Fara í efni
Pistlar

Sameining sveitarfélaga?

Nú liggur fyrir að lagafrumvarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem m.a. felur í sér breytingar á lágmarksstærð sveitarfélaga í tveimur áföngum, 2022 og 2026, verður ekki afgreitt fyrir jól.

Sveitarfélög með 250 íbúa eða færri munu tilheyra sögunni 2022, verði frumvarpið samþykkt. Fækkar þá sveitarfélögum að óbreyttu úr 69 í 56 þegar árið 2022. Að óbreyttu mun síðan sveitarfélögum í landinu fækka í (líklega) 39 þegar ákvæðið um 1000 íbúa lágmark tekur gildi. Allnokkur fækkun það og víst er að gangi þetta allt eftir mun meintur smásveitarfélagavandi sem tekur til skorts á bolmagni verða að talsverðu leyti úr sögunni. Miðað við hvað þegar er í kortunum um sameiningar og vissar gefnar forsendur um sameiningar sem greinarhöfundur hefur gefið sér, er ekki ólíklegt að Eyjafjarðarsveit verði þá minnsta sveitarfélag á Íslandi. Það yrði saga milli næstu bæja!

Fullyrt heyrist að frumvarpið mæti andstöðu í þinginu, en hversu víðtæk hún er hef ég ekki áttað mig vel á. Frumvörp um sameiningar sveitarfélaga hafa áður þverstoppað í þinginu eða þynnst út í meðförum þess. Ekki þarf þó að vera svo nú og forsendur fyrir því að vera mjög lítið sveitarfélag í dag almennt mun erfiðari en fyrir nokkrum áratugum. Til eru þó dæmi um lítil sveitarfélög sem standa býsna vel og geta boðið nútímanum byrginn. Höldum því til haga.

Væntanlega er það ætlanin að frumvarp Sigurðar Inga Jóhannsson, sveitarstjórnarráðherra, fari í gegn í þinginu vorið 2021. Sjálfsagt verður þröng á þingi með mál þegar dregur að þinglokum í vor. Spurning er hvort frumvarpinu verði fórnað þá? Það eru Alþingiskosningar haustið 2021. Málefnið „Sameining sveitarfélaga“ hefur aldrei verið talið til mála sem telja má forgangsmál í íslenskum stjórnmálum eða „high politics“ og því kannski spurning hvað þrýst verður þétt á eftir framgangi þess þegar kosningar eru fram undan.

Kerfisbreytingar eða uppstokkun á kerfum eru einatt umdeildar. Slíkur málarekstur er ekki líklegur til að vinna kosningar fyrir stjórnmálamenn, síst líklega þá sem eru í kjördæmum utan höfuð­borgar­svæðisins. Munu þingmenn og jafnvel flokkar horfa til fylgisrýrnunar ef svona breytingar eru gerðar skömmu fyrir kosningar? Ekki er samt gott að átta sig á því hvort þegar sé búið að semja um framgang málsins meðal stjórnarflokka, hvað veit ég? Það fer þó ekki hjá því að þessi hugsun að frumvarpið falli óbætt hjá garði læðist að manni nú þegar fram undan er kosninga-síðvetur og vor í aðdraganda septemberkosninga. Vonandi verður svo ekki. Að baki því að sameina að minnsta kosti minnstu sveitarfélögin eru ýmis rök sem varla verður andmælt. Við sem höfum áhuga á málaflokknum munum fylgjast spennt með komandi vorþingi.

Grétar Þór Eyþórsson er stjórnmálafræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri.

Afleiðingar hins græna lífsstíls

Sigurður Arnarson skrifar
24. júlí 2024 | kl. 10:00

OpenAI: Gervigreindarbyltingin á hraðferð – er kapp best með forsjá?

Magnús Smári Smárason skrifar
23. júlí 2024 | kl. 20:00

Er unga fólkið döngunarlaust?

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
23. júlí 2024 | kl. 06:00

Þjóðvegir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. júlí 2024 | kl. 11:30

Hús dagsins: Syðra-Gil

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
21. júlí 2024 | kl. 10:30

Skautun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
21. júlí 2024 | kl. 10:00