Fara í efni
Fréttir

Samherji hagnaðist um 6,3 milljarða

Togarinn Kaldbakur EA 1 við fiskvinnsluhús ÚA á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson, af vef Samherja.

Rekstrarhagnaður Samherja hf. nam 6,3 milljörðum króna á árinu 2024 og dróst saman um 1,8 milljarða króna á milli ára. Hagnaður þegar tekið hefur verið tillit til afkomu hlutdeildarfélaga og fjármagnsliða, nam 6,8 milljörðum króna eftir skatta en var 8,7 milljarðar króna á árinu 2023.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í ársreikningi Samherja hf. sem lagður var fram og samþykktur á aðalfundi félagsins. Greint er frá þessu á vef Samherja í dag.

88% af hagnaði í fjárfestingar

Baldvin Þorsteinsson, forstjóri Samherja, vekur athygli á því að að félagið hafi allt frá stofnun lagt ríka áherslu á fjárfestingar í rekstrinum og svo verði áfram. „Frá því ég varð hluthafi í félaginu á árinu 2019 hefur 88% af hagnaði samstæðu Samherja hf. verið varið til beinna fjárfestinga í veiðum og vinnslu og landeldi,“ segir forstjórinn. Hann nefnir að arðgreiðsluhlutfall frá 2019 hafi verið 2,5% af hagnaði. „Á árinu 2024 var þetta hlutfall 7% en um nokkurra ára skeið var enginn arður greiddur til hluthafa vegna mikilla fjárfestinga í rekstrinum,“ segir á vef Samherja.

Baldvin var ráðinn forstjóri Samherja í sumar þegar faðir hans, Þorsteinn Már Baldvinsson, lét af því starfi eftir 42 ár við stjórnvölinn. Þorsteinn Már hafði verið forstjóri allt frá stofnun félagsins árið 1983.

Greiddu 9,9 milljarða í laun

Hér má sjá nokkrar lykiltölur úr rekstri félagsins á síðasta ári:

  • Samherji seldi afurðir fyrir 66 milljarða króna á síðasta ári og jukust sölutekjur vegna afurða um tæplega 6% frá árinu á undan.
  • Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 9,2 milljörðum króna og dróst saman um tæplega 18% frá árinu á undan.
  • Tekjur af áhrifum hlutdeildarfélaga voru 1,8 milljarðar króna. Tekjur vegna hlutdeildarfélaga lækka nokkuð milli ára sem skýrist af lakari afkomu Síldarvinnslunnar hf. þar sem engin loðnuvertíð var á árinu 2024.
  • Eignir Samherja hf. í árslok 2024 námu 115,8 milljörðum króna og eigið fé var 83,5 milljarðar króna.


  • Eiginfjárhlutfall félagsins í árslok var 72% en var 73% í árslok 2023.
  • Eiginfjárhlutfall hefur haldist hátt undanfarin ár sem endurspeglar miklar fjárfestingar í kjarnastarfsemi og traustan efnahag félagsins.
  • Á árinu 2024 voru að meðaltali 789 ársverk hjá Samherja hf. en þau voru 722 á árinu 2023.
  • Launagreiðslur á árinu námu samtals 9,9 milljörðum króna.
  • Fjölgun ársverka skýrist af því að 2024 var fyrsta heila árið þar sem starfsmenn erlendra sölufélaga voru hluti af samstæðu Samherja eftir að dótturfélagið Ice Fresh Seafood ehf. fjárfesti í þessum fyrirtækjum haustið 2023. Þá voru ráðnir nýir starfsmenn til Samherja fiskeldis ehf. á árinu vegna aukinna umsvifa þess félags.
  • Fjárhæðir í rekstrarreikningi ársreiknings eru umreiknaðar úr evrum í íslenskar krónur á meðalgengi ársins 2024 og upphæðir í efnahagsreikningi á lokagengi ársins.

Fiskvinnsla ÚA á Akureyri. Mynd af vef Samherja.

Botnfiskveiðar og vinnsla gengu vel

Forstjóri Samherja hf., segir að botnfiskveiðar og vinnsla hafi almennt gengið vel á árinu og verð á afurðum hafi haldist gott„Skipafloti félagsins er vel búinn og valinn maður í hverju rúmi. Sama gildir um landvinnslurnar okkar sem hafa vakið alþjóðlega athygli fyrir framúrskarandi tæknilausnir og góðan aðbúnað starfsfólks,“ er haft eftir Baldvin Þorsteinssyni á vef félagsins.

„Í uppsjávarveiðum litast afkoman helst af því að engin loðna var veidd á árinu sem voru eðlilega mikil vonbrigði, bæði fyrir atvinnugreinina sjálfa og þjóðarbúið í heild. Við vonumst eftir því að geta átt gott samstarf við stjórnvöld til að öðlast betri skilning á orsökum þess mikla samdráttar sem hefur orðið í loðnustofninum á undanförnum árum.“


Baldvin segir hækkun veiðigjalda fela í sér auknar byrðar á sjávarútveginn „og mun þýða að félagið þarf að líta í öll horn í rekstrinum til að geta staðið undir aukinni gjaldtöku en á sama tíma haldið áfram að fjárfesta í innviðum og aukinni verðmætasköpun,“ segir forstjórinn.

