Fara í efni
Fréttir

Skútaberg áminnt af Heilbrigðisnefnd

Hluti af athafnasvæði Skútabergs ehf. á Moldhaugahálsi eins og það leit út í júní í fyrra. Mynd: Þorgeir Baldursson

Við vettvangsskoðun á vegum Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra á athafnasvæði Skútabergs á Moldhaugahálsi sáust engin merki þess að fyrirtækið hefði unnið samkvæmt framkvæmdaáætlun til að bæta umgengni og ásýnd svæðisins.

„Heilbrigðisnefnd átelur fyrirtækið fyrir að fylgja ekki eigin framkvæmdaáætlun og fara ekki að fyrirmælum nefndarinnar um tiltekt á lóðinni. Nefndin ítrekar að umgengni um athafnasvæðið er afleit og ásýnd þess er verulegt lýti fyrir umhverfið og að rækileg tiltekt á svæðinu þolir ekki frekari bið,“ segir meðal annars í bókun nefndarinnar frá 26. nóvember.

Fara ekki eftir eigin framkvæmdaáætlun

Framkvæmdaáætlun fyrirtækisins dagsett 8. apríl á þessu ári gerði ráð fyrir að vinna við gerð geymslusvæðis hæfust um mánaðamótin apríl-maí, að því er fram kemur í fundargerð og bókun Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra frá 26. nóvember. Þar segir að samkvæmt áætluninni hafi átt að flytja vörugáma, vinnubúðaeiningar og flutningabíla með vörukössum inn á geymslusvæðið í september og október.

Að teknu tilliti til áætlunarinnar samþykkti Heilbrigðisnefndin að veita fyrirtækinu frest til 1. nóvember til að lytja umrædda hluti inn á geymslusvæðið. Um það sjást hins vegar engin merki, eins og áður sagði. Við vettvangsskoðun kom í ljós að enn var mikið af umræddum hlutum á svæðinu og hafði fyrirtækið þannig ekki brugðist við kröfum nefndarinnar um tiltekt á svæðinu fyrir 1. nóvember.  

Heilbrigðisnefndin samþykkti að áminna Skútaberg ehf. með vísun í samþykkt um umgengni og þrifnað á starfssvæði nefndarinnar, vegna brots á reglugerð um hollustuhætti og vegna brots á reglugerð um meðhöndlun úrgangs. Nefndin samþykkti jafnframt að veita fyrirtækinu lokafrest til 1. janúar til að flytja vörugáma, vinnubúðaeiningar og flutningabíla með vörukössum inn á varanlegt geymslusvæði.

Ekki kemur fram í bókun nefndarinnar hvað muni gerast að þeim fresti loknum, en gera má ráð fyrir að þá gæti farið að styttast í álagningu dagsekta.