Fara í efni
Umræðan

Styrk stjórn gefur góðan árangur

Rekstri Akureyrarbæjar verður seint lýst með orðum Nóbelskáldsins um að allt fari þetta einhvern veginn. Ársreikningar sveitarfélagsins sýna svart á hvítu að styrk stjórn fjármála og aðhald í rekstri hafa skilað góðum árangri.

Síðustu ár hafa verið þung í rekstri sveitarfélaga enda verkefnin ærin. Akureyrarbær hefur ekki farið varhluta af því. Sem betur fer hefur ráðdeildin borgað sig og fjárhagur sveitarfélagsins er nú sterkari en verið hefur um langan tíma. Málaflokkar standast áætlun ársins, tekjurnar eru betri og vaxtaumhverfið hagfelldara.

Árið 2024 var samstæðan rekin með 2.218 milljóna króna afgangi og gekk því mun betur en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Meginskýringar á bættri afkomu eru dvínandi verðbólga, hófleg hækkun lífeyrisskuldbindinga og hækkun tekna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og hærri þjónustutekjur, einkum hjá hafnasamlagi og veitum. Niðurstaða aðalsjóðs og A-hluta er jákvæð og langt yfir væntingum sem er heldur betur gleðilegt. Samkvæmt sjóðstreymi nam veltufé frá rekstri 5,7 milljörðum króna sem er næstum 800 milljónum betri niðurstaða en áætlað var. Á sama tíma hefur verið fjárfest fyrir ríflega 5 milljarða í nýju hverfi, skólum og íþróttamannvirkjum sem og öðru. Skuldir hafa ennfremur lækkað hlutfallslega milli ára og var skuldaviðmið samstæðunnar í árslok 2024 75% og lækkar um 5% frá fyrra ári. Skuldaviðmið A-hluta var 54% í árslok.

Ég viðurkenni fúslega að ég er ákaflega hreykin af þessari góðu niðurstöðu. Víða kreppir skóinn á Íslandi í dag og í heiminum öllum, en við stöndum keik, rekum gott velferðarsamfélag sem iðar af menningu, býður upp á framúrskarandi uppfræðslu og menntun, mikil lífsgæði og íþróttastarf sem skilar okkur ár eftir ár titlum og viðurkenningum sem við getum öll verið stolt af. Bæjarfulltrúar, starfsfólk sveitarfélagsins, atvinnulífið og bæjarbúar allir eiga sinn þátt í þessari góðu niðurstöðu.

Við getum verið þakklát fyrir okkar góða samfélag. Áfram Akureyri!

Ásthildur Sturludóttir er bæjarstjóri á Akureyri.

Ef við getum ekki lækkað fasteignaskatt, þá eigum við að hagræða

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
03. júlí 2025 | kl. 14:00

Verulegt rými til framfara

Árni Guðmundsson skrifar
02. júlí 2025 | kl. 11:00

Látið hjarta Akureyrar í friði

Guðjón Heiðar Pálsson skrifar
01. júlí 2025 | kl. 06:00

Fiskeldi og samfélagsábyrgð

Eyjólfur Ármannsson skrifar
30. júní 2025 | kl. 09:45

Hver borgar brúsann?

Ingibjörg Isaksen skrifar
28. júní 2025 | kl. 12:00

Börn eiga skilið að alast upp í friði – þrátt fyrir breyttar aðstæður

Halldóra K. Hauksdóttir skrifar
25. júní 2025 | kl. 16:30