Fara í efni
Pistlar

Gleðisprengja í Hofi

Eftirvæntingin var áþreifanleg í Hofi á fjórða tímanum síðastliðinn sunnudag. Nú var loksins komið að stóru stundinni: Sinfóníuhljómsveit Norðurlands (SN) myndi halda upp á 30 ára afmæli sitt með því að flytja sjálfa níundu sinfóníu Beethovens undir stjórn okkar allra besta Bjarna Frímanns Bjarnasonar. Eins og vera ber á stórafmæli var höfðinglega veitt. Í vandaðri efnisskrá mátti sjá að hljómsveitin yrði skipuð 58 hljóðfæraleikurum og að í lokakaflanum myndu bætast við tveir kórar með samtals 115 söngvurum auk fjögurra einsöngvara. Mér taldist þannig til að á sviðinu myndu að endingu vera 178 manns að stjórnanda meðtöldum. Hvorki meira né minna!

Þegar eftirvæntingin var við það að breytast í óþreyju hófust hátíðahöldin með stuttum ávörpum frá Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni, tónlistarstjóra Menningarfélags Akureyrar, Lilju Alfreðsdóttur, menningar og viðskiptaráðherra, Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra og Atla Örvarssyni, tónskáldi og driffjöður tónlistarútflutnings SN undir vörumerkinu SinfoniaNord. Þetta upphaf, ásamt nærveru forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, studdi við þá hátíðarstemningu sem þegar hafði myndast. Sem Akureyringur fann ég fyrir stolti yfir því sem afmælisbarnið hefur áorkað á sínum 30 árum. Þarna var einnig tilkynnt um afmælisgjafir frá ríki og bæ í formi peninga sem m.a. á að nota til að SN geti eignast hörpu, en ekki þó Hörpu eins og Ásthildur bæjarstjóri áréttaði sérstaklega!


Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Kór Akureyrarkirkju, Mótettukórinn og stjórnandinn, Bjarni Frímann Bjarnason, á sviðinu í Hofi í gær. Ljósmynd: Hilmar Friðjónsson 

En þá kom loksins að því. Bjarni Frímann gekk rösklega upp á stjórnandapallinn, tilkynnti eins og kallari við konungshirð hvað til stæði og sneri sér svo að hljómsveitinni sem beið fullkomlega einbeitt eftir minnstu bendingu. Svo hófust töfrarnir. Hárnákvæmt fiðluspilið og umlykjandi hljómurinn sem umbreyttist eftir því sem ólík hljóðfæri blönduðu sér í þennan fjölradda undraheim framkallaði bæði gæsahúð og tár hjá mér frá fyrstu mínútu. Það er erfitt að lýsa því með orðum hvernig lifandi flutningur af slíkum gæðum nær heljartökum á manni.

Fyrir hlé voru fluttir þrír kaflar af fjórum, fyrstu tveir glaðlegir og melódískir og sá þriðji hægari og dramatískari. Eftir hlé var svo komið að frægasta hlutanum, þar sem Óðurinn til gleðinnar eftir Friedrich Schiller er sunginn. Á þessum afmælistónleikum fannst mér vel við hæfi að nú var í fyrsta skipti notuð þýðing Matthíasar Jochumssonar á ljóði Schillers þegar níunda sinfónían er flutt í heild. Og þá fannst mér ekki síður passandi að Kór Akureyrarkirkju, sem einnig ber heitið Kirkja Matthíasar Jochumssonar, skuli vera í burðarhlutverki, en hann myndaði um 2/3 hluta kórsins á móti Mótettukór Hallgrímskirkju, samtals um 115 söngvarar eins og þegar var nefnt. Kórverkið er krefjandi og talsvert sungið við efstu mörk hverrar raddar, en mikið óskaplega sem útkoman var góð! Einhvers staðar sá ég að Beethoven hafi notað kórinn nánast eins og herskara af trompetum og mér finnst nokkuð til í því. Krafturinn var geysilegur og maður fylltist uppljómun og einskærri gleði. Einsöngvararnir fjórir, Herdís Anna Jónasdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Gunnar Björn Jónsson og Oddur Arnþór Jónsson, stóðu einnig fyrir sínu og það er svo sannarlega ekki fyrir hvern sem er að syngja einsöng á móti slíkum risakór og hljómsveit.

Ég skynjaði bæði nákvæmni og dýnamík í flutningi hljómsveitarinnar á þessu glæsilega og krefjandi tónverki Beethovens. Mér fannst sérlega mikið til þessara gæða koma þegar ég áttaði mig á því að með hljómsveitinni léku að því er mér telst til sex ungmenni úr Tónlistarskólanum á Akureyri. Það er óendanlega mikils virði að SN rækti með þessum hætti uppeldis- og samfélagshlutverk sitt, með „inngildingu frekar en innræktun“ eins og Bjarni Frímann komst að orði í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu fyrir tónleikana. Hann sagði þar jafnframt að ef það megi ekki „hætta á smá hnökra þá á fólk frekar að kaupa sér upptökur.“ Þessu er ég sammála, en viðurkenni um leið, sem venjulegur tónleikagestur, að ég heyrði enga hnökra. Þátttakendur í þessu ævintýri segja mér að skýringin á þessu og gæðum kórsins liggi ekki hvað síst í vinnubrögðum, hæfileikum og alúð Bjarna Frímanns sjálfs í æfingaferlinu.

Á leiðinni út úr Hofi, þessari frábæru tónleikahöll okkar, var líkt og maður svifi um í gleðivímu. Við hjónin hittum allnokkra úr hópi söngvaranna á þeirri leið og gleðin skein úr hverju andliti. Fólk var eins og uppnumið og sjálfur var ég undir sömu áhrifum. Eftir að út og heim var komið tók við sæluástand sem varir enn.

Hvers virði er slík sæla á tímum sem þessum, þegar heimsfréttirnar bera okkur hörmungar stríðs og miskunnarlausar árásir á saklausa borgara? Erum við að flýja raunveruleikann í stað þess að takast á við vandamál heimsins? Nei, ég vil þvert á móti taka í svipaðan streng og okkar góði forseti gerði í stuttu þakkarávarpi í lok tónleikanna. Hatri og miskunnarleysi verður best mætt með kærleika og gleði. Með gleðisprengju á borð við þá sem við upplifðum í Hofi á sunnudaginn andmælum við öllum sprengjum eyðingar og dauða og minnum okkur á hvað lífið er mikils virði.

Sigurður Kristinsson er tónlistarunnandi og fyrrverandi formaður stjórnar Menningarfélags Akureyrar

Heilsukvíði

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
09. maí 2024 | kl. 10:00

Vaðlaskógur á 6. áratugnum

Sigurður Arnarson skrifar
08. maí 2024 | kl. 09:30

Skíðaferðir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
06. maí 2024 | kl. 11:30

Gangstétt varð gúmmíi að bráð

Orri Páll Ormarsson skrifar
03. maí 2024 | kl. 16:30

Tengsl sitkagrenis við verkalýðsfélög

Skapti Hallgrímsson skrifar
01. maí 2024 | kl. 10:10

Hús dagsins: Gamli Skóli; Eyrarlandsvegur 28

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
30. apríl 2024 | kl. 06:45