Fara í efni
Fréttir

Skert þjónusta bæjarins vegna kvennaverkfalls

Akureyrarbær vekur athygli á því að vegna kvennaverkfalls á morgun, föstudaginn 24. október, sé viðbúið að ákveðin þjónusta á vegum bæjarfélagsins verði skert þennan dag. Meðal annars eru foreldrar sem hafi tök á hvattir til að nýta ekki frístund grunnskólanna þennan dag og sækja börn í leikskóla fyrir kl. 11. Þá verður skrifstofa bæjarins í Hlein í Hrísey lokuð.

Í tilefni dagsins fer fram útifundur á Ráðhústorgi frá kl. 11:15 til 12. Í frétt á vef Akureyrarbæjar er tekið fram að hluti af starfsemi sveitarfélaga sé með þeim hætti að ekki sé mögulegt að leggja hana alfarið niður. Kappkostað verði að tryggja þjónustu þannig að velferð, öryggi og heilsu fólks sé ekki stefnt í hættu.

Hvatt til þess að sýna konum og kvárum samstöðu

Engu að síður hvetur Akureyrarbær til þess að konum og kvárum sé sýnd samstaða á þessum degi og að allra leiða sé leitað til þess að sem flest geti tekið þátt í deginum. Mikil hvatning sé í samfélaginu til kvenna og kvára að taka þátt í hátíðarhöldunum og vill bæjarfélagið gera sem flestum kleift að eiga kost á því.

„Með samhentu átaki getum við stuðlað að því að sem flestar konur og kvár geti tekið þátt í deginum. Foreldrar eru hvattir til að hafa börn sín heima eða með sér í vinnu ef mögulegt er, til að auðvelda starfsfólki leikskóla að taka þátt í kvennaverkfallinu. Sundlaugar Akureyrarbæjar verða opnar, en þó má gera ráð fyrir skertri þjónustu,“ segir á vefsíðu Akureyrarbæjar.

Lágmarksstarfsemi verður í frístund grunnskólanna á föstudaginn og foreldrar hvattir til að nýta ekki frístundina, hafi þeir tök á. Sömuleiðis er þess eindregið óskað að foreldrar sæki börn sín í leikskóla fyrir kl. 11, hafi þeir tök á.