Fara í efni
Fréttir

Númerslausir bílar færðir í skjóli nætur?

Á bílastæði við Menntaskólann. Báðar þessar bifreiðar voru um mislangan tíma við fjölbýlishús í nágrenninu, en áður hafði Hondan staðið á bílastæði við Berjaya-hótelið. Báðar bifreiðarnar voru fjarlægðar af bílastæðinu við MA að kvöldi 3. september eða aðfaranótt 4. september. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Það sem af er ári hafa tíu númerslausar bifreiðar í eigu Auto ehf. á Svalbarðsströnd verið fjarlægðar af lóðum fyrirtækja, fjölbýlishúsa og af opnum svæðum innan bæjarmarka Akureyrar. Þetta kemur fram í fundargerð Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra frá 17. september, sem gerir „alvarlegar athugasemdir við þá ítrekuðu háttsemi Auto ehf. að staðsetja númerslausar bifreiðar, margar í mjög slæmu ásigkomulagi, á almennings- og einkalóðum innan bæjarmarka Akureyrar,“ eins og segir í bókun nefndarinnar.

Að auki eru dæmi um að sami eigandi færi sjálfur til númerslausar bifreiðar á lokadegi frests sem gefinn er af Heilbrigðiseftirlitinu eða starfsmönnum Akureyrarbæjar með límmiðum á rúður bifreiða með „tilkynningu um stjórnvaldsákvörðun“. Álímingar með viðvörunum koma yfirleitt í framhaldi af kvörtunum frá íbúum, fyrirtækjum eða stofnunum og er eiganda þá gefinn viku frestur til að koma bifreiðinni eða bifreiðunum í burtu.

Dæmi eru um að bifreiðarnar séu þá færðar til um aðeins nokkur hundruð metra á milli bílastæða, af einu stæðinu á annað. Þannig birtast sömu númerslausu bifreiðarnar aftur og aftur, hér og þar um bæinn og má ef til vill spyrja hvort þeim sem hægt er að aka hefur þá verið ekið númerslausum og ótryggðum á milli staða í skjóli nætur eða hvort eigandi eða eigendur flytja þær með öðrum hætti.

Sjaldan er ein bifreiðin stök

Brögð eru að því að jafnvel standi fleiri en ein númerslaus bifreið saman í óleyfi á bílastæðum í bænum. Í maí náðist mynd af ljósgráum Suzuki-jepplingi á bílastæði við Berjaya-hótelið, upp við gamla tjaldsvæðið. Þar stóð hann í einhverja daga og hafði félagsskap af misvel útlítandi kerrum og vögnum. Akureyri.net er ekki kunnugt um hver eigandi Suzuki-bifreiðarinnar er. Það getur þó varla verið tilviljun að í götusýn Google Maps má sjá þennan sama Suzuki-jeppling á götunni framan við Hamragerði 15. Sjá má á beyglu á aftara bretti vinstra megin að um sömu bifreið er að ræða. Á sömu slóðum er líka svört Honda CR-V. 

Götusýn Google Maps framan við Hamragerði 15. Á vinstri myndinni er horft til suðurs, en til norðurs á þeirri hægri. Þarna má sjá sama ljósa Suzuki-jepplinginn og á myndinni hér að neðan. Skjáskot af Maps.google.com.

Um eigendur þriggja númerslausra bifreiða á neðri hluta myndarinnar verður ekki fullyrt hér enda hefur Akureyri.net ekki upplýsingar um það, en eftir að myndirnar voru teknar hafa verið settir á þær viðvörunarlímmiðar með viku fresti fyrir eigendur að fjarlægja bifreiðarnar. Þarna er ljós Mitsubishi Space Wagon í stæði þar sem Vínbúðin var áður, rauð Nissan-bifreið hjá Krambúðinni við Byggðaveg og dökkgrænn Subaru Legacy (ekki sama og rætt er um í fréttinni) hjá grenndarstöðinni við Bónus í Langholti. Á efri hluta myndarinnar er ljós Suzuki-jepplingur á bílastæði við gamla tjaldsvæðið, en hann má einnig finna í götusýn á Google Maps við Hamragerði 15. Myndir: Haraldur Ingólfsson.

Í byrjun júní var svo svartur Honda CR-V jepplingur kominn í sama stæðið og Suzuki-jepplingurinn farinn annað. Á sama tíma og svarta Hondan birtist við tjaldsvæðið birtist dökkgræn Subaru-bifreið á bílastæði við fjölbýlishús í nágrenninu. Þar fékk hún að standa óáreitt þar til um sjö vikum síðar þegar íbúar kvörtuðu við Heilbrigðiseftirlitið.

