Stefnt á leiki bæði í Liverpool og Leeds

Ferðaskrifstofan TA Sport og Akureyri.net ætla að bjóða upp á þrjár hópferðir á knattspyrnuleiki í Englandi í vetur, í beinu flugi með easyJet frá Akureyri. Tvær ferðir eru á prjónunum á heimaleiki Liverpool og sú þriðja á heimaleik nýliða Leeds, gegn Liverpool.
Tveir hópar fóru utan í fyrravetur og sáu Liverpool leika á heimavelli, frábærlega tókst til í bæði skiptin og því verður leikurinn endurtekinn. Beint flug easyJet milli Akureyrar og Manchester hefst á ný laugardaginn 15. nóvember og stefnt er að fyrstu ferðinni viku síðar.
Forskráning
Enn eru allir leikir sem fara fram um helgar skráðir á laugardag, nema þeir allra fyrstu í haust, og ekki kemur í ljós fyrr en með um það bil sex vikna fyrirvara hvaða leikir verða færðir á sunnudag eða mánudag, að ósk sjónvarpsstöðva.
Flug easyJet frá Akureyri er ekki nógu snemma dags til þess að hægt sé að ná leik á laugardegi og því enn ekki hægt að fullyrða hvaða leikir verða í boði en einblínt er á þrjár helgar til að byrja með.
Fyrri leikurinn sem hópur á vefum TA Sport og Akureyri.net sáu í fyrravetur var viðureign Liverpool og Manchester City 1. desember.
Mögulegt er að forskrá sig, án allra skuldbindinga, og þeir sem það gera ganga fyrir þegar sala ferðanna hefst. Gífurlegur áhugi var á ferðunum síðasta vetur þannig að áhugasamir eru hvattir til þess að skrá sig.
- Til að forskrá sig skal senda póst, með upplýsingum um nafn/nöfn og símanúmer á info@tasport.is eða skapti@akureyri.net
Í fyrravetur reyndist langmestur áhugi á að sjá Liverpool á heimavelli og stefnt er á eftirtaldar helgar, svo fremi þessir heimaleikir Liverpool og Leeds verði færðir af laugardegi. Einnig er hægt að útvega miða á hina leikina.
22. – 25. nóvember
- Liverpool – Nottingham Forest
- Manchester Utd – Everton
- Leeds – Aston Villa
6. - 9. desember
- Leeds - Liverpool
- Everton - Nottingham Forest
7. – 10. febrúar
- Liverpool – Manchester City
- Manchester Utd – Tottenham
- Leeds – Nottingham Forest
Flogið er út á laugardegi og heim aftur í bítíð á þriðjudegi. Ekki er endanlega ljóst hvað ferðirnar kosta en innifalið verður flug, gisting með morgunmat á góðu hóteli í miðborg Liverpool, rútuferðir til og frá flugvelli, miði á leikinn, matur á vellinum og íslensk fararstjórn.
Margir ferðalanganna í fyrravetur gerðu sér ferð á stórskemmtilegt safn Liverpool á Anfield, leikvangi félagsins.