Fara í efni
Fréttir

Háskólarnir verða ekki sameinaðir

Háskólinn á Akureyri. Mynd: Þorgeir Baldursson

Háskólaráð Háskólans á Akureyri hefur ákveðið að hætta frekari viðræðum um sameiningu við Háskólann á Bifröst og hefur tilkynnt stjórnendum skólans um ákvörðun sína ásamt Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu. Niðurstaðan var samþykkt einróma og gerð að vandlega athuguðu máli.

Þannig hefst tilkynning sem barst frá rektor Háskólans á Akureyri rétt í þessu.

Þar segir: „Viðræður skólanna hafa staðið yfir síðan haustið 2023 en vinnan að sameiningu hefur leitt í ljós að sumar af mikilvægustu forsendum sameiningar stóðust ekki nánari rýni. Ein mikilvægasta forsendan við upphaf vinnunnar var að hægt yrði að sameina rekstrarform skólanna tveggja og að nýr skóli yrði áfram opinber háskóli.“

Engin fordæmi

Í tilkynningunni segir að í vinnunni hafi komið í ljós að afar erfitt myndi reynast að fella starf Háskólans við Bifröst, sem er sjálfseignarstofnun, að rekstrarformi Háskólans á Akureyri og í raun séu engin fordæmi fyrir slíku. „Sá möguleiki að nýr sameinaður háskóli yrði alfarið opinber stofnun og starfsfólk hans allt opinbert starfsfólk var ekki mögulegur. Því var ljóst að sameiningin yrði afar flókin og tímafrek og skapaði óvissu um langa hríð.“

Önnur grundvallarforsenda sameiningar skólanna var að með sölu eigna Bifrastar og með framlagi frá stjórnvöldum væri hægt að setja á fót öflugan rannsóknarsjóð, segir í tilkynningunni. „Um það atriði ríkir hins vegar mikil óvissa vegna rekstrarformsins og er það niðurstaða Háskólaráðs að nýr háskóli gæti ekki haft stefnumótandi og stýrandi aðkomu að slíkum sjóði.“

Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor Háskólans á Akureyri: Ef við náum ekki að uppfylla það hlutverk sem okkur er ætlað er betur heima setið.

„Mikilvægt að vera raunsæ“

„Samtalið við Háskólann á Bifröst hefur verið ánægjulegt, uppbyggilegt og unnið af miklum heilindum. Þótt kostir við sameiningu séu vissulega til staðar þá er mikilvægt að vera raunsæ, líta á heildarmyndina og það hlutverk sem okkur er ætlað. Ef við náum ekki að uppfylla það er betur heima setið og það teljum við heillavænlegast fyrir báða skóla á þessum tímapunkti,“ segir Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor Háskólans á Akureyri í tilkynningunni. „Háskólinn á Akureyri hefur stækkað og eflst verulega á undanförnum árum og stúdentum fjölgað. Það er metnaðarmál okkar allra sem að skólanum stöndum að byggja undir þá þróun. Um leið og skólinn er kjölfesta í samfélaginu okkar þarf hann að vera samanburðar- og samkeppnishæfur við aðra skóla og það er eitt af okkar aðalmarkmiðum.“

Hlusta á kröfur úr nærsamfélaginu

Í tilkynningunni segir að Háskólaráð telji mikilvægt að Háskólinn á Akureyri haldi í forgangi markmiði sínu um að efla enn frekar mikilvægi skólans fyrir Akureyri og nærliggjandi svæði enda skipti skólinn miklu máli fyrir samkeppnishæfi svæðisins, t.a.m. hvað varðar atvinnulíf, búsetugæði, menningu og fræðasamfélag. „Þá hafa komið fram kröfur um að auka veg staðnáms við skólann og gera sýnilegra, meðal annars frá fræðasamfélaginu á Akureyri, stúdentum, bæjaryfirvöldum og fleiri mikilvægum hagaðilum í tengslum við umræður um sameiningu. Háskólaráð telur mikilvægt að hlusta á þessar kröfur og breytingar á starfsemi skólans taki mið af þeim.“

Tilkynningunni lýkur með þessum orðum:

„Stjórnendur Háskólans á Akureyri og Háskólaráð þakka stjórnendum, starfsfólki og nemendum Háskólans við Bifröst fyrir uppbyggilega og góða vinnu síðustu misseri. Vinnan að sameiningunni hefur skapað tengsl milli skólanna sem von er til að geti orðið grunnur að nýju, öflugu samstarfi skólanna tveggja og vináttu til framtíðar.“