Fara í efni
Umræðan

Loksins fær þyrlan heimili fyrir norðan

Því ber að fagna að ríkisstjórn Íslands hafi borið gæfa til að setja fjármuni í fasta starfsstöð Landhelgisgæslunnar á Akureyri, eitthvað sem ég hef barist fyrir sem þingmaður Norðausturkjördæmis undanfarin ár. Nú síðast lagði ég fram þingsályktunartillögu þess efnis í mars sl.

Lítið hafði frést af þessum máli þar til ég las á hinni ágætu fréttasíðu okkar Akureyringa, akureyri.net, að Kristrún Frostadóttir staðfesti á morgunfundi í kaffiteríu Akureyrarflugvallar að búið væri að samþykkja frambúðar viðbótarfjárveitingu sem gæti m.a. farið í að fjármagna viðveru áhafna.

Þegar ég hóf að tala fyrir þessu á Alþingi fyrir nokkrum árum var það einkum vegna öryggis landsbyggðarinnar, jafnræði í aðgengi að björgunarþjónustu og nauðsyn þess að stytta viðbragðstíma í neyð. En nú hafa bæst við sterkari rök. Á síðustu árum hafa flotaheimsóknir, herskip og jafnvel kjarnorkukafbátar gert sig heimakomna á Eyjafirði. Norðausturhornið er ekki lengur jaðar – það er orðið miðpunktur í alþjóðlegri athygli.

Það liggur fyrir að til staðar eru öflugir innviðir á Akureyri – flugvirkjar, heilbrigðisstarfsfólk, sérsveit, og jafnvel núverandi flugstjórar Landhelgisgæslunnar sem búa í nærsveitum. Þess vegna er bæði hagkvæmt og skynsamlegt að staðsetja þar þyrlu. Þetta er ekki bara málefni Norðurlands, heldur þjóðaröryggismál.

Þó enginn stjórnarliði úr flokki forsætisráðherra hafi tekið þátt í umræðunni þegar ég mælti fyrir þessu á Alþingi fyrir tveimur mánuðum síðan var fólk greinilega að hlusta og tökum við Norðlendingar þessum fréttum fagnandi.

Þó þetta sé löngu tímabær aðgerð er mikilvægt að gert verði ráð fyrir þessari fjárveitingu í nýrri fjármálaáætlun 2026-2030 og síðan í fjárlögum fyrir árið 2026. Það er vonandi að þyrlan fái að fljúga norður og þetta hafi ekki bara verið orðin tóm í tilefni dagsins.

Njáll Trausti Friðbertsson er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

„Akureyrar ákvæðið“ um lagningu raflína í þéttbýli

Karl Ingólfsson skrifar
26. janúar 2026 | kl. 16:30

Hreint ekki eins og atvinnuviðtal

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
26. janúar 2026 | kl. 13:00

Tjaldsvæðisreiturinn auglýstur „til sölu“

Benedikt Sigurðarson skrifar
25. janúar 2026 | kl. 10:00

Gott að eldast

Kristín Áslaug Guðmundsdóttir skrifar
19. janúar 2026 | kl. 08:00

Hafirðu ekkert gott að segja er betra að þegja!

Hlín Bolladóttir skrifar
16. janúar 2026 | kl. 11:25

Samstaða í ferðaþjónustu aldrei mikilvægari

Halldór Óli Kjartansson skrifar
13. janúar 2026 | kl. 06:00