Fara í efni
Fréttir

Ytri-Hagi: Ágreiningur um nýtingarleyfi

Mynd af vef Norðurorku.

Norðurorku hefur verið neitað um nýtingarleyfi að Ytri-Haga nema sýnt hafi verið fram á með sannanlegum hætti að jarðhitasvæðið standi undir þeirri vinnslu sem sótt er um ásamt því að gerð sé grein fyrir áhrifum á önnur jarðhitasvæði í grendinni. Norðurorka telur einu leiðina til að sýna fram á þetta vera að nýta svæðið og vakta áhrifin á sama máta og gert er við núverandi vinnslusvæði veitunnar.

Þetta kemur fram í svari Eyþórs Björnssonar, forstjóra Norðurorku, við fyrirspurn Akureyri.net um framgang mála eftir að Norðurorka kvartaði yfir málsmeðferð Orkustofnunar til ráðuneytis umhverfis-, orku- og loftslagsmála. Norðurorka telur sig því ekki eiga annan kost en að bora fullgilda vinnsluholu til að geta með dæluprófunum sýnt fram á hver afköstin eru, ásamt því að setja fram rannsóknaráætlun um vöktun áhrifa jarðhitavinnslunnar á önnur jarðhitasvæðið sem og jarðhitasvæðið að Ytri-Haga.

Norðurorka kvartaði undan málsmeðferð Orkustofnunar og benti þar meðal annars á seinagang við afgreiðslu umsóknar um nýtingarleyfi, eins og Akureyri.net greindi frá í frétt 7. febrúar

Svar Eyþórs er svohljóðandi: 

Í kjölfar þess að Norðurorka hf. kvartaði til Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytisins vegna málsmeðferðar Orkustofnunar komu fulltrúar Orkustofnunar, m.a. orkumálastjóri, á fund í Norðurorku vegna málsins 21. febrúar sl. Þar var farið yfir málið og sjónarmið beggja aðila reifuð. Norðurorka lagði á það áherslu að Orkustofnun veitti fyrirtækinu skilyrt nýtingarleyfi með þeim skilyrðum og fyrirvörum sem stofnunin teldi nauðsynlega. Til að gera langa sögu stutta þá hefur Orkustofnun lýst því yfir að ekki verði gefið út nýtingarleyfi fyrir Ytri Haga nema búið sé að sýna fram á það, með sannanlegum hætti, að jarðhitasvæðið standi undir þeirri vinnslu sem sótt er um ásamt því að gerð sé grein fyrir áhrifum á önnur jarðhitasvæði í grenndinni. Orkustofnun hefur hafnað umsókn Norðurorku um nýtingarleyfi á framangreindum rökum. Norðurorka telur að eina leiðin til að sýna fram á þetta sé að nýta svæðið og vakta áhrifin á sama máta og gert er við núverandi vinnslusvæði veitunnar.

Norðurorka á því ekki annan kost en að bora fullgilda vinnsluholu til að geta sýnt fram á það, með dæluprófunum, hver afköstin eru ásamt því að setja fram rannsóknaáætlun um vöktun áhrifa jarðhitavinnslunnar á önnur jarðhitasvæði sem og jarðhitasvæðið í Ytri-Haga. Umrædd vöktun felur í sér bæði vatnsborðseftirlit og efnagreiningar á jarðhitavatninu og er hluti af hefðbundnu vinnslueftirliti á þeim jarðhitasvæðum sem Norðurorka nýtir. Norðurorka heldur ótrauð áfram undirbúningi fyrir borun vinnsluholu sem boruð verður á næsta ári. Þegar dæluprófunum verður lokið mun Norðurorka aftur sækja um nýtingarleyfi til Orkustofnunar sem byggja mun að niðurstöðum dæluprófana.

Norðurorka hefur alltaf haft ábyrga auðlindanýtingu að leiðarljósi og hefur verið framarlega í vöktun og eftirliti á þeim auðlindum sem fyrirtækinu er treyst fyrir.