Fara í efni
Pistlar

Erum við rusl þjóð?

„Hver nennir að lesa um rusl?“ var það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég var að velta fyrir mér að skrifa þennan pistil. Það er reyndar ástæða fyrir efnisvalinu því nú er nýliðin svokölluð Nýtnivika, sem er samevrópskt átak um úrgangsmál, og þemað í ár er hringrásin. Svo þarf auðvitað að fjalla reglulega um úrgangsmálin þar sem þau eru eitt af stóru loftslagsmálunum. Ég vona því að flestir lesi aðeins áfram.

Ýmsar breytingar eru framundan í úrgangsmálum. Ríkið kynnti í sumar nýja stefnu og lagabreytingar sem munu hafa mikil áhrif, sérstaklega á fyrirkomulag sorphirðu. Stefnan kallast Í átt að hringrásarhagkerfi og er mjög mikilvæg því hún gefur sveitastjórnum, sem bera ábyrgð á sorphirðunni, skýran ramma um hvernig skuli staðið að söfnun og meðhöndlun úrgangs. Ein mikilvægasta breytinging er að nú verður hægt að hækka gjaldskrá á þá sem nenna ekki að flokka, einnig verður settur á urðunarskattur og bann við urðun á lífrænum úrgangi. Mér sýnist síðan í fljótu bragði að í stjórnarsáttmála nýrrar ríkistjórnar sé ekki að vænta neinna breytinga á þessari stefnu. Línurnar eru þannig að skýrast og ekki mikill tími til stefnu til innleiðingar þar sem allt á að vera komið á hreint innan tveggja ára.

Nú er það í okkar höndum að standa okkur; draga úr úrgangsamagninu, flokka allt, endurvinna og endurnýta sem mest við getum. Stór hluti úrgangsins er verðmæti og í honum getur líka leynst orka, svo sem í lífrænum úrgangi sem getur nýst sem eldsneyti eða áburður og jarðvegur. Svo er auðvitað betra fyrir auðlindir jarðar, umhverfið, loftslagið og veskið að nýta gamalt frekar en að framleiða nýtt.

Úrgangstölfræðin

Samkvæmt vefsíðu Umhverfisstofnunar (UST) þá var heildarmagn úrgangs á Íslandi árið 2019 um 1.100.000.000 kg sem gera 3.000 kg (3 tonn) á hvernig einasta Íslending að meðaltali á ári.

Um 50% úrgangs árið 2019 má rekja til mannvirkjagerðar og 22% var svokallaður heimilisúrgangur. Magn heimilisúrgangs á hvern íbúa á Íslandi er með því mesta í heiminum. Á Íslandi féllu til 37 milljón kíló af umbúðum árið 2019 enda hafa viðskipti heimsins þróast þannig að flestum hlutum og ekki síst matvöru er pakkað í umbúðir m.a. til að verja vöruna í flutningum og lengja líftíma hennar. Lang stærsti hlutinn er pappírs- og pappaumbúðir, síðan gler, plast, málmar og loks viðarumbúðir (vörubretti). Nánast allur glerúrgangur sem fellur til á Íslandi er nýttur í landfyllingar en nánast allur annar umbúðaúrgangur fer annaðhvort í endurvinnslu eða endurnýtingu. Magn textíls sem hver einstaklingur á Íslandi losar sig við á hverju ári hefur vaxið frá árinu 2012 úr um 8 kg/mann/ári í 20 kg/mann/ári árið 2019. Það er áætlað að um 60% af textíl endi í urðun og 40% í fatasöfnun.

Neyslan

Allt sem við kaupum þarf einhver að framleiða og í framleiðsluna þarf ýmis hráefni sem eins og er geta aðeins komið frá auðlindum jarðar. Hráefni í flugvélarnar, bílana, hjólhýsin, rafhjólin, golfgræjurnar, gönguskíðin, skartgripina, snjallsímana og útivistarfötin kosta ekki bara gríðarlega fjármuni og auðlindir heldur mun allt að lokum enda sem úrgangur sem er mikilvægt að skili sér með einhverjum hætti aftur inn í hringrásina en endi ekki í urðun.

Við sjáum vörur eins og pizzakassana, bréfpokann í bakaríinu og drykkjarmálið af kaffistaðnum með líftíma upp á örfáar mínútur eða kannski bara sekúndur. Það eru örugglega mörg tilfelli þar sem einstaklingur kaupir drykkjavöru í búð og hendir umbúðunum í tunnuna fyrir utan búðina. Þessar vörur fara vissulega að stærstum hluta í endurvinnslu en þessi ofnotkun á auðlindum er algjörlega óþörf og ósjálfbær.

Líklega geta þessi tvö orð; sjálfbærni og neysla þó líklega ekki staðið hlið við hlið. Þrátt fyrir það þá er óumflýjanlegt að draga úr álaginu á auðlindir jarðar með bættri neysluhegðun. Besta leiðin til þess er að vanda valið og nýta hlutina vel og sem dæmi þá eru bílar mjög svo óumhverfisvæn vara, alveg sama hvort þeir eru með bensín- eða rafmótor. Með því að draga úr notkun þeirra endast þeir lengur, hægja á endurnýjunarþörfinni og álag á samgöngumannvirki minnkar. Því miður þá erum við Íslendingar í dag langt frá þeirri stöðu sem gæti kallast sjálfbær neysla. Töluleg gögn staðfesta þetta og sýna glögglega sterk tengsl annars vegar á milli hagsældar og neyslumynsturs þjóðarinnar, og hins vegar þess magns heimilisúrgangs sem fellur til.

