú geri ég ráð fyrir að flestir lesendur þessar pistils séu orðnir forvitnir að vita hvað þetta kleinuhringjatal gangi eiginlega út á? Kleinuhringurinn er táknmynd sem er ætlað að ögra viðteknum hugmyndum um hagkerfi sem byggir á hagvexti. Til lengri tíma litið gengur það einfaldlega ekki upp að stefna að endalausum vexti á plánetu með takmörkuðum auðlindum. Við þurfum að finna leiðir sem gera okkur kleift að lifa góðu lífi án þess að ganga á höfuðstólinn. Kleinuhringurinn á að sýna með myndrænum hætti hvernig við þurfum að byggja hagkerfið okkar á sterkum félagslegum stoðum (innri hringurinn) og halda okkar innan þeirra marka sem hin vistfræðilegu þolmörk jarðar leyfa (ytri hringurinn).

Þeir fræðimenn sem hafa unnið með þessa hugmyndafræði hafa undanfarin misseri lagt sig fram við að þróa leiðir til að einstakir staðir geti raungert kleinuhringjahagfræðina í samfélagsuppbyggingu. Nokkrar erlendar borgir, t.d. Amsterdam og Kaupmannahöfn, hafa kleinuhringinn til hliðsjónar í sinni stefnumörkun og fjölmargar vinnustofur hafa verið skipulagðar víða um heim með hagaðilum og almennum íbúum til að fá innblástur fyrir verkefni sem eru í anda kleinuhringjahagfræðinnar.

Spurningin sem er varpað fram í slíkri vinnu er eftirfarandi:

„Hvernig getur bær eða borg orðið staður þar sem íbúar þrífast vel, búsettir í umhverfi þar sem tekið er tillit til velsældar allra jarðarbúa og heilbrigði plánetunnar?“

Með öðrum orðum, hvernig getum við tryggt lífsgæði íbúa en haldið okkur á sama tíma innan þeirra marka sem náttúra og samfélag þola. Í því samhengi þurfum við að horfa bæði á okkar eigið samfélag og náttúruna sem er næst okkur, en jafnframt að líta okkur fjær og gæta að því að lífsgæði okkar byggi ekki á ofnotkun á sameiginlegum náttúruauðlindum jarðar eða treysti á ódýran neysluvarning með því að arðræna fólk í fátækari heimshlutum. Áherslan er á stóru myndina, kerfisbundna hugsun og nálgun sem leggur áherslu á endurnýjandi ferla þar sem við umgöngust náttúruna af virðingu og lærum af henni.

Við eigum óteljandi verkfæri til að aðstoða okkur: Hringrásarhagkerfið, umhverfisstjórnunarkerfi, umhverfis- og samfélagsvænar tæknilausnir, hönnun sem byggir á lífhermun (enska: biomimicry), opinber stjórntæki eins og reglugerðir, skatta og ívilnanir, lýðræðislega ferla í skipulagsvinnu og stefnumótun og áfram mætti telja. Allt þetta getur hjálpað okkur að „komast inn í kleinuhringinn“. Til að nýta þessi hjálpartæki sem best þarf hinsvegar sýnin að vera skýr og við að vita hvert við viljum stefna.

Nú eru framundan sveitarstjórnarkosningar á Íslandi. Ég skora á þá sem eru í framboði að skoða kleinuhringinn og hvort hann gæti gagnast við mótun framtíðarsýnar sem byggir á traustum grunni sjálfbærrar þróunar.

Auður H. Ingólfsdóttir er alþjóðastjórnmálafræðingur og eigandi Transformia – sjálfsefling og samfélagsábyrgð

Vinur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
27. nóvember 2023 | kl. 11:30

Skimun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
25. nóvember 2023 | kl. 14:00

Tré frá tímum risaeðla: Köngulpálmar

Sigurður Arnarson skrifar
22. nóvember 2023 | kl. 09:50

Haustátakið í fullum gangi

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
22. nóvember 2023 | kl. 06:00

Þríhjól

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
20. nóvember 2023 | kl. 11:30

Fyrirtaks fjölskyldusýning

Aðalsteinn Bergdal skrifar
20. nóvember 2023 | kl. 09:00