Fara í efni
Fréttir

Styttist í naglasektirnar

Umþóttunartími ökumanna frá því að ólöglegt varð að aka um á nagladekkjum þar til lögreglan lítur ekki lengur framhjá nöglunum og fer að sekta ökumenn fyrir að aka á nagladekkjum er liðinn eða um það bil að líða.
 
Í pistli sem lögreglan á Norðurlandi eystra birti á Facebook-síðu sinni fyrir nokkrum dögum hvetur lögreglan þá ökumenn sem eiga eftir að huga að dekkjaskiptum að skipta út nagladekkjunum sem fyrst. „Við höfum skilning á því að það er háannatími hjá dekkjaverkstæðum á svæðinu um þessar mundir, en ítrekum þó hér með að ökumenn beri ábyrgð á því hvernig bifreið sem þeir aka á sé útbúin,“ segir meðal annars í pistlinum. 
 
Þá upplýsir lögreglan einnig að lögreglumenn hjá embættinu muni þessa dagana og í allt sumar halda uppi öflugu hraðaeftirliti, hvort heldur er innanbæjar eða utan þéttbýlis. „Með hækkandi sól hefur talsvert borið á hraðakstri á svæðinu og því vill lögreglan beina þeim tilmælum til ökumanna að þeir flýti sér hægt. Nú er mikið af nýjum vegfarendum í umferðinni, m.a. á reiðhjólum og bifhjólum, og því afar mikilvægt að sýna aðgæslu. Sérstaklega er viðbúið að reiðhjólamenn verði áberandi í umdæminu næstu vikur og mánuði. Sem fyrr er nauðsynlegt að allir í umferðinni sýni tillitssemi því þá gengur allt betur og öruggar fyrir sig,“ segir í pistli lögreglunnar.