Á súluritinu sést magn heimilisúrgangs á hvern íbúa annars vegar 2005 (litur 1) og hinsvegar 2019 (litur 2)

 

Hvar og hvernig er úrgangur meðhöndlaður

Um 80% þjóðarinnar býr á SV-horni landsins, sem þýðir að svipað hlutfall úrgangsins fellur til og fer til meðhöndlunar á því svæði, mest hjá Sorpu. Um 70% af úrgangi sem fór til urðunar á Íslandi árið 2018 var urðaður í Álfsnesi og 11% í Stekkjarvík við Blönduós (um 50% af þeim úrgangi kemur úr Eyjafirði).

Sorpa framkvæmir á hverju ári svokallaða húsasorpsrannsókn https://sorpa.is/um-sorpu/utgefid-efni/husasorpsrannsokn þar sem tekin eru sýni úr sorphirðubílum, pressugámum og böggum frá fyrirtækjum. Könnunin frá 2019 sýnir t.d. að ennþá fer mikið magn að skilagjaldsumbúðum í sorpið, Sorpa metur að virði þess sem var hent það ár hafi verið um 135 milljónir, peningum sem bókstaflega var hent í ruslið. Þessi tala hefur rokkað á milli ára en samkvæmt skjali Sorpu þá hafa höfuðborgarbúar hent skilagjaldskyldum umbúðum í ruslið fyrir sem svarar tæpum 1,2 milljörðum á 8 árum. Samkvæmt könnunni er það sem fer í sorptunnur heimila um 45% eldhúsúrgangur, 15% plastúrgangur og 10% pappír og pappi. Á endurvinnslustöðvunum er lang mest af plasti eða tæplega 25%, því næst pappír og pappi, svo textíll og síðan eru málmar.

Eins og áður segir fer langmest af úrgangi á Íslandi til meðhöndlunar hjá Sorpu. Á Íslandi eru samtals 23 urðunarstaðir með gild starfsleyfi, 16 urðunarstöðum hefur verið lokað þar á meðal urðunarstaðnum á Glerárdal fyrir ofan Akureyri sem var endanlega lokað árið 2014 eða sama ár og byrjað var að nýta hauggasið til metanvinnslu. Árið 2009 var Molta í Eyjafirði opnuð, hátækni jarðgerðarstöð sem tekur á móti um 8.000 tonnum af lífrænum úrgangi á hverju ári, mest frá sláturhúsum á svæðinu. Sorpa vinnur að fullri gangsetningu GAJA þar sem markmiðið er meðal annars að safna öllum lífrænum úrgangi á höfuðborgarsvæðinu og framleiða moltu og metan. PureNorth í Hveragerði endurvinnur hluta af því plasti sem fellur til á Íslandi, aðallega baggaplast frá landbúnaði og það er í gangi vinna við að skoða kosti og galla nýrrar hátækni-sorpbrennslu á Íslandi.

Við höfum því stórt tækifæri til að vera algjör fyrirmyndarþjóð í úrgangsmálum. Hér eru þegar sterkir innviðir til nýta allt lífrænt efni sem fellur til, við þurfum bara að taka næstu skref m.a. með því að framleiða metan úr mykju og garðaúrgangi. Víðast hvar eru öflug kerfi til að safna öllu endurvinnsluefni og innlend endurvinnsla á plasti þegar hafin. Hátækni-brennslustöð verður síðan vonandi að veruleika enda nauðsynlegur hluti af heildar sorpmeðhöndlunarinnviðum Íslands.

Markmiðið hlýtur að vera að hver þjóð beri ábyrgð á eigin neyslu og þar af leiðandi eigin úrgangi og að flutningur á úrgangi til annarra landa heyri sögunni til. Það er engin eftirspurn eftir úrgangi í heiminum og sum lönd hafa til dæmis lokað á innflutning á textíl og plasti. Það er ekkert því til fyrirstöðu að Ísland, sem rík þjóð, finni út úr því að enduvinna og nýta eigin úrgang.

Guðmundur Haukur Sigurðarson er tæknifræðingur og framkvæmdastjóri Vistorku.

Regnbogagífur og börkur gífurtrjáa

Sigurður Arnarson skrifar
19. júní 2024 | kl. 11:00

Samtalsráðgjöf við spunagreind, leiðbeiningar fyrir mannfólk

Magnús Smári Smárason skrifar
18. júní 2024 | kl. 12:00

Stillansar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
17. júní 2024 | kl. 11:30

Maðurinn sem aldrei svaf

Orri Páll Ormarsson skrifar
14. júní 2024 | kl. 20:00

Sumarfrí mikilvæg heilsubót

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. júní 2024 | kl. 14:00

Fágætur heggur: Næfurheggur

Sigurður Arnarson skrifar
12. júní 2024 | kl. 10:00