Fara í efni
Pistlar

Hvað er gervigreind?

Eflaust hafa margir tekið eftir því að á undanförnum árum og mánuðum hefur umfjöllun og umsvif gervigreindarinnar aukist til muna. Um er að ræða byltingu sem er að eiga sér stað í tækniheiminum sem er hægt að líkja við þegar að internetið fór í loftið.

Mikilvægt er að nefna að gervigreindin sem er komin í notkun í dag er ansi langt frá þeirri háþróuðu gervigreind sem að við þekkjum flest og hræðumst mögulega úr vísindaskáldsögum. Nútíma gervigreind er á algjöru byrjunarstigi en er í stanslausri þróun og þróast meira og meira hverja sekúnduna sem líður.

Sumum gæti þótt erfitt að skilja þessa nýju tækni og hafa margir haft orð af því að það þurfi að passa að lagalegar hömlur séu á tækninni áður en þróun hennar fari úr böndunum. Hinsvegar eru eiginleikar og möguleikar gervigreindarinnar búnir að og munu hafa mikil og góð áhrif á næstu árum.

Hvað er gervigreind?

Í stuttu máli er gervigreind tölvukerfi sem á að líkja eftir mannlegri greind, framkvæma verkefni eins og að skilja tungumál, þekkja mynstur og taka ákvarðanir. Tæknin er notuð til þess að greina gögn og taka upplýstar ákvarðanir á mun styttri tíma en heili mannsins getur. Gervigreindin er til í mismunandi sniðum og er hægt að finna fjölbreytt forrit sem nýta sér tæknina, allt frá aðstoðarmönnum eins og Siri, til forrita sem greina heilsufarsgögn á mettíma.

Eftir því sem gervigreind þróast vakna þó fjölmargar siðferðislegar áhyggjur eins og hlutdrægni og friðhelgi einkalífs, sem taka þarf til hugsunar í áframhaldandi þróun tækninnar.

Möguleikar gervigreindarinnar

Möguleikar tækninnar eru enn margir ókunnir en fremstu tæknifyrirtæki heims halda áfram að þróa hana í von um að tæknin muni leysa af mörg störf og í leiðinni búa til nýrri og þægilegri störf. Við megum þess vegna búast við að tæknin muni brátt eiga mun stærri þátt bæði í atvinnugreinum og okkar persónulega lífi heldur en áður.

Nokkur góð dæmi um eigin- og möguleika sem tæknin hefur er t.d. að hún hefur hjálpað við greiningu sjúkdóma og áhættuþætti með öruggum og fljótlegum hætti. Einnig getur gervigreindin hjálpað til við að greina og leysa flókin umhverfisvandamál og finna leiðir til að draga úr loftslagsáhrifum og nýta auðlindir okkar á skynsamanlegri hátt.

Hvar sjáum við gervigreindina?

Við sjáum gervigreindina hins vegar ekki bara hafa áhrif á atvinnugeirann, heldur hefur tæknin einnig haft veruleg áhrif á hinn venjulega mann, hvort sem hann tekur eftir því eða ekki.

Gervigreindin er til dæmis notuð til þess að reikna út bestu leiðina fyrir okkur hvert sem við þurfum að fara þegar leiðarkerfi eru notuð. Hún talar við okkur á sjálfsafgreiðsukössum verslana, lærir hvaða vörur við gætum haft áhuga á, nánast áður en maður veit af, færir okkur auglýsingar beint í æð og þekkir andlit til þess að hægt sé að nota andlitsskanann til þess að opna síma.

Gervigreindin í samfélaginu

Gervigreindin hefur ekki aðeins haft áhrif í greinum eins og læknisfræði eða fjármálum heldur hefur hún einnig haft mikil áhrif á listageirann. Margir listamenn hafa prufað sig áfram í tækninni og hvernig sé hægt að nota hana í listsköpun. Þó hafa margir gagnrýnt gervigreindina þegar kemur að listsköpun, þá segja sumir gagnrýnendur tækninnar að list sem framleidd er af gervigreind skorti áreiðanleika og tilfinningar hefðbundinna listforma. Á meðan líta aðrir á gervigreindina sem ferska og spennandi leið til að tjá sköpunargáfu sína.

Skemmtilegt er að nefna að á Listasafninu á Akureyri var í sumar sýning þar sem gervigreindin lék stórt hlutverk. Sýning Ásmundar Ásmundssonar, Myrkvi,  vakti mikla athygli gesta. Ásmundur notaði gervigreindina mikið í gerð sýningarinnar.

Sýningin var vægast sagt ólík flestum sýningum sem settar hafa verið upp hér á landi. Myrkvi spyr spurninga með myndum sýnum, siðferðislegra spurninga og var hún jafnvel djörf og treysti mikið á að fólk tengdi við ádeiluna; annars gat hún á tímum þótt jafnvel of mikið fyrir suma.

Góð eða slæm, tæknin er mætt

Augljóst er að gervigreind hefur veruleg áhrif á samfélagið hvort sem það sé í atvinnugreinum eða í daglegu lífi fólks. Tæknin er komin til að vera og er eins og áður er nefnt mun fyrirferðarmeiri í lífi fólks en margir gera sér grein fyrir og munu umsvif hennar ekki dvína.

Tæknin er í stanslausri þróun og munum við halda áfram að taka eftir sífellt fleiri breytingum vegna áframhaldandi þróunar tækninnar.

Birgir Orri Ásgrímsson var forseti Hugins, skólafélags Menntaskólans á Akureyri, veturinn 2022 til 2023.

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00

Aðventa

Magnús Smári Smárason skrifar
10. desember 2024 | kl. 16:16

Sperðlar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. desember 2024 | kl. 11:30

Hér og nú – Frá augnabliki til augnabliks

Haukur Pálmason skrifar
09. desember 2024 | kl. 06:00

Íþróttasíða Halls Símonarsonar

Jóhann Árelíuz skrifar
08. desember 2024 | kl. 13:00

Hvar er hinn sanni jólaandi?

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
06. desember 2024 | kl. 06:00