Mikilvægt að fara að reglum

Opið bréf til Hlínar Benediktsdóttur í kjölfar greinar hennar Blöndulína, samtalið, umhverfismat og heilsufar
_ _ _
Ágæta Hlín.
Þakka góðar kveðjur!
Mikilvægt er að Blöndulína 3 fái framgang samkvæmt reglum sem stjórnvöld móta. Það er ekki hlutverk Akureyrarbæjar að verjast Landsneti þegar um er að ræða loftlínur á íbúðar og þróunarsvæði. Landsnet þarf að sýna fram á að það virði stefnu stjórnvalda, þegar um þéttbýlisákvæði stefnunnar er að ræða og nýti viðeigandi lausnir. Það tel ég Landsnet ekki hafa gert og vísa þar m.a. til orða ráðherra á Alþingi.
Innan skilgreinds þéttbýlis norðan Rangárvalla hefur Landsnet tvo valkosti, en velur að bjóða Akureyringum þann lakari, þvert á stefnu stjórnvalda um raflínur. Það er ekki út í bláinn að loftlínur af þessu kalíberi eru taldar óæskilegar við íbúðabyggð.
Þú nefnir kynningarfund á Hótel KEA. Kannski er þar upplagt tækifæri til að skýra mismunandi valkosti fyrir íbúum: Útfærslur á loftlínuhugmyndum Landsnets og áhrif þeirra, ásamt hugmyndum Akureyrarbæjar að 1,3 - 2 km jarðstreng. Kallað er eftir báðum sjónarmiðum um áhrif og sýnileika, sem lítt eða ekki hafa verið kynnt.
Nýlegar breytingar Landsnets á legu loftlínunnar innan Akureyrar hafa enga kynningu fengið enn og voru ekki hluti af lögbundnu umhverfismati.
Þriggja km jarðstrengsleið frá Rangárvöllum að Kífsá hefur hinsvegar verið á aðalskipulagi Akureyrar frá 2012, að tillögu Landsnets.
Upplýst umræða og kynning af þessu tagi gæti verið farsæll áfangi til málamiðlunar um leið Blöndulínu 3 innan skilgreinds þéttbýlis Akureyrar, sem nýtur lögbundinnar sérstöðu.
Víðir Gíslason er Akureyringur


Án öflugs atvinnulífs megum við okkur lítils

Hvað þarf Sjálfstæðisflokkurinn?

Höfuðborgin Reykjavík og aðgengi landsbyggðarbúa

Sjá, þannig skal vandað til þess, sem á lengi að standa
