Fara í efni
Umræðan

Tónatraðarmálið

Eitt af því sem mér lærðist á fyrra tilverustigi sem embættismaður sveitarfélaga er það hversu geysilega mikilvægt það er að ástunduð sé óaðfinnanleg stjórnsýsla þegar afgreiðsla skipulagsmála er annars vegar. - Ekki síst þegar um er að ræða mál sem eru þegar umdeild eða gætu orðið það síðar.

Af þessum sökum er ég satt að segja furðu lostinn yfir þeim stjórnsýsluháttum, sem mér sýnist hafa verið viðhafðir af hálfu Akureyrarbæjar í Tónatraðarmálinu. Ég kafaði svo sem ekki dýpra í málið en svo að ég kynnti mér það sem er að finna á heimasíðu bæjarins af bókunum og fylgiskjölum um málið (nr. 2021011421), og fann þetta:

Skipulagsráð fjallaði um málið á fjórum fundum áður en það kom til afgreiðslu bæjarstjórnar 4. maí s.l. Á fyrsta fundinum 27.01.2021 er lögð fram „umsókn SS Byggis ehf. dagsett 21. janúar 2021 um breytingu á deiliskipulagi við Tónatröð til samræmis við meðfylgjandi hugmyndir.“ Hvorki umsóknin né hugmyndirnar eru birtar með bókuninni á heimasíðunni og birtast ekki heldur með bókunum um málið á næstu fundum ráðsins. Og ekki er heldur að finna neina lýsingu á efnisinnihaldi umsóknarinnar í bókunum nefndarinnar. - Sem hefði t.d. getað verið svona: „Framlagðar hugmyndir umsækjanda gera ráð fyrir allt að 7 hæða fjölbýlishúsum á svæðinu í stað einbýlishúsa eins og gildandi deiliskipulag kveður á um.“

Á fundi 28.04.2021 tekur ráðið lokaákvörðun sína í málinu. Bókað er að lögð sé fram að nýju umsókn SS Byggis ásamt meðfylgjandi hugmyndum. Ákvörðun meirihluta ráðsins er á þann veg að hann „samþykkir að vísa til bæjarstjórnar ákvörðun um hvort heimila eigi umsækjanda að vinna að gerð breytingar á skipulagi svæðisins til samræmis við fyrirliggjandi umsókn.“ Enn fylgja engin gögn bókuninni og engin lýsing á efnisinnihaldi þess sem um er rætt.

Bæjarstjórnin tekur þessa bókun Skipulagsráðs fyrir 4. maí s.l. Með fundargerð bæjarstjórnar fylgir nú loksins fylgiskjal: pdf-skjal með heitinu „Tónatröð bréf til Ak.pdf.“ Hvergi í fundargerðinni er vísað sérstaklega til þessa skjals, og því er eðlilegt að gefa sér að þarna hljóti að vera á ferðinni umsóknin eða erindið sem allt snýst um. Meinið er hinsvegar að þetta bréf ber ekki með sér frá hverjum það er, það er óundirritað og ódagsett og í textanum kemur ekkert fram um það hvert erindið er - hvað verið er að sækja um. Sem sagt fullkomlega ónýtt sem fylgiskjal.

Á fundinum 4. maí samþykkir svo meirihluti bæjarstjórnar „að heimila eigi (lbr. FB) umsækjanda að vinna að gerð breytingar á skipulagi svæðisins …“ Við þetta orðalag er ýmislegt að athuga. Þegar bæjarstjórnin bókar að „heimila eigi umsækjanda …,“ þá hljóta að felast í því skilaboð til einhvers þriðja aðila um að hann eigi að veita heimildina. En það getur þó ekki staðist, því að einungis bæjarstjórnin og enginn annar getur veitt heimild eins og hér um ræðir, sbr. 38. gr. skipulagslaga nr 123/2010. Og þá er bara eftir einn túlkunarmöguleiki, sem er sá að orðið eigi hafi þarna merkinguna ekki eins og títt er í formlegum og virðulegum textum. Ákvörðun bæjarstjórnar í málinu er þá sú að heimila ekki umsækjanda að vinna að gerð breytingar á skipulagi svæðisins … . - Synja honum um heimildina.

Auðvitað er hægur vandinn að afskrifa þessar athugasemdir um orðalag í bókun bæjarstjórnar sem útúrsnúning. Það myndi ég gera sjálfur ef ég væri svo ólánsamur að þurfa að verja þessi vinnubrögð. En vönduð stjórnsýsla felst samt ekki síst í því að bókanir og samþykktir séu orðaðar þannig að ekki sé hægt að misskilja þær eða hártoga. Ef þess er ekki gætt getur það nefnilega komið mönnum illilega í koll ef og þegar málin lenda á borðum bókstafstrúaðra úrskurðarnefnda eða dómstóla.

En þar fyrir utan snýst gagnrýni mín ekki eingöngu um þessa bókun bæjarstjórnar 4. maí. Samkvæmt framansögðu virðist öll meðhöndlun málsins hafa vera þessu sama marki brennd og langt frá því að uppfylla kröfur um vandaða stjórnsýslu.

Höfundur er arkitekt á eftirlaunum og fyrrverandi skipulagsstjóri á Akureyri og í Mosfellsbæ.

Hvar á að leggja Blöndulínu 3?

Karl Ingólfsson skrifar
23. apríl 2024 | kl. 18:00

Svona er síminn hannaður til að stela athygli okkar

Skúli Bragi Geirdal skrifar
22. apríl 2024 | kl. 08:20

Hvar hvílir Jónas frá Hrafnagili?

Sunna Vilborg Jónsdóttir skrifar
21. apríl 2024 | kl. 06:00

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15