Fara í efni
Pistlar

Fjölsmiðjan - mikilvægur möguleiki

Rauði krossinn - VII

Fjölsmiðjan á Akureyri hefur starfað frá því sumarið 2007 en þá hafði verið unnið að hugmyndinni frá aldamótum því þarfagreiningar Rauða krossins höfðu gefið til kynna að þörf væri á stuðningi við ungmenni á aldrinum 16-24 ára sem hvorki voru í námi né vinnu. Fjölsmiðjan í Kópavogi var stofnuð árið 2001 og árið 2010 var stofnuð Fjölsmiðja á Suðurnesjum. Fjölsmiðjan er hugsuð sem tímabundið úrræði með það að markmiði að valdefla ungt fólk sem stendur á krossgötum í lífi sínu og veita þeim þjálfun til starfa á almennum vinnumarkaði og/eða til frekara náms. Fyrirmynd Fjölsmiðjanna var sótt til Danmerkur, en þar í landi voru, þegar mest var, starfræktir yfir 100 svokallaðir Produktionsskoler.

Fjölbreytt verkefni

Dagarnir í Fjölsmiðjunni á Akureyri eru í föstum skorðum. Ungmennin mæta til vinnu klukkan 8:30 og vinna til 15 alla virka daga, nema á föstudögum er unnið til klukkan 14. Vinnutíminn er þó sveigjanlegur og ekki vinna öll fullan vinnudag. Venjulega eru á bilinu 10-15 ungmenni í vinnu, en mest hafa verið 26 ungmenni á launaskrá samtímis. Verkefnin eru næg, en þau felast í vinnu við nytjamarkað, bílaþvott, mötuneyti, raftækja- og pökkunarverkstæði, ásamt því að Fjölsmiðjan tekur að sér tilfallandi verkefni sem passa starfseminni. Einnig er hægt að stunda nám meðfram vinnunni.

Karen Malmquist, sem var fulltrúi Rauða krossins í stjórn Fjölsmiðjunnar, Erlingur Kristjánsson forstöðumaður og Gunnar Már Gunnarsson sem situr nú í stjórn Fjölsmiðjunnar fyrir hönd SSNE.

Nytjamarkaður Fjölsmiðjunnar er opinn alla virka daga 10-16 og til 17 á fimmtudögum. Þar er hægt að kaupa notaðan húsbúnað, bækur, raftæki og fleira á afar hagstæðu verði. Fjölsmiðjan rekur einnig rafverkstæði þar sem hægt er að koma með raftæki í skoðun eða viðgerð. Starfrækt er bílaþvottastöð og síðast en ekki síst er þar framreiddur hádegismatur alla virka daga.

Frá upphafi hafa rúmlega 400 ungmenni starfað í Fjölsmiðjunni og hefur aðsókn vaxið jafnt og þétt. Strákar hafa alltaf verið í meirihluta þeirra sem starfa í Fjölsmiðjunni, fyrir utan árið 2014, þegar kynjahlutföllin voru jöfn. Meðal starfstími er um það bil átta mánuðir en þegar starfi við Fjölsmiðjuna lýkur fara flest í aðra vinnu en sum fara í nám. Alltaf eru einhver sem hætta án þess að útskrifast en ástæður þess geta verið fjölbreyttar.

Rauði krossinn dregur sig út

Stofnaðilar að Fjölsmiðjunni á Akureyri voru, auk Rauða krossins; Akureyrarbær, Vinnumálastofnun, Eining-Iðja og Félag verslunar- og skrifstofufólks. Rétt tæplega helmingur stofnframlagsins, eða 15 milljónir króna, komu frá Rauða krossinum. Erlingur Kristjánsson hefur frá upphafi stýrt starfseminni en auk hans eru tveir fastir starfsmenn. Frá upphafi hefur Rauði krossinn átt fulltrúa í stjórn Fjölsmiðjunnar og árið 2022 kom formaður stjórnar þaðan, en það ár fóru fram umræður um að í stað fulltrúa Rauða krossins kæmi fulltrúi frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra (SSNE). Samþykkt var af hálfu allra aðila að SSNE legði til stjórnarmann og samhliða tók stjórn Eyjafjarðardeildar Rauða krossins ákvörðun um að draga sig formlega út úr starfsemi Fjölsmiðjunnar.

Þetta er afar eðlilegt ferli fyrir verkefni Rauða krossins, því eitt af hlutverkum félagsins er að greina hvar þörf er fyrir stuðning, hleypa af stokkunum verkefnum og sinna þeim þar til aðrir geta eða vilja taka við þeim. Nú eru komin samtök sem eru tilbúin að stíga inn í okkar stað og þá er rétti tíminn fyrir okkur að stíga til hliðar. Á aðalfundi Fjölsmiðjunnar sem fram fór þann 4. apríl sl. lauk því 15 ára samstarfi Rauða krossins og Fjölsmiðjunnar. Rauði krossinn við Eyjafjörð vill með þessari grein þakka Fjölsmiðjunni kærlega fyrir farsælt samstarf og óska henni alls hins besta.

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00

Balsaviður

Sigurður Arnarson skrifar
17. apríl 2024 | kl. 09:30

Sígildar sögur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. apríl 2024 | kl. 11:30