Fara í efni
Pistlar

Það er hollt að láta sig langa

Við Hallur tilheyrum þeim forréttindahópi sem hefur getað leyft sér að ferðast til nýrra staða erlendis síðustu ár. Ævintýrin hafa verið mörg og við erum því orðin nokkuð ferðaþyrst eftir nokkuð langan tíma heima. Við höfum reynt að nýta árið til að ferðast í huganum og endurupplifa ævintýrin og góðar stundir með því að skoða myndir úr ferðalögum og rifja upp skemmtilegar stundir. Útþráin náði örugglega einhvers konar hámarki (eða mögulega lágmarki) þegar við sátum langa kvöldstund í haust og fórum í gegnum gamlar bókanir á Booking og Airbnb. Eins og það er ljúft að rifja upp og skoða gamlar hótelpantanir þá verður að segjast að það jafnast alls ekki á við að vera á ferðinni. Auðvitað er þetta lúxusvandamál og nú þarf mun minna en áður til að gleðja ferðaþyrst fólk á brekkunni. Við vorum því æsispennt að gera húsaskipti við frábæra frænku í miðborg Reykjavíkur um páskana. Spenningurinn yfir því að skipta um umhverfi var eiginlega vandræðalegur og svo var langþráð samvera með systkinum okkar og þeirra börnum til auka enn á spenninginn. Við höfum nefnilega varla hitt fólkið okkar fyrir sunnan síðan síðasta sumar.

Svo var bara öllu skellt í lás! Ekki bara allri afþreyingu lokað heldur var fólk eindregið hvatt til að ferðast innanhús um páskana og vera ekki á ferðinni milli landshluta nema brýna nauðsyn bæri til. Ferlega fúlt en eftir stutta umhugsun var auðvitað ákveðið að slaufa húsaskiptum og halda sig heima, í samræmi við fyrirmæli og einlæga beiðni yfirvalda. Svekkelsið við að missa af páskafríi í Reykjavík var á pari við að missa af frábæru fríi á framandi sólarströnd en svona er þetta bara á tímum kórónaveirunnar. Við höfum þó Kjarnaskóg og heitan pott. En, það er alveg undarlegt að horfa upp á útihátíðarstemninguna sem myndast hefur við gosstöðvarnar í Geldingadölum. Ég skil harla vel að fólk vilji berja augum svo merkilegt náttúruundur sem eldgos er en auðvitað hljótum við sem horfum á þetta úr fjarlægð að furða okkar á fólksmergðinni nú þegar samkomutakmarkanir hafa aldrei verið harðari. En svona er þetta bara, eins og þetta ástand er orðið þreytt og langdregið eru viðbrögðin og lokanirnar skiljanlegar. Við getum jú alltaf gengið upp í Hlíðarfjall með brettin á bakinu, farið á gönguskíði eða spilað við börnin. Svo held ég að Ásthildur bæjarstjóri hafi alveg hitt naglann á höfuðið þegar hún hrósaði Akureyringum fyrir að vera hlýðið fólk, við er bara alveg súpergóð að fara eftir reglum sýnist mér.

Samvera með fjölskyldu bíður aðeins eins og ferðalögin, ef það er eitthvað sem Covid hefur kennt okkur þá er það þolinmæði og allra leiðinlegasta orðatiltækið sem Hallur notar stundum hefur bara reynst vera ótrúlega satt: Það er hollt að láta sig langa. Nú er bara að njóta hæglætisins, belgja sig út af páskaeggjum og hlusta á útvarpsleikrit Kriðpleis á Rás 1 og vafra um á bókunarsíðum á internetinu ef útþráin heltekur okkur.

Andrea Sigrún Hjálmsdóttir er félagsfræðingur (og gullsmiður) og lektor við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.

Um þróun stafafuru

Sigurður Arnarson skrifar
24. apríl 2024 | kl. 09:15

Kanínuholan sem ekki er hægt að klípa sig frá

Rakel Hinriksdóttir skrifar
24. apríl 2024 | kl. 06:00

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Hvað hét kona Goebbels?

Orri Páll Ormarsson skrifar
19. apríl 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Spítalavegur 9

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
18. apríl 2024 | kl. 08:00