Kvennafrídagurinn á Akureyri 1975

SÖFNIN OKKAR – 96
Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _
Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.
Á morgun eru 50 ár frá Kvennafrídeginum 24. október 1975, sem er einn af stóru vörðunum í jafnréttisbaráttunni og sögu Íslands. Þá tóku konur sig til og lögðu niður störf til þess að sýna fram á mikilvægi sitt á vinnumarkaði og krefjast launajafnréttis til jafns við karla auk ýmissa annarra jafnréttismála. Um 90% kvenna lögðu niður störf og hefur verið talað um að þennan dag hafi Ísland stöðvast. Þetta vakti gífurlega mikla athygli langt út fyrir landsteinana.
Um sama leyti og Kvennafrídagurinn var haldinn voru sýningar hjá Leikfélagi Akureyrar á nokkrum einþáttungum eru báru heitið, Ertu nú ánægð kerling?, en allir fjölluðu þeir um stöðu kvenna í þjóðfélaginu. Það var því vel við hæfi að Leikfélagið sýndi nokkra þætti úr sýningunni á dagskrá Kvennafrídagsins á Akureyri í Sjallanum. Hér eru leikkonurnar Saga Jónsdóttir og Kristín Ólafsdóttir.
Á Akureyri lögðu konur einnig niður störf og héldu baráttufund í Sjálfstæðishúsinu – Sjallanum. Í bæjarblaðinu Íslendingi voru þær sem í undirbúningsnefnd sátu tilgreindar; Auður Guðjónsdóttir, Sæbjörg Jónsdóttir, Sólveig Eggertsdóttir, Valgerður Jónsdóttir, Jóhanna Tómasdóttir, Hólmfríður Jónsdóttir, Soffía Guðmundsdóttir, Fjóla Jónsdóttir, Sigrún Stefánsdóttir, Áslaug Jóhannesdóttir, Rósa Eggertsdóttir og Ólöf Jónasdóttir. Einnig voru taldar upp nokkrar helstu ástæður þess að konur vildu leggja niður störf þennan tiltekna dag, þ.e. 24. október, sem jafnframt var og er dagur Sameinuðu þjóðanna.
Kvennafrídagurinn á Akureyri þóttist hafa tekist með glæsibrag líkt og Dagur greindi frá nokkrum dögum síðar. Dagur, 29. október 1975, bls. 1.
Dagskráin fór fram frá 8:00 til 18:00 og var fjölbreytt með barátturæðum og skemmtiatriðum. Dagskráin var kynnt svona í Íslendingi deginum áður:
„Hefur verið ákveðið að 20–30 mínútum af hverjum klukkutíma verði varið til flutnings á dagskrárefni, en þess á milli gefst gestum hússins tækifæri á að skiptast á skoðunum og kynnast högum hver annarrar. Milli kl. 14.00 og 15.30 verður þó samfelld dagskrá. Sjá konurnar að lang mestu leyti um flutning dagskráratriða en hafa fengið til liðs ýmsa góða skemmtikrafta. Flutt verða ávörp, stutt erindi, lesnar sögur, ljóð og þá verður einnig flutt samfelld dagskrá um konuna í íslenskum bókmenntum og leikinn þáttur úr Ertu nú ánægð kerling. Þá koma fram söngkonur með margvíslegt efni, hópsöngur verður og samleikur á fiðlu og pianó.“
Alþýðumaðurinn, 29. október, bls. 6.
Skipuleggjendur vonuðust eftir góðri mætingu og stóðust væntingar og rúmlega það. Í Sjallann mættu á annað þúsund konur og atvinnulíf bæjarins lamaðist.
Að öllu jöfnu er í þessum pistlum fjallað um einn ákveðinn grip eða ljósmynd. Nú ber hins vegar svo við að ekkert slíkt hefur ratað til safnsins frá Kvennafrídeginum á Akureyri 1975. Því óskar Minjasafnið á Akureyri eftir ljósmyndum eða gripum sem tengjast deginum til varðveislu á safninu.
Í Íslendingi voru dregnar fram helstu ástæður þess að konur vildu taka sér frí 24. október. Íslendingur 16. október, 1975, bls. 2.