Fara í efni
Umræðan

Rekstur ÖA frá bænum til einkaaðila

Rekstur ÖA frá bænum til einkaaðila

Þann 15. apríl var tilkynnt að samkomulag hefði tekist á milli Sjúkratryggingar Íslands og einkafyrirtækisins Heilsuverndar hjúkrunarheimili ehf. um rekstur öldrunarheimilanna á Akureyri (ÖA). Samkvæmt fréttum er um rekstur á hjúkrunar- og dvalarheimilunum Hlíð og Lögmannshlíð að ræða, auk dagþjálfunar fyrir eldri íbúa Akureyrar. Heilsuvernd mun samkvæmt því sem fram hefur komið taka yfir allan þennan rekstur þann 1. maí nk. á baráttudegi verkafólks og verður þar með einn stærsti vinnuveitandi á Akureyri. Tekið skal strax fram að ég þekki ekki til fyrirtækisins og athugasemdir mínar snúast ekki um það sem slíkt.

Bæjarstjórinn á Akureyri hefur lýst ánægju sinni með þennan samning og talar þar eflaust fyrir hönd bæjarstjórnar allrar, enda eru þar allir sem einn maður. Forstjóri Sjúkratrygginga Íslands er einnig mjög ánægð með að rekstur hjúkrunarheimila sé kominn í umsjá fyrirtækisins og ekki eru eigendur fyrirtækisins síður ánægðir með ráðahaginn. Allir málsaðilar virðast ánægðir og glaðir. Það lítur því út fyrir að hvergi sé að heyra gagnrýnisrödd á að rekstur ÖA sé nú úr höndum bæjarins og kominn í hendur einkaaðila. En er það virkilega þannig? Eiga bæjarfulltrúar í bæjarstjórn Akureyrar engu ósvarað um stærstu einkavæðingu sem orðið hefur í heilbrigðismálum á Akureyri?

Það vekur furðu mína að einkafyrirtæki, þar sem arðsemissjónarmið ráða för, hafi tekist að semja með hagkvæmari hætti við Sjúkratryggingar Íslands en Akureyrarbær treysti sér til. Þar ráða þó önnur lögmál um slíkan rekstur en hagnaðarsjónarmið. Hvað gerði það að verkum að einkafyrirtæki nær betri samningum um rekstur ÖA en Akureyrarbær? Hvernig sér fyrirtækið fyrir sér að ná arðsemi úr rekstri öldrunarheimilanna sem Akureyrarbær treysti sér ekki til að reka á sléttu?

Bæjarstjórn Akureyrar þarf að útskýra betur en gert hefur verið langvarandi halla á rekstri ÖA og hvernig það gat gerst að bærinn missti tökin á rekstrinum með þessum afleiðingum. Svör bæjarstjórnar og einstakra bæjarfulltrúa á opinberum vettvangi hafa mér ekki fundist vera fullnægjandi til þessa. Kjörnir fulltrúar einstakra flokka í bæjarstjórn verða einnig að útskýra afstöðu sína og færa gild rök fyrir stuðningi sínum og ánægju með þá lendingu sem orðin er. Sömuleiðis hlýtur það að teljast eðlileg krafa að bæjarfulltrúar geri bæjarbúum grein fyrir því hvað bar á milli þess samnings sem fyrirtækið Heilsuvernd hjúkrunarheimili ehf. gerði við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur ÖA og hins vegar þess sem bæjarstjórn Akureyrarbæjar hvarf frá eða treysti sér ekki til að ganga að.

Að lokum óska ég einkafyrirtækinu Heilsuvernd hjúkrunarheimili ehf. velfarnaðar við rekstur Öldrunarheimila Akureyrar.

Björn Valur Gíslason er sjómaður og fyrrverandi alþingismaður

Réttindi neytenda á tímum Covid

Brynhildur Pétursdóttir skrifar
13. nóvember 2020 | kl. 13:00

Jónas Hallgrímsson

Tryggvi Gíslason skrifar
16. nóvember 2020 | kl. 07:15

Jón Sveinsson - Nonni

Haraldur Þór Egilsson skrifar
17. nóvember 2020 | kl. 10:30

Matthías Jochumsson

Tryggvi Gíslason skrifar
18. nóvember 2020 | kl. 17:09

Íslenska, nútími og lestur

Sverrir Páll skrifar
19. nóvember 2020 | kl. 10:10

Bílastæðaklukkur í miðbæ Akureyrar

Anna Kolbrún Árnadóttir skrifar
20. nóvember 2020 | kl. 10:00