Fjárfest í landeldi fyrir 7 milljarða

„Ég vek athygli á því að Samherji hefur frá öndverðu lagt ríka áherslu á fjárfestingar í rekstrinum með nýsmíði skipa, byggingu vinnsluhúsa og innleiðingu tæknilausna. Þannig hefur fjárfestingarhlutfall haldist hátt,“ segir Baldvin Þorsteinsson. „Frá því ég varð hluthafi í félaginu á árinu 2019 hefur 88% af hagnaði samstæðu Samherja hf. verið varið til beinna fjárfestinga í veiðum og vinnslu og landeldi. Stefna félagsins er að halda áfram á þessari braut. Stærsta fjárfestingin um þessar mundir er Eldisgarður, nýja landeldisstöðin á Reykjanesi, sem mun skapa fjölda varanlegra heilsársstarfa á staðnum og miklar útflutningstekjur.“

Björg EA 7 við bryggju á Akureyri. Mynd: Þórhallur Jónsson, af vef Samherja.

Frá árinu 2023, fyrir hlutafjáraukningu vegna uppbyggingar Eldisgarðs, hefur Samherji fjárfest í landeldi fyrir rúmlega 7 milljarða króna. Þar er meðal annars um að ræða stækkun landeldisstöðvarinnar í Öxarfirði og innleiðingu á nýrri tækni sem einnig verður notuð í Eldisgarði. Eiginfjárframlög hluthafa vegna uppbyggingar Eldisgarðs nema nú þegar 30 milljörðum króna og er Samherji með tæplega helming fjárhæðarinnar á móti utanaðkomandi fjárfestum. Framkvæmdum vegna fyrsta áfanga Eldisgarðs á að ljúka vorið 2027.

Frekari upplýsingamiðlun

Á vef Samherja kemur fram að félagið stefni að því að efla enn frekar upplýsingamiðlun um starfsemi félagsins „enda virðist full þörf á því sé tekið mið af nýlegri umræðu um íslenskan sjávarútveg í aðdraganda veiðigjaldafrumvarpsins.“ Sem lið í þessu birtir félagið í dag kynningu með helstu upplýsingum um rekstur þess á síðasta ári, hana má sjá neðst í frétt um afkomu félagsins og hér er tengill á glærukynningu með helstu upplýsingum um rekstur félagsins á árinu.

 

Baldvin Þorsteinsson forstjóri Samherja, lengst til vinstri, og stjórn félagsins: Kristján Vilhelmsson, Dagný Linda Kristjánsdóttir varaformaður, Jón Sigurðsson formaður, Ásta Dís Óladóttir og Óskar Magnússon. Mynd: Axel Þórhallsson, af vef Samherja.

Ný stjórn kjörin á aðalfundi


Eins og greint hefur verið frá var ný stjórn Samherja hf. kjörin á aðalfundi félagsins nýverið. Þegar Baldvin Þorsteinsson var ráðinn forstjóri lá fyrir að hann myndi samhliða hætta í stjórn og láta af störfum sem stjórnarformaður. Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Össurar hf. (nú Embla Medical) var kjörinn í stjórnina í stað Baldvins og er hann nýr stjórnarformaður Samherja hf. Jón sat áður í stjórn félagsins frá 2002 til 2006.

Að öðru leyti er stjórn Samherja hf. óbreytt og voru þau Ásta Dís Óladóttir, Dagný Linda Kristjánsdóttir, Kristján Vilhelmsson og Óskar Magnússon endurkjörin á aðalfundinum. Dagný Linda er nýr varaformaður stjórnar.

Feðgarnir Þorsteinn Már Baldvinsson og Baldvin Þorsteinsson þegar tilkynnt var um forstjóraskiptin í maí í vor. Mynd: Þórhallur Jónsson, af vef Samherja.

Þakklæti og virðing

Þorsteinn Már Baldvinsson lét af starfi forstjóra Samherja hf. í lok júní síðastliðinn sem fyrr segir, eftir að hafa gegnt því í 42 ár eða frá stofnun félagsins árið 1983.

„Sjávarútvegur hefur verið ástríða og ævistarf föður míns, Þorsteins Más Baldvinssonar. Það er leitun að manni sem hefur verið eins vakandi yfir rekstrinum og jafn umhugað um allt það fólk sem hjá fyrirtækinu starfar. Í upphafi komst skrifstofa Samherja fyrir á eldhúsborðinu heima en í dag starfa um 800 manns hjá samstæðunni,“ segir Baldvin Þorsteinsson á vef Samherja.

Hann segir óumdeilt að íslenskur sjávarútvegur sé í fararbroddi á heimsvísu og Þorsteinn Már eigi stóran þátt í því „enda hefur hann alla tíð lagt ríka áherslu á innleiðingu tæknilausna, bæði til sjós og lands. Undir hans forystu hefur starfsfólk Samherja haft mikil áhrif á þróun atvinnugreinarinnar á alþjóðavísu með frumkvöðlastarfi í greininni.“

Baldvin Þorsteinsson segir að á þessum tímamótum sé honum efst í huga þakklæti og virðing fyrir mikilvægu framlagi frumkvöðulsins og rekstrarmannsins Þorsteins Más. „Góðu heilli mun hann áfram sinna ýmsum verkefnum fyrir félagið, svo sem uppbyggingu Samherja fiskeldis ehf.,“ segir forstjórinn.