Fara í efni
Mannlíf

Skrýtið að vakna og þurfa ekki í vinnuna!

Sigríður Jóna Gísladóttir lét af störfum hjá ÚA um áramótin eftir fjörutíu ára starf. Hún segir að gríðarlegar breytingar hafi orðið á þessum fjórum áratugum, sérstaklega tæknilegar. „Jú, auðvitað er svolítið skrýtið að vakna á morgnana og þurfa ekki að mæta í vinnuna,“ segir Sigríður Jóna í viðtali á vef Samherja.

„Ég flutti til Akureyrar frá Grindavík fyrir 43 árum og hafði unnið þar í fiski, þannig að mér þótti nærtækast að sækja um vinnu hjá ÚA. Gunnar Lórentsson réði mig svo að segja á staðnum og hérna hef ég sem sagt verið allan þennan tíma, fyrir utan um þrjú ár. Eins og lög gera ráð fyrir lætur fólk af störfum við ákveðinn aldur og mér þótti áramótin tilvalinn tími til að stimpla mig út og skila starfsmannakortinu.“

Alltaf í eftirlitinu

„Ég var í eftirlitinu svo að segja allan tímann, auk kennslu. Eftirlitið felst í því að fylgjast með gæðum afurðanna áður en þær fara til útflutnings. Þegar ég byrjaði var vinnslan ekki eins tæknivædd og hún er í dag, breytingin er í raun og veru ótrúleg á þessum árum. Í dag sér fullkominn vélbúnaður um að skila gæðaafurðum til kaupenda en þegar ég byrjaði hérna voru vélarnar ekki upp á marga fiska.“

Góð samskipti

Sigríður Jóna hefur verið trúnaðarmaður starfsfólks í Einingu-Iðju í um tvo áratugi. Meginhlutverk trúnaðarmanna er að gæta þess að lög og samningar séu haldnir á vinnustaðnum og vera tengiliður starfsmanna við stéttarfélagið.

„Jú, auðvitað getur þetta hlutverk verið strembið á köflum en mér var trúað fyrir þessu í allan þennan tíma, þannig að eitthvað hlýt ég að hafa gert rétt. Samskiptin við fyrirtækið hafa almennt verið góð þótt auðvitað hafi blásið á móti stöku sinnum á öllum þessum árum. En heilt yfir er ÚA afskaplega góður vinnustaður, enda margir sem hafa starfað hjá fyrirtækinu svo að segja alla starfsæfina. Launin eru þokkalega góð og aðbúnaðurinn til fyrirmyndar.“

Skrýtnir morgnar

Að loknum síðasta vinnudegi var Sigríður Jóna kvödd og henni færður veglegur blómvöndur. „Ég ákvað að setja punktinn um áramótin og ég neita því ekki að morgnarnir í byrjun ársins eru svolítið skrýtnir. Að vakna og þurfa ekki að drífa sig í vinnuna er skrýtið en ég er afskaplega sátt og glöð á þessum tímamótum. Ég hef auðvitað kynnst mörgum á þessum fjórum áratugum og vinasambönd hafa skapast sem breytast ekkert þótt ég hafi kvatt vinnustaðinn.“

Kveðjustund! Frá vinstri: Jakob Atlason, Sigríður Jóna, Hákon Rúnarsson og Sólveig Sigurjónsdóttir.