Fara í efni
Fréttir

Dagsektir á Auto ehf. komnar í 20 milljónir

Frá athafnasvæði Auto ehf. að Setbergi á Svalbarðsströnd. Myndin er tekin í maí 2025. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Ekki hefur enn verið brugðist við kröfu Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra um hreinsun lóðarinnar að Setbergi á Svalbarðsströnd og þar eru ógreiddar dagsektir sem lagðar hafa verið á frá lokum október í yrra. Innheimtuaðgerðir vegna þeirra eru í hefðbundnu ferli. Lóðin er yfirfull af bílum og bílhræjum, eins og akureyri.net hefur áður fjallað um.

Frá og með 28. október í fyrra, til og með 26. nóvember á þessu ári, þegar Heilbrigðisnefndin fundaði síðast og bókaði um stöðuna hjá Auto ehf., eru 395 dagar. Höfuðstóll dagsekta að upphæð 50 þúsund krónur á dag er þar af leiðandi kominn í nær 20 milljónir miðað við fundardag nendarinnar og nákvæmlega 20 milljónir miðað við 1. desember. Er þá ótalinn innheimtukostnaður.

Kvartanir yfir geymslu bíla í Þingeyjarsveit

Þróunin varðandi númerslausa bíla virðist jákvæð, að minnsta kosti fyrir Akureyringa því dregið hefur úr kvörtunum vegna númerslausra bíla á vegum fyrirtækisins innan Akureyrarbæjar að undanförnu. Ekki er þó víst að vandinn hafi þar með verið leystur því svo virðist sem að minnsta kosti hluti hans hafi verið færður annað. Heilbrigðisnefndin tekur nenilega fram að nýlega hafi borist kvörtun vegna númerslausra bíla í eigu Auto ehf. á landareign í Þingeyjarsveit.

„Heilbrigðisnefnd ítrekar kröfu sína um tafarlausa tiltekt á lóð fyrirtækisins að Setbergi á Svalbarðsströnd. Leggja skal áherslu á að hreinsa það svæði sem blasir við frá þjóðvegi og fjarlægja hugsanleg spilliefni af lóðinni. Dagsektir verða lagðar á og innheimtuaðgerðum haldið áfram þar til úr verður bætt. Jafnframt ítrekar nefndin þá kröfu að forsvarsmenn fyrirtækisins tryggi að ökutæki í eigu og umsjón þess séu geymd á til þess ætluðum svæðum,“ segir í bókun nenfdarinnar um stöðu mála varðandi Auto ehf.