Fara í efni
Pistlar

Dratthalar, aumingjar og dusilmenni

Afsakið orðbragðið en nú er ég fjúkandi reiður, saltvondur og sótillur. Næ ekki upp á nef mér. Hvers vegna? Æ, eiginlega út af öllu og engu. Það er bara svo gott að næra reiðina, gremjuna, óttann, öfundina, afbrýðisemina, dómhörkuna, sjálfsánægjuna og ámóta tilfinningar sem ylja manni á köldum vetrarnóttum. Hver nennir svo sem að vera glaður, bjartsýnn og jákvæður þegar allt er að fara til fjandans? Kannski Gísli Marteinn eða Siggi Gunn. Svo maður minnist ekki á Jón Jónsson – en hann er ekki marktækur enda með allt of hvítar tennur, einum of glaður og bara… óþolandi eins og allir sem eru að blaðra um gleði, möntrur og núvitund og annan eins sora og ullabjakk sem kemur manni bara í enn verra skap.

Ég er ekkert áberandi neikvæður eða svartsýnn, ég er bara raunsær og veit hvað öðrum og öllu er fyrir bestu og þess vegna beisla ég fákinn og ríð gandreið um netheima og skil eftir mig sannleikstað í hverju skúmaskoti. Sumir kalla mig nettröll eða beturvita en eins og ástandið er í dag þurfum við virkilega á sannleiksriddara að halda. Af einskærri fórnfýsi og ættjarðarást axla ég þessa ábyrgð. Aðrir hafa hvort eð er ekki nægilega greind til þess.

Ungur var ég gefinn eiginkonu minni. Hún er engin skessa þótt ég sé nettröll. Ósköp fínleg og nett. Sá galli er á gjöf Njarðar að hún skartar ekki þeim barmi sem blasir við mér í nánast öllum netmiðlum á hverjum degi, svona ca 16 tommu hjólbörðum. Þá hefur hún ei varir þær sem stjörnurnar bera og skortir alveg öll þau húðflúr, pinna, lokka og skreytingar sem eðalfraukur þessa lands sýna okkur í viku hverri. Ég skil heldur ekki hvers vegna hún er með svona stutt augnhár og voðalega eitthvað venjulegan háralit. Þá hef ég nánast aldrei séð hana með búbblur við hönd eða í félagsskap áhrifavalda. Ætli hún sé eitthvað gölluð?

Svo lít ég í spegil, alveg óforvarindis. Nakinn. Þarf að þreifa í gegnum nokkur lög til að finna forðum stælta magavöðva og alls staðar eru hár og annar ósómi. Líkami þessi virðist líka alveg laus við skreytingar á borð við dýr og vönduð húðflúr og ekki hef ég haft fyrir því að sprauta pálmaolíu í vöðvana eða taka stera og þess vegna blasir þessi hryggðarmynd við mér. Ég fer heldur ekki í ljós eða vax og get ekki skreytt mig með dýrum merkjum. Sorglegt, satt er það.

Já, auðvitað öfunda ég sólbrúnu, tattúveruðu og stæltu karlana sem eru með hálfbert kvenfólk vafið utan um sig eins og trefla. Sumir jafnvel með Rolex úr eða handtösku sem kostar milljón. Svo heita þér eitthvað flott eins og Billi bíró, Siggi sæti síró eða bara… Þorgrímur Þráins! Nei, djók. Mér var eitthvað uppsigað við Togga kallinn þegar ég reykti í gamla daga en fattaði síðar að hann hafði lög að mæla. Þetta var ekkert töff. Hins vegar virðist það vera óskaplega kúl núna að spæna í sig nikótínpúða, veipa sig í drasl og skola öllu niður með koffíndrykkjum.

Ég var heldur fljótur að detta út úr hlutverki nettröllsins. Nei, það er vitaskuld ekkert líf að vera fastur í neikvæðni og nöldri. Sennilega hafa þeir lög að mæla sem hvetja til jákvæðni og bjartsýni, þótt maður þurfi að haga sér eins og Pollýanna. Jafnvel er hugsanlegt að reiði, ótti og gremja leiði til vanlíðunar og sjúkdóma og manneskjur sem ganga fyrir þannig orku eru vísar að eitra allt í kringum sig. Þeir sem hafa þurft að ástunda tilfinningalega endurhæfingu þurfa einmitt að forðast þessar negatífu jónir.

Til að taka af allan vafa þá er ég hvorki að fjalla um sjálfan mig né eiginkonu mína hér að framan. Tja, við erum svo sem bæði óflúruð ennþá en ekki ætla ég að ljóstra upp um annað. Reyndar gaman í þessu samhengi að minnast á brandara sem Siggi Ingólfs var að pósta á fésbókinni um daginn, teiknimynd sem sýndi langa röð fyrir framan básinn sem bauð upp á lyf og læknishjálp en fyrir framan básinn þar sem í boði var breyting á lífsstíl var engin röð.

Við viljum töfralausnir. Það er málið. Guð gefi mér æðruleysi… nei, nei, frekar þetta: Mammon, gefðu mér stærri brjóst, stinnari rass, flottari magavöðva, stokkandarvarir, brúnan húðlit, geðveik tattú, merkjavörur á allan kroppinn, búbblur og makkarónur í hvert mál, fast pláss í Smartlandi, nýrri síma, stærra sjónvarpa, flottari bíl, róandi lyf, örvandi lyf, svefnlyf – fyrir mig og börnin, plís, ekki þreyta mig með einhverju kjaftæði um uppeldi og fyrirmyndir, ég vil bara fá allt þetta æðislega og flotta sem dansar fyrir augum mér og ég vil það NÚNA!

Stefán Þór Sæmundsson er skáld og íslenskukennari

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00

Aðventa

Magnús Smári Smárason skrifar
10. desember 2024 | kl. 16:16

Sperðlar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. desember 2024 | kl. 11:30

Hér og nú – Frá augnabliki til augnabliks

Haukur Pálmason skrifar
09. desember 2024 | kl. 06:00

Íþróttasíða Halls Símonarsonar

Jóhann Árelíuz skrifar
08. desember 2024 | kl. 13:00

Hvar er hinn sanni jólaandi?

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
06. desember 2024 | kl. 06:00