Mygla á Borgum: Ekki hvetjandi starfsumhverfi

Það er tómlegt á Borgum þessa dagana en viðamiklar framkvæmdir standa yfir á öllum hæðum vegna raka og myglu. Eina fólkið sem er eftir í húsinu er starfsfólk Jafnréttisstofu og eins er óskert starfsemi hjá Fiskistofu, en húsnæði þeirra var allt tekið í gegn í fyrra eftir að mygla kom þar upp.
„Það er mjög sérstakt að starfa í þessu umhverfi, umkringd tómum skrifstofum og dóti sem hefur verið skilið eftir á göngunum. Þetta er ekki hvetjandi starfsumhverfi og við bjóðum ekki fólki að koma hingað í þetta ryk og drasl,“ segir Martha Lilja Olsen, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, sem er orðin langþreytt á ástandinu.
- Í GÆR – HÁSKÓLINN: VERULEG RÖSKUN VEGNA MYGLU
- Á FIMMTUDAG – ENN FRAMKVÆMDIR Á BORGUM VEGNA MYGLU
Gangar og sameiginleg rými á Borgum eru uppfull af húsgögnum og ýmsu dóti. Þungt loft mætir gestum í anddyri og Martha segir að starfsfólk Jafnréttisstofu veigri sér við að bjóða fólki í heimsókn á sína starfsstöð.
Bíða eftir því að röðin komi að þeim
Eins og Akureyri.net greindi frá í gær standa yfir viðamiklar endurbætur á húsnæði Borga og bíður starfsfólk Jafnréttisstofu þess að röðin komi að þeim í framkvæmdunum. Mygla fannst á þeirra starfsstöð í mælingum í fyrra, en eftir að mygla var staðfest aftur í húsinu í vor ákváðu eigendur hússins að skipt yrði um gólfefni í öllum rýmum hússins þrátt fyrir að mygla hafi ekki fundist í þeim öllum að þessu sinni. Þegar röðin kemur að Jafnréttisstofu þarf starfsemin að flytja annað. Að sögn Mörthu er enn óljóst hvenær framkvæmdir hefjast eða hversu langan tíma þær taka eða hvert starfsemin flytur á meðan. „Við erum aftast á forgangslistanum og framkvæmdum hefur seinkað. Þetta gerir okkur að sjálfsögðu erfitt fyrir að skipuleggja starfsemina fram í tímann,“ segir hún, en alls starfa átta manns hjá stofnuninni.
Við þurfum að finna húsnæði sem tryggir heilnæmt vinnuumhverfi og stöðugleika
Fiskistofa er í endurbættu húsnæði og starfsfólkið þar og starfsfólk Jafnréttisstofu er svo gott sem eina fólkið sem sést í húsnæðinu á Borgum fyrir utan iðnaðarmenn og hreingerningarfólk.
Vilja flytja stofnunina annað
Leigusamningur Jafnréttisstofu við Reiti gildir til ársins 2029 en Martha telur ekki líklegt að leigusamningurinn verði endurnýjaður. „Við sjáum ekki endilega framtíð okkar hér í Borgum,” segir Martha og bætir við að mygluvesenið undanfarið eitt og hálft ár, sem og ófullnægjandi upplýsingagjöf frá leigusala, hafi vissulega ýtt undir þá ákvörðun. Þá segir hún að Jafnréttisstofa sé ekki bundin við að vera á háskólasvæðinu heldur geti hún allt eins verið annars staðar í bænum með sína starfsemi. Segir Martha að aðrir húsnæðismöguleikar sem henti þeim betur séu í skoðun. „Við þurfum að finna húsnæði sem tryggir heilnæmt vinnuumhverfi og stöðugleika,“ segir Martha að lokum.
Hluti af starfsfólki Jafnréttisstofu. Þau eru enn á Borgum en þau reikna með því að þurfa að flytja sig um set þegar framkvæmdir hefjast í þeirra rými.
- Í GÆR – HÁSKÓLINN: VERULEG RÖSKUN VEGNA MYGLU
- Á FIMMTUDAG – ENN FRAMKVÆMDIR Á BORGUM VEGNA MYGLU