Þegar þarna var komið sögu hafði svarti Honda-jepplingurinn verið færður frá bílastæðinu við hótelið og kominn á bílastæði við sama fjölbýlishús og Subaru-bifreiðin. Eigandi beggja bifreiðanna er sá sami, Auto ehf. Eigandinn fékk viku frest til að fjarlægja bifreiðarnar og einn daginn voru þær farnar. En viti menn, þær fóru ekki langt heldur birtust á bílastæði við Menntaskólann. Akstursleiðin frá fyrri dvalarstað til þess síðari er um 750 metrar, en bein fjarlægð um 400 metrar. Þetta var undir lok júlímánaðar.

Svartur Honda CR-V jepplingur á bílastæði við gamla tjaldsvæðið, hjá Berjaya-hótelinu, í byrjun júní. Akureyri.net er ekki kunnugt um eigendur að kerrunum sem halda Hondunni félagsskap, en Hondan er í eigu Auto ehf. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Bílastæði við skóla bæjarins eru ef til vill nokkuð öruggt skjól fyrir númerslausar bifreiðar að sumarlagi enda sjaldnast kvartað fyrr en við skólabyrjun. Heilbrigðiseftirlitið fékk ábendingu um bifreiðarnar á bílastæði Menntaskólans 23. ágúst. Nokkrum dögum síðar voru límdir á þær viðvörunarmiðar og gefinn frestur til 3. september að fjarlægja þær. Tímasetning á brotthvarfi er áhugaverð því tíðindamaður Akureyri.net getur staðfest að þær voru fjarlægðar á tímabilinu frá kl. 20:45 að kvöldi 3. september til kl. 7:15 morguninn eftir.

Hondan fór niður á Dalsbraut, við Húsgagnahöllina, og hefur fengið á sig nýjan límmiða, en Akureyri.net er ekki kunnugt um verustað Subaru-bifreiðarinnar.

Mynd tekin 30. ágúst. Hér er búið að líma viðvörunarmiða á rúður bifreiðanna og gefinn frestur til 3. september að fjarlægja þær, sem var svo gert seint að kvöldi 3. eða aðfararnótt 4. september. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Er þetta ekki sama svarta Honda CR-V bifreiðin og komið hefur við á nokkrum öðrum bílastæðum í bænum eins og rakið er hér að ofan? Þessi númerslausa Honda CR-V stendur nú við Dalsbrautina, framan við Húsgagnahöllina og hefur fengið á sig límmiða um fjarlægingu. Myndin er tekin að kvöldi 21. september. Myndir: Haraldur Ingólfsson.

Eltingarleikur um allan bæ

Það eru svo ekki aðeins númerslausar bifreiðar sem finna má víða um bæinn heldur hafa bifreiðar á númerum staðið um langan tíma hér og þar um bæinn. Í einhverjum tilvikum eru þær merktar með miða, Notkun bönnuð, en slíka miða er hægt að fá afhenta hjá Samgöngustofu ef ekki er hægt að fjarlægja númeraplötuna. Bílasafnarar virðast sumir eiga auðvelt með að útvega sér slíka miða. Akureyri.net er kunnugt um nokkrar bifreiðar af því taginu sem standa ýmist í íbúðargötum eða á bílastæðum við fyrirtæki í bænum. 

Þriðji flokkur bifreiða sem finna má víða um bæinn eru bifreiðar í eigu Auto ehf. sem standa, á númerum, tryggðar og með skoðun, í langan tíma á bílastæðum í bænum. 

Dæmi um slíkt er bifreið sem fjarlægð var af göngustíg í janúar 2024, en leyst út nokkru síðar og stóð í einhvern tíma á númerum á öðrum stað í bænum. Lögreglan klippti númerin af bifreiðinni í mars og aftur var límdur viðvörunarmiði. Í framhaldinu var bifreiðin færð úr stað og birtist á bílastæði annars staðar í bænum, stóð þar í rúmt ár með fulla skoðun og á númerum. Aftur klippti lögreglan númerin af um mitt ár vegna vangoldinna trygginga og viðvörunarmiði límdur á í kjölfarið. Viku síðar var bifreiðin farin og birtist á öðrum stað í ágúst. Enn var límdur viðvörunarmiði á bifreiðina, en viku síðar var hún enn á sama stað og nú aftur á númerum. 

Ítrekaðar kröfur um hreinsun í Krossanesi

Eins og fram kom í fréttum akureyri.net í sumar voru bílhræ á lóð Akureyrarbæjar í Krossanesi fjarlægð og flutt í móttökustöð brotajárns þann 3. júlí. Heilbrigðisnefndin ítrekar að þetta hafi verið gert rúmum sjö mánuðum eftir að samningur um tímabundin afnot af lóðinni rann út. Sá samningur var á milli Akureyrarbæjar og Auto ehf. og var gerður án vitundar og aðkomu Heilbrigðiseftirlitsins. „Áður en lóðin var hreinsuð hafði Heilbrigðisnefnd ítrekað gert kröfu um hreinsun og hótað beitingu þvingunarúrræða til að knýja fram nauðsynlegar úrbætur,“ segir í bókun nefndarinnar.