Fara í efni
Fréttir

Um 2000 skoðuðu vinnslu Samherja á Dalvík

Ljósmyndir: Samherji/Axel Þórhallsson

Hátt í tvö þúsund manns þáðu boð Samherja um að skoða fiskvinnsluhús fyrirtækisins á Dalvík, þegar var opið almenningi á fimmtudaginn, sumardaginn fyrst. Húsið hefur verið lokað öðrum en starfsfólki vegna Covid frá því vinnsla hófst formlega í húsinu í ágúst 2020.

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja segir að fiskvinnsluhúsið hafi vakið töluverða athygli erlendis, margir komi sérstaklega til Íslands til þess að skoða nýjustu tækni og allan aðbúnað í húsinu, að því er segir á vef fyrirtækisins.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstóri Samherja, ræðir við tvo gestanna, Önnu Hermannsdóttur og Gretti Frímannsson.

Frábær byrjun á vonandi góðu sumri

Full vinnsla var í húsinu, þannig að gestum gafst einstakt tækifæri til að sjá og kynnast starfseminni. Sigurður Jörgen Óskarsson vinnslustjóri segir greinilegt að margir hafi beðið spenntir eftir að sjá alla tæknina í húsinu og góðan aðbúnað.

Sigurður segir að Samherjamenn hafi rennt nokkuð blint í sjóinn varðandi fjölda gesta. „Áhuginn kom mér ánægjulega á óvart og einnig hversu þægilegt var að taka á móti svo miklum fjölda. Spurningar fólks voru eðlilega af ýmsum toga, skemmtilegast fannst mér þó að hitta fyrrum samstarfsfólk og rifja upp góðu dagana í eldra húsinu. Straumurinn var nokkuð jafn og stöðugur allan tímann sem opið var, þannig að þetta gekk allt saman vel fyrir sig, enda húsið stórt og vítt til veggja. Þetta var frábær byrjun á vonandi góðu sumri,“ segir Sigurður Jörgen Óskarsson.

Húsið vekur erlenda athygli

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja tekur í sama streng. „Það er um margt nokkuð flókið að sýna matvælavinnslu þegar framleiðsla er í gangi. Hérna á Dalvík starfar dugmikið fólk sem sýndi almenningi með stolti sinn vinnustað og ég er þakklátur öllum sem gerðu þennan dag að veruleika. Ég er nokkuð viss um að gestir urðu margs vísari um íslenskan sjávarútveg og hversu framarlega við Íslendingar stöndum,“ segir Þorsteinn Már.

„Húsið hefur vakið talsverða athygli bæði innanlands og erlendis. Margir eru að koma sérstaka ferð til Íslands til þess að skoða tæknina og aðbúnaðinn og þannig verður það sjálfsagt næstu mánuðina,“ segir forstjórinn á vef Samherja.

Fyrr í mánuðinum var uppsjávarveiðiskip Samherja Vilhelm Þorsteinsson EA 10 sýnt almenningi. Um eitt þúsund gestir skoðuðu skipið, þannig að samtals hafa því hátt í þrjú þúsund manns þegið heimboð Samherja.

Sigurður Jörgen Óskarsson vinnslustjóri ræðir við áhugasama gesti hússins.