Fara í efni
Umræðan

„Sofðu rótt í alla nótt“– Um stöðu íslenskunnar, lestrarmenningu og ákall til okkar sjálfra

Hvenær verður vandi að krísu?

Að íslensk leikskólabörn séu æ oftar farin að spjalla sín á milli á ensku, telja á ensku, þekkja litina á ensku: Vandi eða krísa? Að nærri helmingur drengja geti ekki lesið sér til gagns: Vandi eða krísa? Að Ísland sé neðst Norðurlanda þegar kemur að lesskilningi nemenda, og að staðan sé sú að fá þátttökuríki PISA hafi lækkað jafnmikið frá síðustu aldamótum: Vandi eða krísa?

Menntakerfið getur tekist á við vanda, en það þarf að virkja samfélag til að takast á við krísu.

Getur íslensk tunga dáið út á næstu fimmtíu árum? Já, nei, kannski? Íslenskan er ekki dauðadæmd en staða hennar er að veikjast. Stjórnvöld þurfa sannarlega að bregðast við, til dæmis með því að tryggja íslenskunni samastað í stafrænni veröld. Hins vegar, þegar öllu er á botninn hvolft, þá er enginn sem getur tryggt framtíð íslenskunnar nema við sjálf.

Þau vandamál sem við töldum upp tengjast öll orðaforða, málþroska, og læsi á einn eða annan hátt. Skólarnir hafa þýðingarmiklu hlutverki að gegna en samt er það svo að nám barna í skólum er aðeins brot af öllu þeirra námi. Börn læra af fjölskyldu sinni og þau læra af samfélaginu. Foreldrar eru fyrstu kennararnir og því mjög mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um hlutverk sitt í þroska og námi barna sinna.

Lestrarmenning á heimilum skiptir sköpum fyrir viðgang og viðhald íslenskunnar, og er lykillinn að bættum árangri íslenskra barna í námi, óháð móðurmáli þeirra. Það er dýrmætt á svo margan hátt þegar foreldrar setja niður á kvöldin, slökkva á farsímanum, og lesa kvöldsöguna.

Að við gefum okkur góðan tíma og tölum við börnin okkar; spyrjum, ræðum, notum fjölbreyttan orðaforða – þannig tryggjum við sem best að börnin okkar nái þeim málþroska sem getur orðið undirstaðan fyrir allt þeirra nám í framtíðinni.

Þess vegna hef ég lagt það til að Akureyrarbær fari í sérstakt átaksverkefni um hlutverk heimilanna þegar kemur að málþroska og læsi barna.

Sveitarfélagið getur svarað kallinu, og gerir það í gegnum öflugt starf leik- og grunnskóla, en fleiri verða að leggja hönd á plóg. Þetta er verkefni sem við þurfum að vinna samhent. Við þurfum á vitundarvakningu að halda.

Gunnar Már Gunnarsson er bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri og MA í íslenskum fræðum.

„Akureyrar ákvæðið“ um lagningu raflína í þéttbýli

Karl Ingólfsson skrifar
26. janúar 2026 | kl. 16:30

Hreint ekki eins og atvinnuviðtal

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
26. janúar 2026 | kl. 13:00

Tjaldsvæðisreiturinn auglýstur „til sölu“

Benedikt Sigurðarson skrifar
25. janúar 2026 | kl. 10:00

Gott að eldast

Kristín Áslaug Guðmundsdóttir skrifar
19. janúar 2026 | kl. 08:00

Hafirðu ekkert gott að segja er betra að þegja!

Hlín Bolladóttir skrifar
16. janúar 2026 | kl. 11:25

Samstaða í ferðaþjónustu aldrei mikilvægari

Halldór Óli Kjartansson skrifar
13. janúar 2026 | kl. 06:00