… og við hvað á fólkið svo að vinna?

Af akureyskum félagsmiðstöðvum
Það eru vissulega jákvæðar fréttir að tekist hafi að manna flestar stöður í æskulýðsmálum á Akureyri, en það leysir ekki þann grundvallarvanda sem skipulagsbreytingarnar í málaflokknum hafa skapað. Í þessu máli var byrjað á öfugum enda: í stað þess að leggja faglega vinnu til grundvallar, með nefnd og heildstæðu mati á starfseminni, var tekin einhliða og fyrirvaralaus stjórnvaldsákvörðun um að færa félagsmiðstöðvarnar í verki undir stjórn skólanna.
Félagsmiðstöðvastarf er ekki viðhengi í hefðbundnu skólastarfi heldur sjálfstætt fræðasvið: félagsuppeldisfræði. ( sjá umfjöllun um félagsuppeldisfræði hér : Kaflinn Félagsuppeldi og frítíminn, bls. 15 í bókinni Frístundir og fagmennska) Þar liggja sérhæfð fræðileg sjónarmið og faglegar aðferðir sem hafa mótast áratugum saman og skapað starf sem er ólíkt öllu öðru innan uppeldisgeirans. Félagsmiðstöðvar byggja á lýðræðislegum vinnubrögðum, félagsfærni, menningarsköpun og forvörnum og veita ungmennum vettvang sem er óháður skólakerfinu og öðrum kerfum sem unglingar eiga í samskiptum við. Að gera félagsmiðstöðvar að undirdeild í skóla er einfaldlega fag- og fræðilega rangt.
Reynslan hefur sýnt að þegar félagsmiðstöðvar eru látnar lúta öðrum kerfum, sem þær eiga ekki heima í, glatast sérstaða þeirra. Þær eiga að leysa vanda sem tilheyrir öðrum, eiga að leysa vanda skólans á skólans forsendum og missa þar með svigrúm sitt til að sinna sínum eigin markmiðum. Afleiðingin verður tómarúm, átök milli faggreina og veiking þeirrar fagþróunar sem félagsmiðstöðvar hafa byggt upp sem mikilvægan hluta af velferðarkerfi barna og ungmenna.
Það sem greinir félagsmiðstöðvar frá skólum er einmitt heildaryfirsýn þeirra á unglingamenninguna í sveitarfélaginu öllu og ekki síður þær forsendur sem félagsmiðstöðvar geta mætt börnum og ungmennum á. Unglingar eru ekki bundnir við einn skóla í daglegu lífi sínu heldur fara milli hverfa, hópa og menningarheima. Félagsmiðstöðvar vinna þvert á þessi mörk og eru því í lykilstöðu til að samræma viðbrögð samfélagsins þegar áskoranir koma upp í unglingaumhverfinu. Skólar eru ekki starfandi allt árið, viðfangsefni sumarsins á sviði tómstunda- og frístundamála eru margvísleg eins og sumarnámskeið og þjónusta við ýmsa þá hópa barna og ungmenna og eru því ákjósanlegt verkefni félagsmiðstöðva/frístundadeilda eins og víðast hvar er reyndin. Að fela einstökum skólastjórum, með illa ígrundaðri stjórnsýsluákvörðun, í raun forræði og húsbóndavald yfir þessum mikilvæga málflokki er því bæði óraunhæft og ófaglegt.
Fyrsta og brýnasta verkefnið nú er að móta stjórnkerfi sem byggir á félagsuppeldisfræðilegum forsendum, ekki á skólakerfinu. Reykjavík hefur sýnt fram á að slíkt er hægt með því að þróa sterka frístundadeild innan Skóla- og frístundasviðs, þar sem fræðin og fagþekkingin sjálf er höfð í forgrunni. Sú leið tryggir að félagsmiðstöðvar haldi áfram að vera sjálfstæður, faglegur vettvangur þar sem ungmenni geta notið lýðræðislegra vinnubragða, félagslegs öryggis og skapandi menningarstarfs á eigin forsendum.
Félagsmiðstöðvar eru því ekki og geta aldrei orðið eitthvert viðhengi við skóla. Þær eru sérstakt fræðasvið sem á sér eigin sögu, eigin aðferðir og ómetanlegt gildi fyrir samfélagið. Að halda því faglegu sjálfstæði og forræði málaflokksins er forsenda þess að félagsmiðstöðvastarf á Akureyri sem og annars staðar dafni áfram.
Árni Guðmundsson er félagsuppeldisfræðingur


Sveitarstjórnarpólitík: Hvað þarf að laga, og hvernig?

Brautin rudd fyrir nýtingu glatvarma

Meira fyrir minna

Kveikjum á kerti fremur en að kvarta yfir myrkrinu
