Fara í efni
Umræðan

Lægri fjármagnskostnaður, er krónan góð fyrir landsbyggðirnar?

NORÐAUSTURKJÖRDÆMI – 6

Sem fræðimaður og áhugamaður um byggðamál skrifa ég hér átta stuttar greinar um mikilvægustu málin í Norðausturkjördæmi að mínu mati.

Í sjötta sæti er lægri fjármagnskostnaður, háir vextir hafa farið illa með landsbyggðirnar.

Hugsum okkur fámennt land, þar hefur verið ládeyða í efnahagslífi, fólksfjölgun lítil sem engin, ungt fólk flytur burtu og lítil bjartsýni. Þetta land þyrfti örvun með lágum vöxtum. Með lágum vöxtum kemur hvati til að fjárfesta, það er auðveldara að hrinda nýjum hlutum í framkvæmd og reka fyrirtæki. Fyrir heimilin í þessu landi verður meiri hvati til að nota peningana í eitthvað í stað þess að spara þá ef vextir eru lágir. Það verður meiri eftirspurn eftir vörum og þjónustu. Allt hefur þetta efnahagsleg örvunaráhrif og stuðlar að þvi að ládeyðan víki fyrir bjartsýni og framtakssemi. Ef aftur á móti þetta land þarf að búa við háa vexti þá eru líkur á að ládeyðan haldi áfram, ár eftir ár, áratug eftir áratug. Háir vextir dempa efnahagslíf. Þess vegna eru vextir hækkaðir í þenslu.

Landsbyggðirnar á Íslandi hafa að mörgu leyti verið í stöðu landsins fámenna. Þær hafa verið að strögla áratugum saman í allt of háu vaxtaumhverfi þegar þær bráðvantaði lægri vexti, lægri fjármagnskostnað. Atvinnugreinin sem helst hefur blómstrað í landsbyggðunum er sjávarútvegur sem einmitt þarf ekki að fjármagna sig í íslenskri krónu.

En af hverju er þá ekki ládeyða líka á hbs (höfuðborgarsvæðinu) þegar vextir eru háir? Í ríku landi eru höfuðborgaráhrifin svo sterk og sogið af afrakstri auðlindanna svo mikið að þar virðist blómlegt atvinnulíf geta lifað þótt fjármagnskostnaður sé hár. Hbs mun alltaf vera í góðum málum hverjir sem vextirnir eru enda eru vextirnir á íslensku krónunni miðaðir við efnahagslífið þar. Landsbyggðirnar eru afgangsstærð í efnahagsstjórnun.

Við erum búin að fullreyna íslensku krónuna. Við erum búin að reyna núverandi fyrirkomulag með frjálsu gengi og verðbólgumarkmiði Seðlabankans í aldarfjórðung. Niðurstaðan er að það verða alltaf hærri vextir á Íslandi en annarsstaðar. Íslenska krónan mun áfram hafa þau áhrif á landsbyggðirnar að halda þeim niðri, að ströglið haldi áfram.

Hvað er þá til ráða? Hvað getum við gert til að lækka fjármagnskostnað landsbyggðanna og gefa þeim séns? Vera með annan gjaldmiðil á landsbyggðunum? Nei, varla.

Það vill svo til að það er til leið sem bætir þetta ástand. Það er að ganga í Evrópusambandið og taka upp annan gjaldmiðil, evru. Fjármagnskostnaður í evru er miklu lægri en í íslensku krónunni og hentar landsbyggðunum mun betur. Evran ætti að gefa byggðum landsins nýja og sumstaðar langþráða vítamínsprautu.

Eitt það besta sem stjórnvöld gætu gert fyrir Norðausturkjördæmi og aðrar landsbyggðir væri að losa þær undan krónunni og taka upp evru.

Jón Þorvaldur Heiðarsson er lektor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri

75 ár af evrópskri samheldni og samvinnu

Clara Ganslandt skrifar
09. maí 2025 | kl. 16:30

Stækkun og endurbætur á félagsaðstöðu í Víðilundi

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson skrifa
08. maí 2025 | kl. 13:45

Líflínan

Ingibjörg Isaksen skrifar
07. maí 2025 | kl. 08:00

Samstaða, kjarkur og þor

Björn Snæbjörnsson skrifar
05. maí 2025 | kl. 15:00

Um nesti, fótbolta og fótbolta kvenna

Þór Karls skrifar
30. apríl 2025 | kl. 06:00

Afgangur og þrír þræðir jarðtengingar

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
15. apríl 2025 | kl. 16:00