Fara í efni
Pistlar

Dúandi brjóst og dillandi bossar

Alltaf gaman þegar vefmiðlarnir snýta út úr sér hori helgarinnar. Dúandi brjóst og dillandi bossar, daðrað við fræga og ríka. Við sjáum glitta í glös og glóandi flúr upp um hálsa. Uppblásnar varir og augnaráð sljótt, ógleðin hverfur í fjörinu skjótt. Hver var með hverjum og hvar og hvers vegna? Erlendis er auðvitað toppurinn á tilverunni, tíkarlegt að hanga á klakanum í grámyglulegum hversdagsleikanum nema maður komist í alvöru hóf með fjárfestum og fegurðardrottningum.

Þetta er nú kannski bara nauðsynlegur flótti frá veruleikanum. Smá slúður, innlit í gerviheim þeirra sem teljast ríkir, frægir eða eitthvað merkilegir að öðru leyti, bara til að ala á smá öfund eða draumórum. Kærkomin hvíld frá barnamorðum, flóttamannafári, jarðhræringum og öðrum hörmungum úr heimi svokallaðra alvöru frétta. Samt finnst mér eitthvað bogið við þessa endalausu aðdáun á peningum, fegrunaraðgerðum, fasteignum og ferðalögum til roðagylltra landa. Minnir mig óþyrmilega á visst ártal þegar við flugum næst sólu.

Ég er ekkert að setja mig á háan hest. Sjálfur hef ég gaman af ferðalögum og er áhugasamur um fasteignir. Svo bar jafnvel til að ég skráði mig í aðgerð sem kenna má við fegrun en hætti svo við þegar mér fannst hégóminn bera mig ofurliði og skynsemin falla í valinn. Sparaði mér nokkra hundrað þúsund kalla en sit uppi með þennan sauðarsvip. Það er ekki einu sinni víst að nokkur hefði tekið eftir meintri betrumbót og því lít ég á þessa ákvörðun sem hreinan gróða.

Áfram með smjörið. Svo virðist sem allir þessir ríku og frægu séu búsettir á höfuðborgarsvæðinu en eigi kannski íbúð á stangli í fjörubyggðum dreifbýlisins. Ríka fólkið, fræga fólkið, góða fólkið, fallega fólkið, áhrifavaldarnir, listaskvaldrararnir; bara allir og öll í einni kös á suðvesturhorninu og ekkert að gerast á landsbyggðinni. Er þetta ekki grófleg mismunun, skautun, þverflautun og brautun á landi og lýð? Ég bara spyr, áttaði mig ekki fyrr á því hvað maður er lágkúrulegur hérna fyrir norðan í tómi hins hversdagslega heims þar sem trauðla gerist neitt sem kemst í fréttirnar.

Þar sem ég hóf minn raunverulega starfsferil sem blaðamaður verð ég að skamma fjölmiðlana og þá sérstaklega þessa norðlensku, akureyri.net, vikublaðið og kaffið og hvað þetta heitir allt saman fyrir að vanrækja þá skyldu að segja fréttir af samdrætti, uppgangi, niðurgangi og skilnaði norðlenskrar elítu. Ég vil fá að vita allt um Þorvald Lúðvík, Ragga Sverris, Hrafnhildi Hafberg, Maríu Páls, Magna, Helenu, Rúnar Eff og Gvendólínu og Geimfríði og allt gasalega flotta fólkið sem hlýtur að standa upp í haus í hneykslanlegum athöfnum sem koma mér svo sannarlega við. Ég er lesandinn, ég er þátttakandinn, ég er neytandinn! Ég vil sora og sýru, surgandi nýru, ég vil ástir og unað, dauða og djöful, ég vil mannorð í leyni, fólk steikt á teini, ég þrái að smjatta á slúðri, blása burt púðri og vita hver lúðraði hvern.

Nei, gott fólk. Hér fyrir norðan fáum við fréttir af því þegar rekstur fyrirtækja gengur vel, nýjungar kynntar til leiks, ferðamenn una glaðir við sitt, fólk ræður sig í málsmetandi starf, listviðburðir komast á kreik, mannbætandi þing eru haldin, þegnarnir fara á flug, góðborgarar falla í valinn. Mannlegar fréttir, fræðsla, kynningar, bjartsýni og raunar allt litróf lífsins í gleði og sorg. Raunverulegt líf. Eitthvað sem snertir okkur öll, hreyfir við tilfinningalífinu en elur ekki á öfund, ófullnægju, gremju eða hatri. Hvað finnst ykkur annars um slíkan fréttaflutning?

Sennilega hef ég sagt þetta áður en ég held að þjóðarmein vort sé þessi eilífi samanburður, öfund, nöldur, nagg og urgandi ófullnægja sem meinar fólki að dvelja í hrifningu við nokkurn skapaðan hlut því það hlýtur að vera eitthvað flottara á næstu grösum sem maður er að missa af og aðrir fá. Eitt er að una glaður við sitt, annað að geta aldrei verið með hýrri há af áhyggjum yfir því að aðrir kunni að hafa það betra en maður sjálfur. Heyr á endemi! Við eigum að sjálfsögðu að setja okkur markmið, stefna hærra, gera betur en ef við gefum okkur ekki tíma til að faðma og umvefja það sem áunnist hefur munum við aldrei höndla hamingjuna og halda áfram að slefa yfir slúðurdálkum fjölmiðlanna með lafandi tungu, másandi lungu og þessa vemmilegu vansælu sem kyrkir að lokum allt sem er fallegt í þessu flúktandi jarðlífi.

Góðar stundir.

Stefán Þór Sæmundsson er búsettur á Akureyri og hefur fengist við kennslu, blaðamennsku og ritstörf

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00

Balsaviður

Sigurður Arnarson skrifar
17. apríl 2024 | kl. 09:30

Sígildar sögur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. apríl 2024 | kl. 11:30

Mikilvægi Lystigarðsins fyrir lýðheilsu

Sigurður Arnarson skrifar
10. apríl 2024 | kl. 11:00

Sparksleði

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
08. apríl 2024 | kl. 11:30

Tæknin er að gera frænku gráhærða

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
07. apríl 2024 | kl. 22:00