Fara í efni
Mannlíf

Þegar kennarar voru reknir úr MA!

Í bókinni Ég verð að segja ykkur segir Hafnfirðingurinn Ingvar Viktorsson frá ævi sinni og þar með skólagöngunni í Menntaskólanum á Akureyri, þar sem hann var við nám frá 1959 til 1963. Það var engin lognmolla í kringum suma af kennurum skólans á þessum árum eins og sjá má af eftirfarandi sögu!

Dannebrogsfélagið veldur draugagangi

Ekki er hægt að segja frá MA á þessum árum án þess að minnast á Dannebrogsfélagið, en í því voru ekki nemendur, heldur kennarar. Forystusauðurinn var Steingrímur Sigurðsson og með honum voru þeir Siglaugur Brynleifsson og Kristján Árnason, auk kennara úr tónlistarskólanum. Þeir skemmtu sér um helgar við drykkju og fleira, héldu stór og mikil partý, þar sem ýmsum var boðið og allt var í dönsku fánalitunum, rauðum og hvítum. Til eru margar sögur af þeim félögum, sem ekki verða sagðar hér, en þeir fóru stundum yfir strikið. Í einhvejru partýinu datt þeim í hug að hrekkja samkennara sinn úr MA, Jón Margeirsson. Þeir tóku sig til og fóru í myrkri að svefnherbergisglugganum á íbúðinni hans, voru með hvítt lak yfir sér og bauluðu og hrisstu lakið, þannig að hann hélt að draugar væru þarna á ferð og varð hræddur. Jón hringdi í lögregluna, en hún missti af þeim og var því ekki vitað hverjir stæðu fyrir þessu. Líklegast þótti að það væru nemendur úr MA. Þessi draugagangur hélt áfram og loks voru þeir staðnir að verki, kennararnir. Þetta þótti saga til næsta bæjar og málið var tekið fyrir í skólanum. Nemendurnir fylgdust að sjálfsögðu vel með þessu og hengdu upp kassa víða á göngum skólans og heimavistarinnar, þar sem safnað var í peningum svo að reisa mætti stofnun, sem hýst gæti og tugtað til vandræðakennara.

Sú ákvörðun var tekin að kennurunum skyldi vísað úr skólanum í hálfan mánuð. Kristján og Siglaugur létu það yfir sig ganga, en Steingrímur mætti ekki meir og þar varð skólinn af góðum kennara. Sennilega héti þetta „einelti“ í dag, en þeir voru „bara“ að skemmta sér og gera at!

Bókaútgáfan Hólar gefur út bók Ingvars Viktorssonar.