Fara í efni
Fréttir

Öllum fimm var sleppt eftir yfirheyrslur

Mynd: Skapti Hallgrímsson

Öllum fimm sem handteknir voru og yfirheyrðir í gær vegna rannsóknar embættis héraðssaksóknara á Vélfagi var sleppt úr haldi í gærkvöldi að loknum skýrslutökum.

Tæknifyrirtækið Vélfag er eina íslenska fyrirtækið sem sætt hefur viðskiptaþvingunum vegna meintra tengsla við Rússland og rússneska skuggaflotann, sem svo er kallaður; flota skipa sem vestrænir leiðtogar telja Rússa hafa notað til þess að kom­ast í kring­um refsiaðgerðir.

Viðskiptaþving­an­irn­ar sem Vélfag hefur sætt eru hluti af aðgerðum Íslands, Nor­egs og Evr­ópu­sam­bands­ins gegn rúss­nesk­um fyr­ir­tækj­um vegna inn­rás­ar Rússa í Úkraínu.

Rússneska útgerðarfélagið Norebo keypti meirihluta í Vélfagi af stofnendunum í ársbyrjun 2022 en núverandi meirihlutaeigandi, kaupsýslumaðurinn Ivan Nicolai Kauf­mann, eignaðist hlutinn 16. maí árið 2023, fjórum dögum áður en ESB tilkynnti að Norebo yrði beitt þvingunaraðgerðum. Hann hefur alla tíð þvertekið fyrir að hafa keypt fyrirtækið til málamynda, eins og Arion banka og utanríkisráðuneytið hefur grunað.