Fara í efni
Fréttir

Persónuleg samskipti eru nauðsynleg

Steinn Símonarson við bás Samherja á sýningunni í Barcelona. Myndir af vef Samherja.

Fjögur akureyrsk fyrirtæki, Samherji, Vélfag, Slippurinn og Frost, tóku þátt í alþjóðlegu sjávarútvegssýningunni Seafood Expo Global sem haldin var í Barcelona núna í vikunni. Samherji var með stóran og glæsilegan bás á sýningunni, eins og sjá má af myndum sem fylgja fréttinni. Auk þess hefur matseld Einars Geirssonar, veitingamanns á Rub 23, jafnan vakið athygli og dregið enn fleiri að bás Samherja á þessari sýningu og fleirum.

Risastór sýning, þátttakan mikilvæg

Á vef Samherja er rætt við Stein Símonarson, aðstoðarframkvæmdastjóra Ice Fresh Seafood, en það fyrirtæki sér um að selja afurðir Samherja og fleiri fyrirtækja. Steinn segir sölu afurðanna skipta gríðarlega miklu máli því það sé ekki nóg að veiða og vinna fiskinn. „Góður árangur í markaðssetningu er sterkur hlekkur í keðjunni og þátttakan á Seafood Expo Global er því mikilvæg,“ segir Steinn í fréttinni vef Samherja.

Sýningin sjálf er risastór og fer fram í nokkrum höllum og er hún stundum nefnd árshátíð alþjóðlegs sjávarútvegs. Steinn segir sýninguna mikilvæga í markaðs- og sölumálum. „Þessi sýning er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum og hérna eru öll helstu fyrirtækin, hvort sem um er að ræða veiðar, vinnslu eða sölu afurða,“ segir Steinn.

Glæsilegur bás, góðar afurðir trekkja að

Bás Samherja var glæsilegur og vakti athygli. „Já, básinn er vel útbúinn á allan hátt og aðstaðan til að taka á móti gestum er eins og best verður á kosið,“ segir Steinn. Básinn var á tveimur hæðum þannig að þegar á þurfti að halda var hægt að ræða við gesti og viðskiptavini í næði. „Básinn er auk þess á áberandi stað, þannig að við erum vel sett á allan hátt.“ Steinn nefnir svo auðvitað matseld Einars Geirssonar sem við höfum fjallað um. „Samherji er þekkt fyrirtæki fyrir gæði og góðar afurðir og maturinn á básum Samherja hefur alltaf verið rómaður af gestum.“

Steinn segir markmiðið með þátttöku í svona sýningu ekki endilega vera að ganga frá samningum, heldur að treysta viðskiptasambönd og stofna til nýrra. „Starfsfólk okkar er með bókaða fundi frá morgni til kvölds, þannig að þetta er hörkuvinna, en líka skemmtileg og gefandi. Persónuleg samskipti eru nauðsynleg þrátt fyrir að rafræn samskipti hafi rutt sér mjög til rúms á undanförnum árum,“ segir Steinn Símonarson hjá Ice Fresh Seafood.