Fara í efni
Umræðan

Komið að skuldadögum

Ný ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum með skýrt leiðarstef; að rjúfa kyrrstöðu og hefja sókn við uppbyggingu innviða. Við stöndum frammi fyrir mikilli áskorun, enda blasir við vegakerfi sem hefur setið á hakanum um árabil.

Vegakerfið er ein stærsta eign íslenska ríkisins og nauðsynlegt að halda því við. Nýleg dæmi eru um að slitlag hafi hreinlega gefið sig og Vegagerðin neyðst til að grípa til þess örþrifaráðs að fræsa upp klæðningu sem orðin var hættuleg ökumönnum.

Viðbótarframlag — strax

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að veita þriggja milljarða króna viðbótarframlag til viðhalds á vegakerfinu á þessu ári. Þannig bregðumst við strax við brýnustu þörfinni. Það jafngildir um 25% aukningu miðað við meðalframlög síðustu ára. Þetta er yfirlýsing um breytta forgangsröðun stjórnvalda.

Þessi fjárveiting skiptist í tvo meginflokka; annars vegar í styrkingu burðarlaga vega og hins vegar í endurnýjun slitlaga. Auk þess verður sérstaklega farið í malbikun á þekktum blæðingarköflum. Öll verkefni sem Vegagerðin ræðst í strax í sumar voru tilbúin til útboðs en hefðu ekki farið af stað á þessu ári nema með ákvörðun um aukafjárveitingu.

Hvert fer viðbótarframlagið?

Verkefnin dreifast um allt land. Á Vesturlandi og Vestfjörðum munum við ráðast í fjölmörg verkefni. Þar má nefna viðgerðir á Vestfjarðarvegi, Barðastrandarvegi, Útnesvegi og Bíldudalsvegi, þar sem íbúar hafa lengi kallað eftir úrbótum. Á Suðurlandi verður farið í endurbætur á Laugarvatnsvegi og á Norðurlandi verða teknir fyrir kaflar á Hringveginum, til dæmis í Ljósavatnsskarði, auk þess sem ráðist verður í endurbætur á Hólavegi í Hjaltadal. Þar er umferðarþungi mikill og slysatíðni há. Landsmót hestamanna verður haldið á Hólum í Hjaltadal sumarið 2026 og því mikilvægt að vegurinn sé vel undirbúinn. Á Austurlandi verður einnig ráðist í mikilvægar endurbætur á Hringveginum. Loks verður farið í malbikun á nokkrum þekktum blæðingarköflum, svo sem í Bakkaselsbrekku í Öxnadal.

Sókn til framtíðar

Vegfarendur munu strax taka eftir sýnilegum umbótum á vegakerfinu. Miðað við gildandi fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030 er gert ráð fyrir enn frekari sóknarleik. Aukið fjármagn er meðal annars tilkomið vegna breytinga á útreikningi veiðigjalda sem nú eru til umræðu á Alþingi. Áætlað er að árleg hækkun framlaga eingöngu til viðhalds muni nema allt að 5,5 milljörðum króna. Þetta jafngildir um 45% aukningu frá því sem verið hefur. Ég vonast til þess að landsmenn upplifi þegar í stað jákvæða breytingu og finni að nú er sleginn nýr tónn í málefnum innviða á Íslandi. Við ætlum okkur að gera betur. Við eigum að gera betur.

Eyjólfur Ármannsson er innviðaráðherra

Meira fyrir minna

Sigurjón Þórðarson skrifar
14. ágúst 2025 | kl. 14:00

Kveikjum á kerti fremur en að kvarta yfir myrkrinu

Rúnar Sigþórsson skrifar
07. ágúst 2025 | kl. 11:00

Væri ekki hlaupið út aftur

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. ágúst 2025 | kl. 19:00

Aðflugsljós við Leiruveg

Víðir Gíslason skrifar
30. júlí 2025 | kl. 15:30

Mikilvægara en veiðigjöldin

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
09. júlí 2025 | kl. 15:00

Að klára verkefnin – hvað er í gangi á Ásnum ?

Jón Stefán Jónsson skrifar
07. júlí 2025 | kl. 08:50